DAVE og trúin á siðvitund

Örlítið ská innlegg í tilefni forsetakosninga í Bandaríkjunum

Hollywood myndir hafa gjarnan – og stundum réttilega – verið hafðar að skotspæni gegnum tíðina fyrir þá hugmynd að kerfið sé í öllum meginatriðum gott og tilraunum illra afla til að taka það yfir verði ávallt hrundið. Slík gagnrýni á vissulega rétt á sér en oft gleymist að huga að því að slík verk eru yfirleitt ekki sett fram sem einhverskonar samfélagsgreining heldur er áherslan á ferðalag persónunnar, hvernig hún tekst á við þær hindrandir sem fyrir hana eru lagðar.

Verkum með þessa jákvæðu samfélagskerfishugmynd að útgangspunkti hefur reyndar fækkað mjög á síðari árum. Við lifum á kaldhæðnari tímum. House of Cards á meira skylt við Ríkharð III heldur en Frank Capra.

Beint út úr Capra

Klassíkin Dave (1993) eftir Ivan Reitman er meginstraums vellíðunar kómedía um mann sem er tvífari forsetans og er settur í djobbið þegar forsetinn fær hjartaáfall í miðjum framhjáhalds samförum. Sá er skíthæll en tvífarinn er góðmenni, beint útúr Capra mynd. Báðir eru leiknir af Kevin Kline.

Þessi staðgengilsuppstilling er útí hött og eitt allsherjar gatasigti en einhvernveginn kemur það ekki mikið að sök þar sem ætlan og áskorun aðalpersónu er skýr og vel er spilað úr von og ótta áhorfandans. Þetta er semsagt þétt Hollywood froða sem auðvelt er að hafa nokkuð gaman af og mættu margir af því læra.

En söguheimurinn er dálítið sláandi. Myndin lýsir Ameríku sem trúir á siðvitund, samfélagslegar undirstöður og að hinn almenni maður hafi eitthvað fram að færa. Hún leikur sér semsagt með hugmyndina um að hver sem er geti orðið forseti Bandaríkjanna. Ævintýri já, ekki hugsað á realískum nótum heldur metafórískum líkt og svo oft í Hollywood myndum. Þarna eru einnig skemmd epli sem vilja ræna völdum af einbeittum brotavilja (írónískt er að forsetastaðgengillinn góðhjartaði tekur þátt í plottinu framan af, en reyndar vegna þess að logið var honum í upphafi ).

Þessi fantasía yrði úrbeinuð ef hún kæmi fram í dag á sömu forsendum og margt svosem til í því. Engu að síður er þetta sjarmerandi saga, undirtónninn er sæmd og góðmennska, hún er ætluð fólki sem var (er) móttækilegt fyrir slíkum boðskap, hinum breiða massa.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR