HeimBransinnEvrópskir kvikmyndaframleiðendur kalla eftir reglum um efnishlutfall alþjóðlegra streymisveita

Evrópskir kvikmyndaframleiðendur kalla eftir reglum um efnishlutfall alþjóðlegra streymisveita

-

Evrópska framleiðendafélagið (European Producers Club) birti áskorun þann 15. október síðastliðinn um að kallað verði eftir því að framkvæmdastjórn og aðildarríki Evrópusambandsins/EEA innleiði nýjar reglur um alþjóðlegar streymisveitur til samræmis við þær sem gilda um evrópska ljósvakamiðla.

Þetta kemur fram á vef Kvikmyndamiðstöðvar:

Í því felst að aðildarríkin fari fram á að lágmark 25% af veltu streymiveitna fari til miðlunar á evrópsku efni og að 80% af því verði framleitt af sjálfstæðum, evrópskum framleiðslufyrirtækjum. Einnig verði gerð krafa um framleiðslu á tungumáli hvers lands fyrir sig og nauðsyn þess að rétthafar efnis fái sanngjarnar greiðslur fyrir verk sín sem sýnd eru á slíkum veitum.

Í Frakklandi eiga sér stað viðræður stjórnvalda og hagsmunaaðila um gerð viðmiðunarreglna um starfsemi streymisveitna í evrópsku menningarlandslagi. Evrópska framleiðendafélagið hefur efnt til undirskriftalista sem hvetur Evrópulönd til að taka franska regluverkið sem fyrirmynd í innleiðingu tilskipunarinnar í hverju landi fyrir sig.

Í áskorun félagsins sem hefur verið undirrituð af leiðandi leikstjórum og öðru kvikmyndagerðarfólki í álfunni, þar á meðal nokkrum Íslendingum, er lögð áhersla á að hlúð verði áfram að greininni. Heimsfaraldurinn hafi sýnt fram á þörfina til að svara eftirspurn eftir fjölbreyttu gæðaefni. Öflug og sanngjörn umgjörð styrki samkeppnisstöðu evrópskrar kvikmyndagerðar og þar með miðlun á sagnaarfi þjóða Evrópu.

Gert er ráð fyrir að frumvarp um innleiðingu AVMS (Audiovisual Media Services Directive) verði lagt fram á Alþingi vorið 2021.

Hér má finna undirskriftalistann og nánari upplýsingar.

Sjá nánar hér: Áskorun evrópskra kvikmyndagerðarmanna um innleiðingu nýrra reglna um kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu og dreifingu

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

ÞAÐ NÝJASTA Á KLAPPTRÉ

Fáðu nýjasta efnið á Klapptré í pósthólfið þitt tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum.

Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

NÝJUSTU FÆRSLUR