Sjón ræðir THE NORTHMAN og Robert Eggers

Rætt var við Sjón í Lestinni á Rás 1 um samstarf hans og leikstjórans Robert Eggers, sem nú filmar víkingamyndina The Northman á Írlandi eftir handriti Sjón.

Eftirfarandi kemur fram:

Á dögunum var tilkynnt að Sjón hefði skrifað handritið að nýjustu kvikmynd bandaríska leikstjórans Robert Eggers, sem af mörgum er talinn einn áhugaverðasti leikstjóri heims um þessar mundir. Þeir kynntust yfir laxi í kvöldverðarboði hjá Björk Guðmundsdóttur, segir skáldið.

Robert Eggers hefur áunnið sér mikla virðingu innan kvikmyndabransans á skömmum tíma. Fyrsta mynd hans, The Witch, vakti mikla athygli og þótti hún gefa fyrirheit um að leikstjórinn ætti bjarta framtíð fyrir sér. Hann fylgdi henni eftir með The Lighthouse, með Robert Pattinson og Willem Dafoe í aðalhlutverkum, dáleiðandi en um leið óhugnanlegri kvikmynd um vitaverði sem hírast í mikilli vosbúð á afskekktri eyju í Nýja Englandi í Bandaríkjunum á ofanverðri 19. öld.

Kvikmyndirnar eiga báðar rætur í bandarískri sögu. Þar vinnur Eggers með þjóðtrú heimalands síns en í næstu mynd leikstjórans, The Northman, leitar hann austur á bóginn og lengra aftur í tímann – alla leið til Íslands á 10. öld. Söguþráður myndarinnar er enn að mestu á huldu, utan að hún fjallar um norrænan prins sem leitar hefnda eftir dauða föður síns. Því var lekið á dögunum að Björk Guðmundsdóttir leiki norn í kvikmyndinni en hún skartar einnig stjörnum eins og Nicole Kidman, Alexander Skarsgård og Willem Dafoe.

Handrit myndarinnar skrifar Eggers í samstarfi við skáldið Sjón. Sjón segir, í viðtali við Þórð Inga Jónsson í Lestinni á Rás 1, að þeir Eggers hafi kynnst skömmu eftir að hann frumsýndi sína fyrstu mynd, The Witch, á Sundance kvikmyndahátíðinni.

„Hann kom hingað til lands ásamt [Alexöndru Shaker], konu sinni, bara í Íslandsferð eins og fólk gerir. Þar sem hann átti vini í Brooklyn sem þekktu líka Björk þá stungu þeir upp á að þau myndu hafa samband við Björk á meðan þau væru hérna. Þeim fannst það fráleitt. Gátu ekki ímyndað sér að hún vildi hitta fólk sem hún þekkti ekki neitt. En það fór svo að hún bauð þeim í kvöldmat og bauð mér og Ásu konunni minni líka. Þar sem við sátum og borðuðum lax, sem Björk hafði eldað, þá kom í ljós að við áttum margt sameiginlegt, ég og Robert. Ég hafði gefið út Rökkurbýsnir, sem gerist á 17. öld og fjallar um mann sem er lifandi dæmi um þjóðtrú og þá heimsmynd sem þá ríkti og það flæðir allt saman, það er aldrei aðskilið frá honum og hans lífi og það er það sem að Robert er líka að gera í The Witch; við erum bara stödd inni í veruleika og hugmyndaheimi fólksins þar.“

Tilkynnt var á dögunum að skáldið góðkunna Sjón hefði skrifað handritið að nýjustu kvikmynd bandaríska leikstjórans Robert Eggers, The Northman. Þeir kynntust yfir laxi í kvöldverðarboði hjá Björk Guðmundsdóttur.

Skömmu síðar hafði Eggers aftur samband við Sjón. Hann hafði þá lesið Rökkurbýsnir og Sjón horft á kvikmynd hans, The Witch, og þeir hafi keppst við að hæla hvor öðrum. „Síðan heyrði ég í honum aftur, sumarið 2017, og þá sagði hann mér að hann væri að undirbúa víkingamynd og spurði hvort ég vildi vera með. Ég sagði já, einfaldlega vegna þess að hann hafði gert The Witch. Ég hefði sennilega ekki viljað gera víkingamynd með neinum öðrum. En af því að ég áttaði mig á því að hann myndi fara allt aðra leið að þessu en flestir sem gera víkingamyndir, þá sagði ég honum að ég væri til í að mistakast að gera víkingamynd með honum.“

Sjón segir að ástæðan fyrir því að Eggers hafi áhuga á víkingum og víkingatímanum sé að þrátt fyrir að nútímamaðurinn hafi ákveðna snertifleti við umrætt tímabil þá sé þar á ferðinni heimur sem sé okkur algjörlega framandi. „Ástæðan fyrir því að við erum að vinna saman er að við höfum báðir áhuga á að birta innri veruleikann í sögunni, í því hvernig fólk hagar sér og upplifir veruleikann.“

Þetta er ekki eina járnið í eldi Sjóns en hann vinnur auk þess að annarri kvikmynd með leikstjóranum Valdimari Jóhannessyni. „Það er mynd sem kallast Dýrið og hún verður í þessum nýja anda. Þetta er mynd sem fjallar um fólk, sauðfjárbændur sem búa í afdal. Þar gerist það að eitthvert fyrirbæri heimsækir bæinn á jólanótt, fer í fjárhúsin og síðar um vorið fæðist vera sem breytir lífi þessara hjóna. Ég held að það megi alveg segja að þessi vera er að hluta lamb og að hluta barn og það er ein af kindunum sem ber þessa veru. Aðalleikkonan er Noomi Rapace og svo eru Hilmir Snær og Björn Hlynur í stórum hlutverkum. Þetta verður sennilega fyrsta íslenska kvikmyndin í þessum geira og ég er stoltur og þakklátur að vera með í henni sem handritshöfundur.“

Meðfram þessu mjakast svo bókmenntaskrifin áfram. „Þegar þessi heimsfaraldur skall á í febrúar þá var ég byrjaður að vinna heimildavinnu fyrir verk sem ég vonast til að klára á næstu árum. Ég var staddur þar í heimildavinnunni að ég var að lesa mér til um svartadauða,“ segir Sjón. „Ég vona að það sé ekki mér að kenna að þetta fór af stað,“ bætir hann við og hlær.

Sjá nánar hér: Hefði sennilega ekki gert víkingamynd með neinum öðrum

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR