Morgunblaðið um ÖMMU HÓFÍ: Fín skemmtun en ekki hnökralaus

Brynja Hjálmsdóttir skrifar um Ömmu Hófí eftir Gunnar B. Guðmundsson í Morgunblaðið og segir hana meðal annars fína skemmtun en vissulega fulla af litlum misfellum sem er synd að ekki hafi verið sléttað úr.

Brynja skrifar einnig:

Hugmyndin er sniðug og handritið heldur manni alveg við efnið þótt það sé ekki hnökralaust. Takturinn í frásögninni er nokkuð ójafn, myndin er hæg í gang en kemst á skrið um miðbikið, þegar maður er búinn að kynnast persónunum aðeins. Þetta er auðvitað léttúðug gamanmynd og í slíkum myndum er krafan um raunsæi ekkert mjög sterk, áhorfendur geta alveg samþykkt að tveir heldri borgarar leiðist út í glæpi þótt það sé ótrúleg tilhugsun. Það breytir því ekki að stundum er teygt ansi duglega á trúverðugleikanum og atburðarásin er býsna tilviljanakennd á köflum.

Ýmsu er ábótavant á tæknihliðinni, það er ljóst að hér er ekki notaður besti tæknibúnaður sem völ er á og það sést. Einnig er of algengt að senur séu fljótfærnislega unnar, myndavélahreyfingar eru stundum klunnalegar, innrömmun undarleg og lýsingin óeðlileg. Þá er hljóðvinnslan nokkuð misjöfn. Amma Hófí er auðvitað engin milljarðamynd, þetta er líklega fremur hófstillt framleiðsla, en það breytir því ekki að það hefði mátt vanda meira til verka og huga betur að smáatriðum svo myndin kæmi betur út. Til dæmis er frekar óheppilegt að margar aukapersónur eru í sama búningi alla myndina þrátt fyrir að hún gerist yfir margra daga tímabil, persónur Steinda, Sveppa og Þorsteins Guðmundssonar virðast í það minnsta eiga bara eitt átfitt á haus.

Edda Björgvinsdóttir og Laddi eru skemmtileg, líkt og við er að búast. Þetta tvíeyki veldur sjaldan vonbrigðum og þau hafa auðvitað ótal sinnum átt skemmtilegan samleik gegnum tíðina, engan jafn skemmtilegan og sem Stella og Salómon Gustavsson þó, þar sem þau unnu mikinn grínsigur. Þorsteinn Guðmundsson er einhver besti grínari þjóðarinnar og er alveg rétti maðurinn í hlutverk Unnsteins, forstöðumanns dvalarheimilisins, sem hagar sér meira eins og skólastjóri og kemur fram við gamla fólkið eins og smákrakka. Steindi er alltaf fyndinn í hlutverki fávitans og hann á mjög skemmtilega frammistöðu hér þótt hann eigi það til að festast svolítið í sama tóni, leikstjórinn hefði mátt kippa honum aðeins úr hjólförunum. Víkingur Kristjánsson er líka fyndinn og brjóstumkennanlegur í hlutverki Ólafs, hins dæmalaust seinheppna lögregluþjóns.

Amma Hófí er fín skemmtun en hún er vissulega full af litlum misfellum sem er synd að ekki hafi verið sléttað úr. Krakkar eiga ugglaust eftir að hafa gaman af henni og hún gæti alveg fest sig í sessi sem kósí jólaáhorf fyrir fjölskylduna.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR