Á meðan tökur liggja niðri um allan heim vegna Covid-19 faraldursins er það ekki tilfellið á Íslandi og í S-Kóreu þar sem Netflix er með verkefni í gangi.
Þetta kemur fram á Deadline og þar er haft eftir Ted Sarandos hjá Netflix að fyrirtækið hyggist nota þá reynslu sem fengist hefur í þessum löndum til að byggja upp frekari verkefni um heim allan þegar frá líður.
Í frétt Deadline kemur ekki fram hvaða verkefni er um að ræða, en nokkuð ljóst er að á Íslandi er það þáttaröðin Katla sem Rvk Studios framleiðir undir stjórn Baltasars Kormáks. Klapptré hefur heimildir fyrir því að tökur á verkinu standi nú yfir í Gufunesi, en ekki hefur náðst í forsvarsmenn Rvk Studios til að staðfesta það.
Deadline hefur einnig eftir Sarandos að þessi tvö lönd hafi lagt mikla áherslu á skimanir og smitrakningu og á því megi byggja þegar kemur að frekari tökum á verkefnum Netflix annarsstaðar.
Sarandos segir einnig að framleiðsla Netflix verkefna geti ekki hafist á ný án skipulagðra skimana. “Við verðum að vera fær um að horfast í augu við starfsfólk okkar og segja því að hér sé öruggt að vinna.”
Sjá nánar hér: Netflix Is In Production In South Korea And Iceland And Will Use What It’s Learning There In Other Markets