Stockfish hátíðin heldur sínu striki

Marzibil Sæmundardóttir (mynd: einkasafn)

Stockfish hátíðin hefur ekki uppi plön um að fresta hátíðinni, sem hefst á fimmtudag að óbreyttu. Rætt var við Marzibil Sæmundardóttur framkvæmdastjóra hátíðarinnar í Lestinni á Rás 1.

Þar kemur meðal annars þetta fram:

„Ég held það hafi allir gott af því í þessu veiruástandi að geta komið og kitlað hláturtaugarnar,“ segir Marzibil Sæmundardóttir framkvæmdastjóri Stockfish kvikmyndahátíðarinnar sem er haldin um helgina samkvæmt dagskrá, þrátt fyrir að Almannavarnir hafi lýst yfir neyðarstigi og mörgum mannamótum þegar aflýst.

Nú hefur verið gripið til ýmissa varúðarráðstafana til að halda útbreiðslu COVID-19 kórónaveirunnar í skefjum hér á landi líkt og víða um heim, meðal annars þess að takmarka fjölmenni og aflýsa viðburðum. Þeir sem hafa verið uggandi yfir örlögum hinnar árlegu Stockfish-kvikmyndahátíðar geta þó andað léttar því hún hefst að óbreyttu á fimmtudaginn í Bíó Paradís eins og áætlað var og dagskráin óvenju fjölbreytt. „Þar til yfirvöld segja okkur annað. Við gerum ráð fyrir að fólk geri það sem því hafi verið leiðbeint að gera og allir hafi varann á en hætti ekki að lifa lífinu fyrr en okkur er sagt að gera það,“ segir Marzibil Sæmundardóttir framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

Einhverjar smávægilegar raskanir hafa þó orðið á hátíðardagskránni. Leikarinn Udo Kier lætur til að mynda ekki láta sjá sig eins og áætlað var, hann er orðinn 75 ára og var honum ráðlagt að halda kyrru fyrir. Annað verður samkvæmt áætlun og von er á öllum gestum og viðburðum sem auglýstir hafa verið. Fólk virðist enda alls ekki hrætt við að mæta. Einhverjir hafa undanfarið sett sig í samband við framkvæmdastjórn hátíðarinnar til að spyrja hvort hún verði nokkuð blásin af og segist Marzibil skynja að fólk verði afar ánægt að komast að því að svo er ekki.

Sjá nánar hér: Hættum ekkert að lifa lífinu fyrr en okkur er sagt það | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR