Morgunblaðið um SÍÐUSTU VEIÐIFERÐINA: Kitlar hressilega hláturtaugarnar

Helgi Snær Sigurðarson skrifar um Síðustu veiðiferðina eftir Þorkel Harðarson og Örn Marinó Arnarson í Morgunblaðið og gefur henni fjórar stjörnur.

Helgi Snær skrifar:

Síðasta veiðiferðin er fyrsta leikna kvikmynd félaganna Arnar Marinós Arnarsonar og Þorkels Harðarsonar sem áður hafa gert vandaðar og áhugaverðar heimildarmyndir. Hér er á ferðinni gamanmynd um hóp miðaldra karlmanna, vina sem halda saman norður á land í laxveiði. Mun handrit Arnar og Þorkels að stóru leyti byggt á sönnum sögum og þær eru flestar lyginni líkastar.

Sagan er ekki flókin og best að segja sem minnst til að skemma ekki grínið. Í stuttu máli er hún á þá leið að vinahópur kemur saman til að veiða lax og fljótlega fer allt úr böndunum sökum ofneyslu áfengis. Óvæntar uppákomur og eignatjón koma við sögu og menn muna í flestum tilfellum ekkert eftir því hvað gerðist. Mestur er óttinn við eiginkonur og kærustur, hvernig á að útskýra þetta fyrir þeim þegar heim er komið? Þær fáu konur sem koma við sögu eru rödd skynseminnar, biðja karlana að haga sér vel eða refsa þeim fyrir slæma hegðun. Sumir karlar hafa gott af því að fá spark í punginn endrum og eins.

Persónur eru kynntar stuttlega til sögunnar í upphafi myndar. Þorsteinn Bachmann leikur Val, snobbarann í hópnum sem er auðugur fjárfestir með stjórnunaráráttu. Valur gerir ítrekað lítið úr vinum sínum og þá einkum mági sínum, Magga, sem er með í för en hann leikur Halldór Gylfason. Hilmir Snær leikur Jónsa sem virðist vera töffarinn í hópnum, setur strax í lax og lætur fátt á sig fá. Hann hittir fyrrverandi verkfræðikennara sinn, Óla, sem leikinn er af Jóhanni Sigurðarsyni, í veiðibúð og býður honum með í veiðina. Óli þessi virðist í fyrstu ekki mjög áhugaverður en annað kemur í ljós þegar hann segir frá ferðalögum sínum og ævintýrum yfir fyrstu kvöldmáltíð veiðihópsins. Óborganlegt atriði. Hjálmar Hjálmarsson leikur Kolla sem maður fær lítið að vita um og Þröstur Leó er sá drykkfelldasti í vinahópnum og vílar ekki fyrir sér að stela úr búðum og sækja mat í ruslagáma. Þröstur og Hjálmar eru frábært dúó og ófeimnir við að spranga naktir um árbakkana.

Síðasta veiðiferðin minnir að vissu leyti á aðra gamanmynd um félaga sem fara í fyllirísferð og gera mikinn óskunda. Hangover heitir hún og segir af vinum sem fara til Las Vegas til að steggja einn þeirra en týna honum og þurfa að rekja spor sín til að komast að því hvað gerðist. Neysla áfengis og vímuefna hefur algjörlega rænt þá minninu, líkt og í Síðustu veiðiferðinni . Hörmungarnar eru að vísu ekki alveg jafnsvakalegar í Síðustu veiðiferðinni og þær eru í Hangover og nær því að vera trúverðugar. Enda mun þetta allt hafa gerst í ónefndum veiðiferðum ónefndra manna, ef rétt er skilið, og handritið að stórum hluta byggt á flökkusögum.

Nú kann einhver að spyrja hvort þessi gamanmynd tveggja miðaldra karla um miðaldra karla í veiðiferð eigi eitthvert erindi við aðra en miðaldra karla? Jú, hún á erindi og hafa leikstjórarnir sagt frá því að konur hafi hlegið mest á prufusýningum á myndinni. Sjálfur fór ég með syni mínum á táningsaldri á myndina og honum þótti hún bæði fyndin og bráðskemmtileg. Hún er ekki bönnuð börnum og óþarfi að hafa áhyggjur af því að hún hafi skaðleg áhrif á unga áhorfendur. Karlar sem haga sér eins og fífl hafa löngum þótt góð skemmtun, sjá til að mynda þá Klovn -félaga, Frank og Kasper. Handritshöfundar Síðustu veiðiferðarinnar hefðu jafnvel mátt ganga enn lengra í svörtum húmor og bæta í dramatíkina og hörmungarnar. Annars er handritið gott á heildina litið, samtöl vel skrifuð og skondin og leikarahópurinn er frábær. Þessir þaulreyndu menn ná afar vel saman og kitla hressilega hláturtaugarnar.

Ekki get ég dæmt um hversu sannfærandi veiðiatriðin eru, þóttist reyndar sjá steindauðan fisk dreginn á land en það skipti litlu máli. Mikið grín er gert að því að veiðimenn noti fluguna Rauður Frances sem mér skilst, af mér fróðari mönnum um laxveiði, að sé oft skráður í veiðibækur þegar veiðimenn hafa í raun notað maðk. Í einu atriða myndarinnar laumar einmitt einn veiðimannanna maðki upp á slíka flugu, sem styður þessa kenningu.

Upphafi og endi sögunnar er svo skemmtilega hnýtt saman með sjálfum Bubba Morthens sem verður að hálfgerðu átrúnaðargoði og sameiningartákni hinna ólíku veiðifélaga. Hið stórkostlega rokklag Bubba og GCD, „Sumarið er tíminn“, er spilað á leiðinni norður og hressilega tekið undir og myndinni lýkur einnig á laginu. Bubbi kemur þá við sögu og er ég ekki að ljóstra upp um neitt, þar sem fjallað var um þátttöku hans í kvikmyndinni í fjölmiðlum í fyrra. Þetta er skondin hugmynd hjá handritshöfundum og sterk því ef einhverjir eru aðdáendur Bubba í dag þá eru það karlar um og rétt yfir miðjan aldur. Karlar sem horfðu á Bubba beran að ofan og öskrandi á sviði með Utangarðsmönnum og hugsuðu með sér, já, þetta er sko töffari! Bubbi verður í myndinni að einhvers konar táknmynd karlmennskunnar, poppstjarnan og veiðimaðurinn sem heldur sér í formi með hnefaleikum og ræktar rósir á sumrin. Bæði mjúkur og harður. Bubbi hnýtir síðustu fluguna listilega og aðdáunarfull augnaráð leikaranna þegar hann hefur upp raust sína eru fullkominn endir á þessu spaugilega sumarævintýri. Sumarið er jú tíminn þegar miðaldra karlar fara í veiðiferð og fá útrás fyrir allar þær tilfinningar sem kraumað hafa innra með þeim, tilfinningar sem þeim var ungum kennt að bera ekki á torg og halda fyrir sjálfa sig. Sumarið er tíminn þegar konur springa út en karlar springa á limminu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR