Mikil viðbrögð hafa verið í samfélaginu við fréttum gærdagsins um fyrirhugaða lokun Bíó Paradísar. Hér verður farið yfir það helsta.
Staðan er í stuttu máli þessi: Bíó Paradís hefur boðað að bíóinu verði lokað frá 1. maí næstkomandi. Aðstandendur segja þetta nauðsynlegt þar sem núverandi leigusalar húsnæðisins hafa boðað mikla hækkun leigu og reksturinn leyfi það ekki eins og staðan er. Í fréttum hefur komið fram að núverandi leiguverð sé um 1,6 milljónir króna á mánuði en leiga muni hækka frá sumri uppí um 4 milljónir. Þetta mun þó vera með skrifstofuhúsnæði á annarri hæð sem Kvikmyndamiðstöð Íslands og fleiri aðilar leigja.
Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Bíó Paradísar segir við Vísi:
„Ég vona svo sannarlega að þetta endi vel. Við erum við öllu búin. Það hefði verið óábyrgt af mér að segja ekki upp starfsfólkinu mínu og loka húsinu því eins og málin standa núna þá er ekkert annað uppi á borðum.“
Braskvæðing er andstæða mannlífs og menningarlífs
Egill Helgason sjónvarpsmaður og bíóunnandi hefur skrifað tvo pistla um málið:
Það þarf ekki að tíunda hvað þetta eru vondar fréttir fyrir menningarlífið. Bíó Paradís er staðurinn þar sem maður fer til að sjá öðruvísi myndir en þær sem komast í sali bíókeðjanna. En þær eru heldur ekki svo langt úti á jaðrinum. Undanfarið hefur bíóið sýnt myndir sem eru tilnefndar til Óskarsverðlauna líkt og Parasite og Marriage Story. Þarna eru haldnar kvikmyndahátíðir og svo efnt til sýninga á sígildum myndum. Fyrir utan að poppið í Bió Paradís er eitt það besta í bænum.
Paradísarmissir?
Björn Þór Vilhjálmsson, greinaformaður Kvikmyndafræðinnar í Háskóla Íslands, skrifar á vef Hugrásar:
Hvar á samt að byrja þegar rætt er um mikilvægi þessa húss og þessarar starfsemi? Hægt væri auðvitað að minnast á öflugt samstarf bíósins við menntastofnanir í borginni, og þá rófið allt, rútur hafa reglulega keyrt niður Hverfisgötuna með leikskólabörn ýmist á leið á morgunsérsýningar í Bíó Paradís eða á viðburð á Alþjóðlegu barnakvikmyndahátiðinni sem þar hefur verið haldin lengi. Þá hefur Oddný Sen staðið fyrir kvikmyndafræðslu fyrir börn og unglinga um árabil og samstarf kvikmyndafræði Háskóla Íslands og Bíó Paradísar hefur verið farsælt. Það sem hér liggur undir er auðvitað ekki aðeins þjónustuhlutverk Bíó Paradísar við skóla og menntastofnanir heldur líka hitt, að í fyrsta skipti var stofnanalegt umhverfi til staðar um þróun kvikmyndakennslu og myndlæsis hjá ungu fólki. Með tilkomu samskiptamiðla og stafrænnar tækni hefur myndmiðlun af ýmsu tagi tekið stakkaskiptum. Ungt fólk er ekki aðeins neytendur heldur einnig framleiðendur myndefnis, og myndefnið sjálft hefur umbreyst í samskiptaform. Af þessum sökum hefur mikilvægi myndlesturs, kvikmyndarýni og ímyndatúlkunar aukist, og framlag Bíó Paradísar í þessu sambandi í senn gott veganesti út í snjallvædda veröld og skynsamleg leið til að hlúa að framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar.
Paradísarheimt?
Í frétt mbl.is kemur fram að Jón Diðrik Jónsson forstjóri Senu sem rekur Háskólabíó sé tilbúinn að bjóða Bíó Paradís aðstöðu í Háskólabíói og þá skoða hvaða rekstrarform sem er svo hægt sé að tryggja áframhaldandi starfsemi þessa mikilvæga menningarkvikmyndahúss.
„Við höfum viljað bjóða Bíó Paradís velkomið í Háskólabíó og tryggja að það sé öflugt menningarbíó til og við erum til í að skoða hvers konar rekstrarform í því svo hægt sé að tryggja áfram menningarlega kvikmyndahúsastarfsemi, fræðslu og fleira. Í Háskólabíói er góð aðstaða og hægt að efla hana, bæði veitingaaðstöðu og annað, og þá væri hægt að tryggja að það væri allavega til eitt kvikmyndahús sem sinnti þessu á mjög öflugan hátt.“
Minjastofnun með tillegg
Minjastofnun hefur lagt orð í belg og biðlar til Reykjavíkurborgar að bjarga síðasta bíóinu í miðbænum.
„Minjastofnun hvetur Reykjavíkurborg eindregið til þess að setja nauðsynleg ákvæði í skipulagi miðbæjarins eða gera aðrar þær ráðstafanir sem tryggt geta áframhaldandi bíórekstur í húsinu sem ómissandi er fyrir mannlíf og menningu í miðbænum.“
Leitað lausna
“Það eru hörmuleg tíðindi ef Bíó Paradís verður lokað,” segir Hjálmar Sveinsson formaður menningar-, íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar í viðtali við RÚV.
„Mér finnst þetta hörmuleg tíðindi og við í menningar-, íþrótta og tómstundaráði fengum veður af þessu fyrr í þessum mánuði og samþykktum samhliða bókun um að Bíó Paradís væri mikilvæg menningarstofnun sem þyrfti endilega að fá að halda áfram að starfa og að það yrði leitað lausna,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar.
Björgum Bíó Paradís!
Hér er undirskriftalisti til stuðnings Bíó Paradísar og reyndar hér líka.
Og það strax!
Friðrik Erlingsson rithöfundur og handritshöfundur skrifar á Feisbók sína:
Sömu daga og Hildur Guðnadóttir kvikmyndatónskáld sópar að sér alþjóðlegum verðlaunum – og er tilnefnd til Óskarsverðlauna; Margrét Einarsdóttir hampar Guldbaggen; Kristín Júlla tilnefnd til Robert verðlaunanna og Elísabet Ronaldsdóttir ráðin til Marvel Studios… Sömu daga og íslenskt kvikmyndagerðarfólk er enn einu sinni að tryggja landinu menningarlegan áhuga umheimsins – sem mun skila ríki og borg milljörðum – þá þarf að loka þeirri einu uppeldisstöð nýrrar kynslóðar kvikmyndagerðarmanna sem við eigum í landinu, vegna HÚSALEIGU!! Nú verða borgarstjóri og viðeigandi ráðherrar að gjöra svo vel að toga í réttu spottana og það strax.
Neyðarlög á Gamma?
Ásgeiri H. Ingólfssyni líst ekki á blikuna í menningarfréttapistli á vef sínum Menningarsmygl:
Bíó himnaríki
Eiríkur Jónsson fjallar um málið í tveimur færslum á vef sínum. Í þeirri fyrri er Fésbókarkomment frá Friðjóni R. Friðjónssyni almannatengli ásamt fylgigögnum:
“BP eru tvær húseignir, Hverfisgata og Laugavegur (bakhús). Við vitum ársleiguna og fasteignamat ofl. Borgin tekur næstum helming leigunnar. Þetta er Reykjavíkurborg. Verði okkur að góðu.”
Í þeirri seinni er athugasemd frá Ármanni Reynissyni athafnaskáldi, sem hefur dálítið aðra sýn á málið:
Bíóstýran Hrönn Sveinsdóttir í Bíó Paradís fer mikinn í fjölmiðlum landsins í dag…gráti næst. Ekki er grundvöllur fyrir rekstri bíósins hennar þrátt fyrir að Hrönn fái marga tugi milljóna í styrki á ári víða frá m.a. sendiráðum og árlega 17.5 milljónir frá Reykjavíkurborg. Bíóstýran lifir á því að hræra í kjötkötlunum eins og sumir sjóðasukkarar í menningargeiranum gera – þykir fínt. Það fólk hæðir hina sem aldrei fá úthlutað. Spurningin er hvort Hrönn Sveinsdóttir geti eða kunni að reka fyritæki? Einkarekstur fær almennt ekki styrki frá ríkinu né borg heldur greiðir skatta til að hægt sé gefa Hrönn Sveinsdóttur og félögum. Undirritaður hefur ,,aldrei fengið ritlaun” samt verið rithöfundur í 20 ár. Borgarbókasafn Reykjavíkur hefur ekki efni á að kaupa vinjettur fyrir hvert útibú sitt. Og á ekki bækurnar Vinjettur X – XIX í sparnaðarskyni. Borgarfulltrúinn Hjálmar Sveinsson og menningarráð Reykjavíkurborgar hafa ekki harmað það í fjölmiðlum eins og þeir gera þegar Bíó Paradís á í hlut sem malar gull í jötu þeirra.
Að lokum gefur Ármann fyrirheit um að kvikmyndar sé að vænta um málið:
Í sögunni ,,Bíó Himnaríki,” eftir undirritaðan, í Vinjettum XX sem kemur út í haust er lýst hörmulegri framkomu Hrannar Sveinsdóttur við einn gest í Bíó Paradís. Þar opinberar bíóstýran kviku sína- sést í réttu ljósi. Það verður forvitnilegt að fá viðbrögð fjölmiðla, bíóstýran hefur ótrúlega greiðan aðgang að, og þeirra sem hrópa eftir meiri og meiri styrkjum fyrir sökkvandi skip. ,,Bíó Himnaríki þykir heppilegt efni í kvikmynd sem einn frómur kvikmyndagerðarmaður er að velta fyrir sér að kvikmynda.