spot_img

Þrenn Systurverðlaun veitt á Rvk Feminist Film Festival

Rvk Feminist Film Festival fór fram dagana 16.-19 janúar síðastliðinn. Meðal viðburða á hátíðinni var stuttmyndasamkeppnin Systir þar sem veitt voru þrenn verðlaun á lokadegi hátíðarinnar.

Dómarar í stuttmyndakeppninni RVK FFF voru Ísold Uggadóttir, Kristín Jóhannesdóttir, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir og Gabrielle Kelly.

Arna Schram, forstöðumaður menninga- og ferðamála hjá Reykjavíkurborg opnaði verðlaunaafhendinguna og kynnti dómarana sem voru viðstaddir, Gabrielle Kelly, Kristínu Jóhannesdóttur og Hrafnhildi Gunnarsdóttur. Dómararnir afhentu Systurverðlaunin og lásu upp umsögn fyrir hverja mynd.

Vinningshafar keppninnar eru:

– Hanna Björg Jónsdóttir fyrir mynd sína Behind Closed Curtains – Besta íslenska stuttmyndin.

Umsögn: Fléttar saman á óaðfinnanlegan hátt sögu af kynhneigð táninga, hómófóbíu og kynvitund. Nálgunin á viðfangsefninu er gerð af virðingu og skilningi og varpar ljósi á aðstæður aðal karaktera myndarinnar. Sterk leikstjórn og vel skrifað handrit framkallar hérna sannfærandi og hrífandi kvikmynd um viðkvæmt málefni.

– Monica Mazzitelli Moiner fyrir mynd sína Wedding Cake – Besta alþjóðlega stuttmyndin.

Umsögn: Pakkar saman á tæpum 4 mínútum kröftugri sögu. Ung kona neyðist til að verða vændiskona til að gera upp skuldir eiginmanns síns. Örlög hennar eru sögð í dýnamískri röddu í gegnum Playmobil fígúrur og brúðkaupstertu sem hverfur ásamt blekkingum konunnar.

– Jessie Ayles fyrir mynd sína Waves – Sérstök viðurkenning

Umsögn: Mynd sem skoðar sögu sem er myndrænt séð bæði ólýsanleg og skelfileg. Stuttmyndin varpar ljósi á ofbeldi gegn ungum stúlkum og konum og gefur þeim rödd. Fegurð myndarinnar veitir innsýn í heim viðfangsefnisins og sýnir á sterkan hátt brotalamir samfélagsins á ógleymanlegan hátt.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR