Greining | Vinsælustu bíómyndirnar 2019, aðsókn dregst saman

Lokamyndin með Avengers (Endgame) var lang tekjuhæsta kvikmynd síðasta árs í kvikmyndahúsum en hún halaði inn rúmar 92 milljónir króna, sem gerir hana að fimmtu tekjuhæstu kvikmynd kvikmyndahúsanna síðasta áratuginn. Samtals sáu rúmlega 66 þúsund manns myndina. Tekjur af bíóaðsókn dragast saman um 12% milli ára.

Önnur tekjuhæsta kvikmyndin var The Lion King og voru tekjur af henni tæplega 80 milljónir en hana sáu tæp 68 þúsund manns, sem gerir hana að aðsóknarmestu kvikmyndinni á árinu 2019. Þriðja tekjuhæsta kvikmyndin var svo Joker með rúmar 72 milljónir í tekjur og tæplega 51.700 gesti. Á árinu 2019 voru því þrjár kvikmyndir þar sem gestir voru yfir 50 þúsund.

Athygli vekur að einungis ein íslensk kvikmynd ratar inn á listann yfir 20 tekjuhæstu kvikmyndirnar en það var kvikmyndin Agnes Joy sem var með rúmlega 19,7 milljónir í tekjur og rúmlega 12 þúsund gesti.

Alls voru 16 íslensk verk sýnd í kvikmyndahúsum á árinu, sem er sami fjöldi og árið áður (2018), en þrátt fyrir það fóru heildartekjur af íslenskum kvikmyndum og heimildamyndum niður um 68% frá árinu á undan. Heildartekjur af íslenskum verkum voru 76 milljónir samanborið við tæpar 240 milljónir árið 2018. Tæp 54 þúsund manns keyptu sig inn á íslensk verk samanborið við 164 þúsund árið 2018. Hér munar mest um gott gengi kvikmyndanna Lof mér að falla og Víti í Vestmannaeyjum, sem sýndar voru á árinu 2018. Hlutfall íslenskra kvikmynda af heildartekjum er því einungis 4,8%, sem er það lægsta síðan 2015.

Samtals nam miðasala í íslenskum kvikmyndahúsum 1.580.370.576 kr., sem er 12% lækkun frá árinu á undan. 1.267.298 manns lögðu leið sína í kvikmyndahús á árinu og er það um þrjár og hálf bíóferð á hvert mannsbarn í landinu.

Eins og undanfarin ár voru bandarískar kvikmyndir fyrirferðarmiklar í kvikmyndahúsum og runnu 91% af tekjum af gestum til þeirra, sem er ívið hærra en á árinu á undan þegar hlutfall bandarískra kvikmynda var rúm 84%. Ekki er ólíklegt að dræmt gengi íslenskra kvikmynda hafi hér áhrif. Þá stóð miðaverð í stað en það var 1.247 kr. á árinu 2019, sem er einungis 0,3% hækkun á meðalverði ársins 2018 (kr. 1.242).

Þegar horft er til alþjóðlegra markaða þá var aðsókn í kvikmyndahús góð og samkvæmt Comscore var síðasta ár það tekjuhæsta í kvikmyndahúsum í sögunni.

Lista yfir tuttugu vinsælustu kvikmyndirnar á árinu 2019 má sjá hér að neðan. Þess má geta að vinsældum mynda er ávallt raðað eftir tekjum en ekki aðsókn. Þetta er gert til þess að hlutfall boðsmiða eða afsláttarmiða í umferð hafi ekki áhrif á uppröðun kvikmynda.

(Byggt á fréttatilkynningu frá FRÍSK)

NAFNDREIFINGTEKJURAÐSÓKN
1Avengers: EndgameSamfilm92.319.853 kr.66.124
2The Lion King (2019)Samfilm79.873.157 kr.67.996
3Joker*Samfilm72.105.125 kr.51.662
4Frozen 2*Samfilm54.144.112 kr.49.061
5Star Wars: The Rise of Skywalker*Samfilm52.174.500 kr.35.808
6Toy Story 4Samfilm49.959.463 kr.45.932
7Captain MarvelSamfilm48.141.329 kr.36.741
8Spider-man: Far from Home (2019)Sena46.037.835 kr.34.709
9Once Upon a Time in HollywoodSena37.917.749 kr.27.375
10Aladdin (2019)Samfilm32.479.955 kr.27.004
11Jumanji: The Next Level (2019)*Sena29.998.224 kr.24.070
12It Chapter TwoSamfilm27.778.248 kr.18.776
13Shazam!Samfilm26.509.642 kr.20.972
14How to Train Your Dragon: The Hidden WorldMyndform26.142.235 kr.24.170
15The Lego Movie 2: The Second PartSamfilm23.396.370 kr.21.887
16Fast & Furious: Hobbs & ShawMyndform22.036.812 kr.16.713
17Agnes JoySena19.706.353 kr.12.215
18RocketmanSamfilm18.504.629 kr.14.606
19Green BookSamfilm18.027.933 kr.14.449
20John Wick: Chapter 3 – ParabellumMyndform17.973.074 kr.13.437
 *Kvikmyndir enn í sýningu svo ekki er um heildartölur að ræða. | HEIMILD: FRÍSK

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR