spot_img

Menningin um „Agnesi Joy“: Ekki snöggan blett að finna

„Einstaklega vel leikin kvikmynd og samleikur helstu leikara svo hárfínn og vandaður að söguefniviðurinn fær hreinlega vængi,“ segir Heiða Jóhannsdóttir gagnrýnandi Menningarinnar á RÚV í umfjöllun sinni um Agnesi Joy Silju Hauksdóttur.

Heiða segir meðal annars:

En nú hefur Silja frumsýnt sína aðra leiknu kvikmynd sem ber heitið Agnes Joy og þar má segja að Silja stígi fram með fágaða og þroskaða hversdagssögu sem skipar henni í röð áhugaverðustu leikstjóra sem starfandi eru hér á landi í dag. Silja skrifar myndina ásamt Göggu Jónsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, og er um einkar þróað og skemmtilegt handrit að ræða. Sagan segir af lífi þriggja manna fjölskyldu, hjónanna Rannveigar og Einars, og 19 ára dóttur þeirra Agnesar Joy. Rannveig er að vakna upp af ákveðnum doða sem einkennt hefur líf hennar og Agnes er að glíma við spurningar um hvað hún vilji gera við líf sitt. Þegar yfirborðssjarmerandi og myndarlegur nágranni, leikarinn Hreinn, flytur inn í húsið við hliðina á, er eins og hrist sé upp í lífi mæðgnanna og reynir þá á samskipti þeirra sem aldrei fyrr.

Kanarífuglar í kolanámu
Í forgrunni sögunnar er samband mæðgnanna Rannveigar og Agnesar. Þegar sagan hefst er Agnes að hefja ákveðið uppreisnarskeið, sem helgast af því að hún er að breytast úr unglingi í unga konu. Hún er að ljúka síðasta árinu í menntaskóla og virðist fram til þessa hafa verið fyrirmyndarbarn sem stundaði námið samviskusamlega og lærði á fiðlu. Agnes er ættleidd frá Filippseyum og er eina barn foreldra sinna, en þau búa á Akranesi þar sem Rannveig hefur tekið við rekstri fjölskyldufyrirtækis á staðnum. Þau hafa þannig myndað nokkurs konar öryggishreiður í kringum fjölskyldulífið en hjónaband Rannveigar og Einars er hins vegar komið á sjálfsstýringu. Einar virðist hafa koðnað niður í þunglyndisrútínu Netflix-áhorfs og viðhaldsverka á heimilinu og Rannveig er að verða yfirkeyrð, en meðfram verkstjórn á vinnustað og á heimilinu annast hún roskna móður sína, sem notar hvert tækifæri til þess að halda áfram að ala Rannveigu upp.

Á meðan fullorðna fólkið hefur komið sér upp samskiptamynstrum sem forðast að taka á sárum raunveruleikanum eru krakkarnir, þ.e. Agnes og æskuvinurinn og heimagangurinn Skari, eins og kanarífuglar í kolanámunni sem skynja að þar er að verða ólíft. Agnes tjáir vanlíðan sína á ýmsan máta, og hefur m.a. misst dampinn í ástundun námsins. Viðbrögð Rannveigar eru fyrst og fremst þau að rjúka upp á áhyggjuskalanum en einnig er erfitt fyrir hana að horfast í augu við það að dóttir hennar er að verða sjálfstæður, fullorðinn einstaklingur.

Agnes þarf líka að glíma við sjálfsmyndarspurningar tengdar uppruna sínum í því einsleita samfélagi sem hún býr í á Íslandi. Í atriði þar sem Agnes og Skari hjóla um bæinn gjóir hún augum til nokkurra fiskvinnslukvenna sem eru af asíkum uppruna eins og hún. Agnes fer ekki varhluta af því að konur af erlendum uppruna eiga erfitt uppdráttar í íslensku samfélagi og miðlar sagan á lágstemmdan en sterkan hátt þeim neikvæðu og stöðluðu viðhorfum sem Agnes hefur mátt glíma við. Hún á því í tvenns konar baráttu, annars vegar við þá sem líta á hana sem barn og hins vegar við samfélag sem hefur tilhneigingu til að líta niður á hana.

Móðirin Rannveig glímir einnig við einangrun í því lífi sem hún hefur fest sig í og upplifir einmanaleika og útilokun í hjónabandinu. Þegar Hreinn bankar upp á einn daginn eins og ferskur andvari til að fá lánuð fjöltengi, upplifa móðir og dóttir, hvor í sínu lagi, að þarna sé kominn maður sem geti veitt þeim þá viðurkenningu sem þær þrá.

Sterkur samleikur
Agnes Joy er einstaklega vel leikin kvikmynd og er samleikur helstu leikara svo hárfínn að vandaður efniviðurinn fær hreinlega vængi. Katla Margrét Þorgeirsdóttir fer með hlutverk Rannveigar og er frábært að sjá þessa reyndu leikkonu láta ljós sitt skína í aðalhlutverki í kvikmynd. Hún miðlar margflóknum tilfinningum Rannveigar og glímunni við móðurhlutverkið á sterkan hátt og notar ekki síst gamanleikinn til þess að birta þær innilokuðu tilfinningar sem Rannveig hefur haldið í skorðum í lífsins önn. Samleikur Rannveigar og Donnu Cruz sem fer með hlutverk Agnesar er frábær, en Donna er hér að stíga sín fyrstu skef í kvikmyndaleik og á sannarlega framtíðina fyrir sér. Hún gæðir Agnesi í senn viðkvæmni og krafti, og miðlar vangaveltum sögupersónunnar um stöðu sína í íslensku samfélagi á fínlegan en áhrifaríkan máta.

Björn Hlynur Haraldsson leikur Hrein, og miðlar þessari skemmtilega óræðu persónu mjög eftirminnilega. Unnið er á snjallan hátt með leikarafígúruna í persónusköpun Hreins, en í yfirborðskenndum viðkunnaleika sínum bregður hann sér nær saumlaust í hvert það hlutverk sem fólk vill sjá. Sem slíkur er hann hreyfiaflið í sögunni, nokkurs konar auður strigi sem söguperónur geta varpað innri vangaveltum sínum og löngunum á.

Hreinn er skemmtileg andstæða fjölskylduföðurins Einars, sem er góðlegur en ráðvilltur, og Þorsteinn Bachmann túlkar hér á næman og fyndinn hátt. Ómissandi púsl í samskiptapælingum myndarinnar er síðan Skari, sem Kristinn Óli Haraldsson (Króli), leikur og nær með sínum sparlegu en nákvæmu svipbrigðum að spegla fáránleikann í heimilislífinu sem hann upplifir sem gestur.

Satt best að segja er ekki að finna snöggan blett á kvikmyndinni Agnes Joy, og koma allir þættir þar saman, hvort sem um er að ræða kvikmyndatöku, sviðsmynd, klippingu eða búninga. Tónlist Jófríðar Ákadóttur er síðan eins og hjúpur sem lýsir upp tilfinningalegan kjarna sögunnar á hárréttum stöðum.

Sjá nánar hér: Ekki snöggan blett að finna á Agnesi Joy

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR