spot_img

“Pabbahelgar”: Hjónabandsráðgjafinn sem náði ekki að bjarga eigin hjónabandi

Sól­veig Guðmunds­dótt­ir, Nanna Krist­ín Magnús­dótt­ir og Sól­veig Jóns­dótt­ir eru á því að kon­ur hafi samið af sér í allri bar­áttu sinni fyr­ir jöfn­um kjör­um á vinnu­markaðnum. (mynd: mbl.is/​Sig­urður Bogi)

Morgunblaðið ræðir við handritshöfundana bakvið Pabbahelgar, þær Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, sem jafnframt leikstýrir og fer með aðalhlutverk og Sólveigu Jónsdóttur, ásamt Sólveigu Guðmundsdóttur leikkonu.

Úr viðtalinu:

Það virðast marg­ir tengja við Pabbahelg­ar, nýja þáttaröð Nönnu Krist­ín­ar Magnús­dótt­ur á RÚV þessa dag­ana. Sjón­varpsþætt­irn­ir segja dæmi­gerða sögu vísi­tölu­fjöl­skyld­unn­ar sem miss­ir takt­inn í lífs­ins ólgu sjó. Í þátt­un­um er ráðagóða, ósér­hlífna eig­in­kon­an Kar­en. Fal­legi eig­inmaður henn­ar Matti og börn­in þeirra þrjú. Vin­ir og vanda­menn reyna að stíga öld­una með hjóna­korn­un­um, eft­ir að skipið þeirra lend­ir á skeri. Þar á meðal er Pála besta vin­kona Kar­en­ar, sem bend­ir svo eft­ir­minni­lega á í upp­hafi sjón­varps­efn­is­ins að allt við sorg­legt fram­hjá­hald sem Matti „lend­ir” í sé ein­kenni­legt. Jafn­vel nafn viðhalds­ins hljóm­ar illa – Anna Júlía – hver er skírð þannig nafni?

Þær Nanna Krist­ín Magnús­dótt­ir sem fer með hlut­verk Kar­en­ar, sem og Sól­veig Guðmunds­dótt­ir sem fer með hlut­verk Pálu og Sól­veig Jóns­dótt­ir sem kem­ur að hand­rits­gerð sög­unn­ar eru sam­mála um að sjón­varpþætt­irn­ir segi sögu sem mik­il­vægt er að segja í dag. Sögu kon­unn­ar sem samdi af sér og ger­ir of mikið. Sögu sem dæt­ur okk­ar og jafn­vel syn­ir ættu að spegla sig í og velta fyr­ir sér hvernig væri hægt að gera aðeins öðru­vísi um ókomna tíð.

Hef­ur fengið sterk viðbrögð við fram­hjá­hald­inu

„Mark­hóp­ur þátt­araðanna áttu í fyrstu að vera kon­ur upp úr þrítugt. Viðtök­urn­ar hafa verið fram­ar mín­um björt­ustu von­um og sýna að þætt­irn­ir eiga er­indi við fleiri en ég hélt að ég væri að skrifa fyr­ir,“ seg­ir Nanna Krist­ín og bæt­ir við að það hafi komið henni á óvart hversu já­kvæð viðbrögðin hafa verið.

„Karl­ar jafnt sem kon­ur eru að tengja við húm­or­inn. Að sjálf­sögðu eru ólík­ir ein­stak­ling­ar að tengja við ólíka hluti. Sum­ir sjá stóra sam­hengið á meðan aðrir tengja við litlu hlut­ina. Sem dæmi eru marg­ir að tengja við atriðið þegar Kar­en gleymdi skott­inu af bún­ingi yngsta barns­ins heima. Eins þekkja fjöl­marg­ir þá stöðu að fara af stað inn í pabbahelgarn­ar, með eitt sett af öllu – einn bíl­stól fyr­ir barnið, íþrótta­skó eða allt það sem fylg­ir frí­stund­um. Skilj­an­lega er ekki hægt að eiga tvö pör af öllu sem börn­in þurfa, þó að þau eigi tvö heim­ili. Ég hef fengið sterk viðbrögð við fram­hjá­hald­inu og hjóna­bands­ráðgjöf­inni, en einnig þess­um litlu hlut­um.“

Er ekki helm­ing­ur hjóna­banda að enda með skilnaði?

„Jú skilnaðartíðnin á Íslandi er mjög há, í kring­um 40%. Skilnaðir eru auðvitað jafn ólík­ir og þeir eru marg­ir, ástæða þeirra og af­leiðing­ar á alla í kring. En ég held að þetta ferli sé alltaf flókið þó svo að fólk skilji í góðu eins og sagt er. Það er ekki aðeins það „praktíska“ sem þarf að græja og gera held­ur líka að fást við til­finn­inga­rúss­íban­ann. Það eru eng­in rétt eða röng viðbrögð í þess­um aðstæðum og reiðin, sár­ind­in eða hvaða til­finn­ing sem maður kannski bæl­ir niður geta komið fram löngu seinna. Mér þótti vænt um að heyra frá karl­kyns-áhorf­anda hversu mikið hann kunni að meta að sjá ekki ein­faldaða út­færslu á viðbrögðum konu við fram­hjá­haldi. Í lok fyrsta þátt­ar veit Kar­en ekki í hvorn fót­inn hún á að stíga þegar Matti vill vera góður við hana og tek­ur utan um hana. Í stað þess að berja hann með pönnu, eins og henni hef­ur kannski mest langað til að gera þá leyf­ir hún hon­um að taka utan um sig. Hún kaus reynd­ar að bíta hann. Hún hafði ein­fald­lega ekki getu í meira en dýrs­legt bit,“ seg­ir Nanna Krist­ín og hlær.

Sól­veig Jóns­dótt­ir sem kom að hand­rits­gerð með Nönnu Krist­ínu seg­ir að það sem hún hafi tengt við sjálf hvað mest og hafi heyrt að aðrar mæður tengja við eru þau fjöl­mörgu verk­efni sem fylgja því að eiga börn.

„Meðvirkni get­ur verið svo allt um­lykj­andi í móður­hlut­verk­inu. Maður er ekki endi­lega meðvirk­ur með börn­um sín­um, en það eru ótal hlut­ir sem þarf að fara í gegn­um þegar maður eign­ast börn og er upp­al­andi. Hjá mjög mörg­um eru börn­in al­gjör­lega í for­gangi, nokkuð sem kem­ur svo ein­læg­lega fram í þátt­un­um þegar Kar­en hlýðir elsta barn­inu yfir fyr­ir ferm­inga­fræðsluna, kem­ur yngsta barn­inu sínu í bún­ing á sama tíma á meðan hún geng­ur úr skugga um að nestið sé í topp­lagi, keyr­ir þau í skóla, kem­ur sjálfri sér í vinn­una og end­ar svo á því að mála sig í bíln­um. Í svona hröðu og krefj­andi lífs­mynstri má alltaf bú­ast við því að hlut­irn­ir fari í ein­hvers­kon­ar þrot. Hvort held­ur sem er kon­an sjálf, vinn­an nú eða hjóna­bandið.“

Við kon­ur höf­um samið af okk­ur

Þó ábyrgð okk­ar kvenna sé okk­ar í dag er áhuga­vert að velta fyr­ir sér í þessu sam­hengi hvernig for­mæður okk­ar horfa á okk­ur í dag? Þær sem ruddu braut­ina fyr­ir okk­ur tengt jafn­rétti kynj­anna og auk­inni þátt­töku okk­ar á vinnu­markaðnum. Þær sem kenndu okk­ur að við gæt­um allt. Unnið, þvegið þvott­inn, eldað og hugsað um okk­ur sjálf­ar og aðra.

„Við kon­ur höf­um samið af okk­ur. Við erum komn­ar út á vinnu­markaðinn, en við erum líka með allt hitt. Ber­um uppi and­lega vel­ferð allra á heim­il­inu, erum fram­kvæmda­stjór­ar heim­il­is­ins, vinn­um úti og svo mætti lengi áfram telja. Ég held að þetta hafi ekki verið samn­ing­ur­inn sem mæður okk­ar höfðu í huga fyr­ir okk­ur þegar þær fóru af stað með rétt­inda­bar­átt­una á sín­um tíma,“ seg­ir Sól­veig Guðmunds­dótt­ir og bæt­ir við að hún sé ekki eins vel inn í þátt­un­um og hinar tvær þar sem hún er ekki í öll­um atriðum.

„Svo ég upp­lifði þenn­an sting sem ég heyri að marg­ar aðrar kon­ur eru að fá í sam­fé­lag­inu þegar þær horfa á Pabbahelg­ar. Þegar þær sjá sig í hlut­verki Kar­en­ar að stíga inn í öll hlut­verk. Jafn­vel þau sem hún er ekki beðin um að fara í.“

Hvernig datt þér í hug Nanna Krist­ín að skrifa þessa þætti fyr­ir sjö árum?

„Í fyrstu snér­ist þetta um Kar­en og per­sónu­leika henn­ar. Mig langaði að skrifa sögu venju­legr­ar konu sem er að fást við hvers­dags­lega hluti sem aðrar kon­ur gætu tengt við. Skrifa um hvernig hún reyn­ir að lifa dag­inn af, vik­una og mánuðinn. Næsta skref var þá að skapa heim­inn í kring­um Kar­en, skilnaður var mér of­ar­lega í huga, sem er alltaf sorg­ar­ferli að fara í gegn­um. Ég skil að fólk þurfi stund­um að skilja, en þetta er alltaf erfitt og oft sjálf­hverft ferli og það er ým­is­legt sem fólk ótt­ast í kjöl­farið. Kar­en vill ekki vera ein, eins og hún seg­ir í lok ann­ars þátt­ar­ins þegar hún ótt­ast að skilnaður­inn verði til þess að hún muni enda sem gamla skrítna kerl­ing­in með glugga­tjöld­in dreg­in fyr­ir, eig­andi 32 ketti með pissulykt heima hjá sér. Það er auðvitað ekki það versta sem gæti gerst en í fórn­ar­lambs­hlut­verk­inu sem Kar­en er í ein­mitt á þeirri stundu þá er þetta framtíðar­sýn­in. Kar­en er ekki sú sem vill skilja. Hún vill halda í hjóna­bandið. Það er Matti sem vill skilnað. Er Kar­en heil­brigði aðil­inn að vilja halda áfram þrátt fyr­ir fram­hjá­haldið? Eða er hún meðvirk?“

Kona sem vildi gera vel við karl­inn sinn

Kar­en er allt í öllu. Hún er mamma, eig­in­kona, með flott­an fer­il. Hún klár­ar allt í líf­inu, nema kannski það hlut­verk að vera ham­ingju­sama vænd­is­kon­an. Þó hún sé að reyna sitt besta að gefa Matta góða af­mæl­is­gjöf snemma morg­uns.

„Þetta af­mælis­atriði var ein­mitt áhuga­vert að skrifa. Þegar ég skapaði Kar­en í upp­hafi, langaði mig að sýna mann­eskju sem vill gera vel við eig­in­mann sinn. Hún legg­ur á ráðin um að gefa eig­in­manni sín­um munn­mök í af­mæl­is­gjöf og það finnst mér segja svo mikið um per­sónu­leika henn­ar. Einnig teikn­ar þetta vel upp kyn­líf þeirra hjóna, munn­mök eru greini­lega ekki dag­legt brauð. Þetta atriði seg­ir svo mikið um Kar­en, hvernig hún vil leggja sig fram um að hafa Matta glaðan. En þegar Matti þigg­ur gjöf­ina frá Kar­en, þá veit hann að seinna um dag­inn er hann einnig að fá meira gott í kropp­inn frá viðhald­inu. Hann þigg­ur samt þessa per­sónu­legu af­mæl­is­gjöf eig­in­konu sinn­ar með þökk­um. Kar­en vill gera allt 100% en eft­ir að hún heyr­ir í börn­un­um frammi reyn­ir hún að drífa gjöf­ina af sem fyrst. Hún hugs­ar fyr­ir öllu. Hún vil alls ekki fá hvít­ar slett­ur í sæng­ur­föt­in og legg­ur þá á það ráð að setj­ast ofan á Matta svo hann geti komið inn í hana. Rétt eins og hún sé rusla­tunna. Sjálfs­virðing­in þar mjög skýr,“ seg­ir Nanna Krist­ín og bros­ir út í annað og Sól­veig Jóns­dótt­ir bæt­ir við: „Svo er hann með ákveðna ósk á meðan á þessu stend­ur en hún svar­ar því af­sak­andi og út­skýr­andi að sig langi ekki til að verða við henni. Hún er að reyna að setja mörk en að sama skapi að reyna að vera ekki leiðin­leg. Hann á nú einu sinni af­mæli!“

Kon­ur gætu verið hæf­ari en nátt­úr­an gerði ráð fyr­ir

Þær eru sam­mála um að þess­ar vand­ræðal­egu sen­ur sem marg­ir þekkja á eig­in skinni en hafa kannski aldrei séð ber­um aug­um áður, sé hress­andi sjón­varps­efni sem við höf­um öll gott af því að sjá.

Hvernig leið þér með að koma að skrif­un­um Sól­veig?

„Ég hafði mjög gam­an af því að koma að skrif­um þriðja þátt­ar­ins og hef líka haft ein­hver áhrif á fleiri þætti því vin­ir mín­ir sögðust hafa kann­ast við „fras­ana“ mína á nokkr­um stöðum. En Kar­en er aðeins eldri kyn­slóð en ég, svo í þriðja þætti fáum við að kynn­ast viðhald­inu og henn­ar sögu, löng­un­um og vænt­ing­um. Þó ég deili ekki reynslu Önnu Júlíu í líf­inu, þá er ég nær henni í aldri. Það er margt sem breyt­ist á milli kyn­slóða og því áhuga­vert að koma að því að teikna henn­ar ver­öld á sann­fær­andi hátt með Nönnu Krist­ínu.“

Þegar talið bein­ist að hlut­verk­um kynj­anna í þátt­un­um. Hvernig Matti er í aðeins betra formi en Kar­en og aðeins meira dreym­andi út fyr­ir sam­bandið seg­ir Nanna Krist­ín:

„Kyn­in eru ólík. Það er bara staðreynd. En mér finnst eins og við kon­ur kunn­um og get­um meira en forfeður okk­ar, nátt­úr­an eða jafn­vel Guð gerði ráð fyr­ir í byrj­un. En þekk­ing­in okk­ar nýt­ist ekki endi­lega ef við ætl­um að reyna að vera allt í öllu – fyr­ir alla nema okk­ur sjálf­ar. Þá erum við að semja af okk­ur.“

Sól­veig Guðmunds­dótt­ir bæt­ir við að hún þekki til fjöl­margra kvenna sem eru fyr­ir­vinn­ur heim­il­is­ins, með hærri laun en eig­in­menn­irn­ir en þær séu ekk­ert endi­lega að gera hlut­ina öðru­vísi heima fyr­ir.

„Eig­in­menn þeirra taka þátt og eru flott­ir í mörg­um verk­efn­um, en mér finnst marg­ar þeirra vinna þessa and­legu heima­vinnu, sem er að taka ábyrgð á heima­lær­dómi, líðan allra í fjöl­skyld­unni og verk­stýr­ingu heima.“

Meðvirkni get­ur verið allskon­ar

En hvernig stend­ur á því að Kar­en er meðvirk að okk­ar mati en samt vill sam­fé­lagið oft ekki gang­ast við því að þekkja meðvirkni af eig­in raun. Er ekki meðvirkni víðar en okk­ur grun­ar og eig­um við auðvelt með að skynja meðvirkni í eig­in lífi, nema því sé speglað til okk­ar með þátt­um eins og Pabbahelg­um?

„Meðvirkni er svo oft tengd við und­an­lát­semi og það að segja alltaf já og setja ekki skýr mörk. En það er svo margt sem get­ur fall­ist und­ir meðvirkni. Meðvirkni get­ur líka verið ofsa­feng­in stjórn­semi, þegar þú veður í öll verk­efni, stund­um óum­beðin og tel­ur þig betri til þess en aðrir. Meðvirkni get­ur verið svo margt og spann­ar svo breitt bil allskon­ar hegðunar í líf­inu,“ seg­ir Sól­veig Jóns­dótt­ir.

Svo get­ur sam­fé­lagið verið meðvirkt í viðbrögðum sín­um og þau geta verið breyti­lega eft­ir tíma­bil­um. Sem dæmi þótti eðli­legt að ef upp kom um fram­hjá­hald á tí­unda ára­tugn­um að fólk bara léti það fram­hjá sér fara og tengdi þá bara við ein­hverj­ar hetj­ur sem kunnu að lifa við slíkt í þáttaröðum eins og Dallas. Á meðan sam­fé­lagið í dag, tel­ur meðvirkni að ganga ekki strax í skilnað, ef upp kemst um fram­hjá­hald. Hvað segið þið um þetta?

„Þætt­irn­ir sýna m.a. hvernig ein­stak­ling­ur hefði kannski ekki eign­ast þrjú börn, stórt heim­ili og fleira hefði viðkom­andi vitað að allt stefndi í skilnað. En hvor­ug­ur aðili legg­ur upp með það í byrj­un sam­bands, hvorki Matti né Kar­en. Eins er svo margt sem við ákveðum að sýna sem er heil­brigt í sam­skipt­um Matta og Kar­en­ar. Hvernig allt geng­ur snurðulaust fyr­ir sig í dag­skrá dags­ins, við morg­un­verðar­borðið, hvernig verk­skipt­ing­in er skýr, þó ann­ar aðil­inn taki kannski meiri ábyrgð heima fyr­ir þá held­ur hinn bolt­an­um uppi ann­ars staðar. Sam­band snýst ekki aðeins um róm­an­tík og losta, alla vega ekki til langs tíma. Þegar Anna Júlía viðhaldið kem­ur inn á sjón­ar­sviðið í serí­unni þá langaði okk­ur að teikna hana upp eins mann­eskju­lega og hina „karakt­er­ana“ í Pabbahelg­um. Ekki bara sem vondu sjálfs­elsku kon­una sem splundraði fal­legu hjóna­bandi. Kar­en væri reynd­ar ekki sam­mála mér,“ seg­ir Nanna Krist­ín kím­in.

Fram­hjá­hald snýst ekki ein­ung­is um kyn­lífið – því miður

Hvað með Matta – ef hann er ekki að sækja í kyn­lífið utan hjóna­bands­ins, hvað er hann þá að vilja með viðhald­inu?

„Að sjálf­sögðu eru fjöl­marg­ar ástæður fyr­ir því að fólk held­ur fram­hjá. Stund­um er það skyndi­ákvörðun, stund­um of mik­il áfeng­isneysla eða kannski breyt­inga­skeiðið. Sum­ir nota leiða sem af­sök­un og að því hafi langað í spennu. Í til­felli Matta þá finnst hon­um hann sjálf­ur leiðin­leg­ur í hvers­dags­lífi þeirra Kar­en­ar. Matti tal­ar um að það sé ekki kyn­lífið þegar Kar­en af­sak­ar sig að hún hafi kannski ekki verið nógu iðin í rúm­inu. Matti elsk­ar sjálf­an sig þegar hann er með Önnu Júlíu. Auðvitað er skemmti­legra að upp­lifa alls kon­ar nýja hluti með viðhald­inu í stað hvers­dags­leik­ans með kon­unni sem send­ir skila­boð um hvaða stærð af asp­as­dós hann eigi að kaupa út í búð. Það er í það minnsta stigs­mun­ur að vera með konu sem er mest­an hluta tím­ans eins, eða konu sem er mest­an hluta tím­ans með börn­un­um þínum, í vinn­unni og að sjá um heim­ilið,” seg­ir Nanna Krist­ín.

Svo upp­lif­ir Kar­en al­gjört áfall þegar hún kemst að því hvað hef­ur verið í gangi þó hún ákveði að vilja halda hjóna­band­inu gang­andi?

„Já, heim­ur­inn henn­ar hryn­ur en spurn­ing­arn­ar sem vakna hjá henni i fyrstu eru kannski ekki þær sem skipta mestu máli í heild­ar­mynd­inni. Var það rass­inn á viðhald­inu sem var svona flott­ur? Var kyn­lífið svona gott? Svo spil­ast áfallið aft­ur og aft­ur inn í lík­ama og sál kon­unn­ar og hún verður kvíðin, hrædd og ein­mitt kannski stjórn­söm til að tak­ast á við þetta allt sam­an. Svo eru án efa marg­ar sem halda að þetta snú­ist ein­mitt um kyn­lífið en kannski er verra þegar það er ein­mitt ekki raun­in. Hvað snýst fram­hjá­haldið þá um? Ást?” spyr Sól­veig Jóns­dótt­ir.

Hjóna­bands­ráðgjafi sem nær ekki að bjarga sínu eig­in hjóna­bandi

Síðan er Kar­en hjóna­bands­ráðgjafi, sem er ekki endi­lega að bjarga sínu eig­in hjóna­bandi. Eða hvað?

„Nei ein­mitt. Í fyrstu var ég að spá í að hafa hana hár­greiðslu­konu sem hitti marga yfir dag­inn og væri góð í að halda uppi sam­tali um litlu hlut­ina í líf­inu. En svo ákvað ég að hafa hana sér­fræðing sem væri ein­mitt að mistak­ast í því sem hún vinn­ur við all­an dag­inn. Þannig er sýnt hvað lífið er hverf­ult og hvað við erum oft góð að tækla vanda­mál annarra. Eins gat ég skrifað inn í þætt­ina fleiri pör sem koma með þessi klass­ísku vanda­mál t.d. um fót­bolt­ann og kyn­lífið. Ég var hrædd um að það væri of mik­il „klisja“ en ákvað svo að það væri bara kost­ur. Það er nefni­lega svo margt satt við hluti sem við segj­um oft og eru al­menn­ir,” seg­ir Nanna Krist­ín.

Kló­sett­sen­urn­ar eru smá­veg­is „klisj­ur“ og pínu vand­ræðal­eg­ar er það ekki? Þær benda á að oft eru einu stund­irn­ar sem mömm­ur fá fyr­ir sig inn á baði.

„Munið þið ekki eft­ir því hvernig af­arn­ir okk­ar fóru alltaf á kló­settið með Mogg­ana hér á árum áður og nú höf­um við mömm­urn­ar tekið við af þeim,“ seg­ir Nanna Krist­ín.

„Að taka trúnaðarsam­tal með mömmu inn á kló­sett­inu er klass­ískt. Að passa upp á vin­kon­una að hún missi sig ekki í drykkj­unni ef hún er ekki á góðum stað er líka merki um góðan vin­skap og um­hyggju,“ seg­ir Sól­veig Jóns­dótt­ir.

Sól­veig Guðmunds­dótt­ir bend­ir á að það sem er áhuga­vert við þetta sé að á sama tíma sé ef til vill meira samþykkt að áfengi sjá­ist á körl­um. „Það er ekk­ert hneykslis­mál að karl­menn geri sér glaðan dag með strák­un­um og fái sér í glas á meðan það þykir ekki eins aðlaðandi að kon­ur séu út um allt.“

Þurf­um að huga að vellíðan kvenna í hjóna­bandi bet­ur

Það er eng­inn landsmaður að sleppa að geta speglað sig í Pabbahelg­um er það?

Nanna Krist­ín hugs­ar sig aðeins um áður en hún svar­ar „Auðvitað er ekki hægt að fjalla um allt og alla sem tengj­ast efn­inu. Kar­en nær til margra en það er ekki þar með sagt að hún end­ur­spegli all­ar kon­ur á Íslandi, langt frá því. Þó að ég eigi margt í Kar­en þá er hún ansi ólík mér. Það er búið að sýna tvo þætti, fjór­ir þætt­ir eft­ir. Og þar kom­um við aðeins inn á skilnaðarbörn­in og ábyrgðina sem er sett á þau þegar ver­öld hinn­ar full­komnu móður hryn­ur. Kon­una sem kann ekki milli­veg­inn og sér hlut­ina annað hvort hvíta eða svarta eins og Sól­veig nefndi áðan. Það er smá­veg­is ádeila í því. Það eru all­ir að fara í gegn­um eitt­hvað. Jafn­vel þeir sem lenda ekki í skips­brot­inu að missa hjóna­bandið sitt. Þeir eru bara með eitt­hvað annað. Kar­en reyn­ir að rétta sitt áfall af fyrst með áfengi en í leiðinni með hinu svo­kallaða „me-time“, sem er frek­ar mikið mót­sagna­kennt. En það síðara er auðvitað ein leið, að gefa sjálfri sér meira pláss í sínu eig­in lífi.“

Karen ákveður eftir skilnaðinn að búa til meira rými fyrir …
Kar­en ákveður eft­ir skilnaðinn að búa til meira rými fyr­ir sjálf­an sig í líf­inu. Hér hang­ir hún í rólujóga í Sól­um. Ljós­mynd/​Pabbahelg­ar
Sól­veig Jóns­dótt­ir bend­ir á að rann­sókn­ir sýni að marg­ar þeirra kvenna sem eru frá­skild­ar og ein­hleyp­ar mæður, og upp­lifa þenn­an barn­lausa tíma inn á milli, séu bet­ur á sig komn­ar, minna þreytt­ar og heil­brigðari en marg­ar kon­ur sem eru í sam­búð eða hjóna­bandi og stöðugt í hringiðu hvers­dags­leik­ans.

„Það er eitt­hvað sem sam­fé­lagið ætti að vera meðvitað um. En það er ekki þar með sagt að þetta séu ein­hverj­ar kjöraðstæður. Að vera ekki með börn­un­um sín­um kannski helm­ing­inn af tím­an­um, hitta þau jafn­vel bara óvænt í sundi eins og hvern ann­an eða að þekkja ekki stór­an hluta af því fólki sem barnið um­gengst. En við þurf­um greini­lega að huga bet­ur að um­hverfi kvenna í hjóna­bönd­um. Með því að sýna venju­lega konu á þenn­an hátt þá sjá­um við bet­ur í hverju áskor­an­irn­ar eru fólgn­ar.“

Sjá nánar hér: Hjónabandsráðgjafinn sem náði ekki að bjarga eigin hjónabandi

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR