Menningin um „Hvítan, hvítan dag“: Listilega ofin áfallasaga

Ingvar E. Sigurðsson og Ída Mekkín Hlynsdóttir í Hvítum, hvítum degi.

Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur er eftirminnilegt listaverk sem ofið er úr mörgum sterkum þráðum, segir Heiða Jóhannsdóttir kvikmyndagagnrýnandi í Menningunni á RÚV. „Hlynur Pálmason er frábær fulltrúi þess nýja hæfileikafólks sem veitir ferskum straumum inn í íslenska kvikmyndagerð um þessar mundir.“

Heiða skrifar meðal annars:

Strax í fyrsta samtalsatriðinu við Georg má segja að persónuleiki og erfið líðan Ingimundar spretti fullmótuð fram í túlkun Ingvars E. Sigurðssonar. Hann færir sterka tilfinninganálægð inn í persónuna sem er vandlega skorðuð rétt undir yfirborði agaðs viðmóts hans. Það má segja að Ingvar fari alla leið með þann fulltrúa hefðbundinnar karlmennsku sem Ingimundur að vissu leyti er. Harðfengið sem hann beitir til þess að halda sönsum er svo umbúðalaust að það verður kómískt og afhjúpandi fyrir þann persónuleika sem hér er til nærskoðunar.

Önnur persóna sem hjálpar Ingimundi að takast á við lífið er afastelpan hans, Salka, en samband þeirra er náið og með henni finnur hann gleði í sorginni. Hún veitir honum að sama skapi ákveðið aðhald, lætur hann ekki komast upp með fálætið eða að loka sig af. Samband Ingimundar og Sölku er eftirminnilega dregið fram í samleik þeirra Ingvars og barnungrar leikkonu, Ídu Mekkínar Hlynsdóttur. Ída sýnir skemmtilega hvernig sögupersónan ber sum af persónueinkennum afa síns, hvað ákveðni og hreinskiptni varðar, nema á jákvæðari hátt.

Það er ekki fyrr en Ingimundur verður þess áskynja að eiginkona hans hafi hugsanlega verið honum ótrú að innra ástand hans fer yfir þolmörkin, og þar liggur raunar spennuframvindan í myndinni. Hann hefur eftirgrennslan og loks njósnir um manninn sem liggur undir grun, og vindur það ferli hressilega upp á sig. Þá brýst harðstjórinn í Ingimundi fram og vekur atburðarásin, þar sem tilfinningar losna úr læðingi í gegnum offors, ákveðnar spurningar um þau hegðunarmynstur sem þar eru sett fram. En spennan liggur ekki aðeins í átakafléttunni milli karlanna tveggja, og raunar er stigvaxandi spenna myndarinnar vandlega undirbyggð, sem gerir það að verkum að krefjandi uppgjörsatriði þeirra Ingimundar og hins grunaða Olgeirs verða kraftmikil og tragísk.

Hilmir Snær Guðnason er firnagóður í hlutverki Olgeirs og er samleikur þessara tveggja reyndu leikara, þeirra Ingvars og Hilmis Snæs, svo ferskur í myndinni að maður áttar sig á því hversu mikið þeir eiga ennþá inni sem kvikmyndaleikarar í samvinnu við það hæfileikafólk sem Hlynur Pálmason og samstarfsfólk hans er. Þór Tulinius er sömuleiðis frábær í hlutverki sálfræðingsins Georgs, sem og Sigurður Sigurjónsson og Arnmundur Ernst Backman sem gæða atriðin á lögreglustöðinni húmor og töfrum.

Grjót, þoka og vegir
Sverrir Þór Sverrisson leikari kemur skemmtilega inn í myndina í atriði sem lýsir ef til vill því þegar angistin smeygir sér inn í sjálfan griðastað Ingimundar, það er húsið góða, þegar fjölskylda dóttur hans er í heimsókn. Barnatíminn sem ært hefur marga barnafjölskylduna, er stilltur á hæsta og má þar greina gamanpersónuna Sveppa í mynd- og hljóðrás í miklum tilþrifum eftir brotlendingu geimfars. Eftir því sem barnatíminn rennur saman við ýmis ágeng umhverfishljóð, verður ljóst að þarna er enginn venjulegur barnatími á ferð, heldur dæmi um það sem er að hluta til huglæg miðlun myndarinnar á innri ótta Ingimundar.

Atriðið sýnir hvernig leikstjórinn notar listilega heild sviðsmyndarinnar til þess að miðla því erfiða og að lokum óbærilega ástandi sem Ingimundur er staddur í. Í hverju einasta atriði framvindunnar er í raun einhvers konar áminning um áfallið og þann sársauka sem Ingimundur hefur reynt að forðast að takast á við, og birtast grjót, vegir, hin aflögðu Oddskarðsgöng og þokan þar meðal annars sem leiðartákn. Tákngildi þokunnar birtist til dæmis í fallegu atriði þar sem þau Ingimundur og Salka eru úti á bát á siglingu um fjörðinn. Þokan í bakgrunni minnir á beyginn og doðann í tilfinningalífi Ingimundar sem rennur saman við gleðina í bátsferðinni. Sá eiginleiki hinnar hvítu, hvítu þoku að afmá leiðarvísa og mörk verður að sterku tákni fyrir söguna í heild. Líkt og framvinda myndarinnar tjáir, er ekki hægt að ramma lífið, og allra síst tilfinningalífið, af á þann máta sem hinn tragíska hetja sögunnar reynir í fyrstu. Þegar á líður verður svarti liturinn æ ágengari, en í honum má segja að Ingimundur finni leið til þess að halda til móts við skrímslin í vitundinni og í honum sjálfum.

Frábær fulltrúi nýrrar kynslóðar kvikmyndagerðarfólks
Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur er eftirminnilegt listaverk sem ofið er úr mörgum sterkum þráðum, allt frá handriti, til kvikmyndatöku og klippingar, og atriða á borð við notkun á skjám og tækjum. Leikmyndin er vandlega staðsett í tíðaranda fyrir rúmum tíu árum, rétt fyrir snjalltækjavæðinguna. Tónlist Edmunds Finnis tjáir tilfinningalitrófið vel og hljóðheimur myndarinnar er notaður á áhugaverðan hátt til þess að víkka skynjun á sögusviðinu út fyrir ramma linsunnar, líkt og þokan sem afmáir skil. Ágeng umhverfishljóð gegna ákveðnu hlutverki í myndinni, en á köflum virðist hljóðblöndunin ójöfn og á stundum er talið ekki nógu skýrt til að heyrast nægilega vel.

Hlynur Pálmason er frábær fulltrúi þess nýja hæfileikafólks sem veitir ferskum straumum inn í íslenska kvikmyndagerð um þessar mundir. Með Hvítum, hvítum degi setur hann þó sitt eigið einstaka mark á íslenska kvikmyndasögu. Að sama skapi skipar hann sér í hefð með Kristínu Jóhannesdóttur, Friðriki Þór Friðrikssyni og Degi Kára í Nóa Albínóa, í því hvernig nálgast er kvikmyndalistina á frjóan og eftirminnilegan máta.

Sjá nánar hér: Listilega ofin áfallasaga | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR