Lestin um „Hvítan, hvítan dag“: Marglaga listræn kvikmynd sem kafar á dýpið

Rammi úr Hvítum, hvítum degi eftir Hlyn Pálmason (Mynd: Join Motion Pictures).

Marta Sigríður Pétursdóttir kvikmyndarýnir Lestarinnar segir að Hlynur Pálmason dýfi sér ofan í brunn sagnaminnis mannkynsins í Hvítum, hvítum degi – og komi upp úr kafinu með frábært kvikmyndaverk. Myndin er frumsýnd 6. september í kvikmyndahúsum Senu.

Marta Sigríður skrifar meðal annars:

Það vill svo til að Útlaginn, hin sígilda kvikmyndaaðlögun Ágústs Guðmundssonar á Gísla sögu Súrssonar frá árinu 1981 er aðgengileg á vef RÚV um þessar mundir. Ég horfði á fyrri hluta myndarinnar og skemmti mér mjög vel. Daginn eftir fór ég svo á frumsýninguna á Hvítum, hvítum degi eftir Hlyn Pálmason, með þessi endurnýjuðu kynni af Útlaganum í farteskinu.

[…]

Í upphafi sögunnar verðum við vitni að banaslysi og myndin fylgir afleiðingum þess og sorgarferlinu sem Ingimundur fer í gegnum. Hann er fálátur við flesta nema barnabarnið sitt og hann lýsir sér sjálfur í viðtali við sálfræðing sem einfaldlega manni, föður, afa, löggu og ekkli. Þegar Ingimund byrjar að gruna að eiginkona hans hafi ekki verið honum trú verður hann smám saman heltekinn af því að komast að sannleikanum. Eins og leikstjórinn hefur sjálfur sagt fjallar Hvítur, hvítur dagur um tvenns konar ást, skilyrðislausa ást og svo flókna rómantíska ást sem endurspeglast annars vegar í sambandi Ingimundar við barnabarnið sitt og hins vegar við eiginkonuna.

Margrætt myndmál

Hvítur, hvítur dagur er marglaga listræn kvikmynd sem kafar á dýpið og ekki er hægt að staðsetja þægilega innan einnar ákveðinnar kvikmyndagreinar. Í henni eru þættir sálfræði- og spennutryllis, draugamynda, tilraunakenndrar heimildarmyndagerðar og myndlistar. Margrætt myndmálið er sneisafullt af táknum og ljóðrænum vangaveltum um lífið, dauðann og ástina. Undirmeðvitundin, draumar og draugar og draugaleg nærvera skipa einnig stóran sess. Náttúran og þá sérstaklega síbreytilegt veðrið, eins og titill myndarinnar gefur til kynna, er mjög mikilvæg.

Myndin hefst á löngu atriði þar sem húsið sem Ingimundur, og Hlynur sjálfur í raunveruleikanum, er að gera upp og við sjáum húsið taka breytingum alveg eins og veðrið og árstíðirnar breytast á meðan það táknar einnig hverfula og blekkjandi hugmynd um kyrrstöðu. Þessi sena minnti mig á heimildarmyndina Hello Horse! eftir lettneska leikstjórann Lailu Pakalninu sem var gestur á RIFF í fyrra og á Skjaldborg í ár. Sú mynd kannar einmitt samband mannvirkja við náttúru, veðurfar og árstíðaskipti en Hlynur byrjaði víst að fanga húsið á filmu löngu áður en tökur á kvikmyndinni hófust. Hér skarast því ljósmyndun, heimildarmyndaformið og skáldaður heimur kvikmyndarinnar.

Línuleg frásögn myndarinnar er stöðugt brotin upp með áhugaverðu myndmáli, draugaleg nærvera birtist einkum í gegnum skjái, bæði tölvuskjá, en líka í gegnum gamlar myndbandsupptökur og öryggismyndavélar, sem minnti mig á Lost Highway eftir David Lynch en líka kvikmyndina Á hjara veraldar eftir Kristínu Jóhannesdóttur. Bæði eru þau leikstjórar sem sækja innblástur í undirmeðvitundina og gera djarfar tilraunir með kvikmyndaformið. Óhugnanlegur undirtónninn og súrrealískar, oft á tíðum bráðfyndnar senur, minntu mig líka á myndir gríska leikstjórans Yorgos Lanthimos.

Móralskur áttaviti fullorðna fólksins

Á yfirborðinu er frásögnin nokkuð einföld, framvindan er melódramatísk og sögusviðið er gamalkunnugt, íslenski smábærinn. Ingvar E. Sigurðsson er flestum áhorfendum kunnur sem fálát og brúnaþung lögga, sem og erkitýpan sem hinn kokkálaði eiginmaður í hefndarhug er. Með snjöllum og listrænum útfærslum verður þó gamalt stef að nýju. Það er einnig að þakka stórkostlegum samleik Ingvars E. Sigurðssonar sem sýnir enn eina ferðina af hverju hann er einn ástsælasti kvikmyndaleikari Íslands, og Ídu Mekkínar sem leikur barnabarnið hans, Sölku. Ég man ekki eftir að hafa séð svo náttúrulegan og áreynslulausan leik áður eins og hjá Ídu Mekkín. Barnið í sögunni er eins og svo oft áður móralskur áttaviti í heimi hinna fullorðnu og áttavilltu. Linsan þysjar inn á Sölku á mikilvægum augnablikum og við skynjum heiminn út frá sjónarhorni barnsins sem verður að treysta fullorðna fólkinu til að sjá um sig, þó svo að það sé jafnvel ekki fært um að sjá um sig sjálft.

Hlynur heldur áfram farsælu samstarfi sínu við kvikmyndatökukonuna Mariu von Hausswolff en hún tók einnig upp Vetrarbræður. Nánast hver einasti rammi í myndinni gæti staðið sem sjálfstætt listaverk og það er ljóst að það er einhver stórkostleg alkemía í samstarfi þeirra tveggja. Kvikmyndatónlistin eftir enska tónskáldið Edmund Finnis hæfir viðfangsefninu fullkomlega og magnar upp stemmninguna og skapar hughrif óhugnaðar og fegurðar. Það er vel valið í öll hlutverk í myndinni, Hilmir Snær er þannig fullkominn í hlutverki viðhaldsins og Arnmundur Ernst Backman, Sigurður Sigurjónsson, Þór Tulinius, Laufey Elíasdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Haraldur Ari Stefánsson, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, að ógleymdum Sverri Þór Sverrissyni, eða Sveppa, vinna öll vel með sínar persónur, en leikurinn var alltaf í góðu flæði, náttúrulegur og áreynslulaus sem hlýtur að skrifast að stóru leyti á leikstjórann.

Svo ég víki aftur að Útlaganum þá fannst mér hann bergmála í Ingimundi, í einni af lokasenunum er til að mynda dregin upp erkitýpísk mynd sem að minnti mig beinlínis á sjálfa styttuna af Útlaganum eftir Einar Jónsson, sem stendur á milli gamla kirkjugarðarins og Hringbrautar í Reykjavík. Ingimundur er vitaskuld útvörður laganna á hjara veraldar en eftir því sem líður á myndina stígur hann lengra og lengra út fyrir lögin þar til hann er sjálfur kominn kirfilega yfir á hið villta svæði útlagans eins og Gísli, hann er maður, lögga, faðir, afi og ekkill en líka skrímsli. Skuggasjálfið hefur elt hann uppi og hann neyðist til þess að horfast í augu við það, hann. Dularfullt veður, draumar, draugagangur, óhefluð karlmennska og sjúkleg þörf til þess að hefna minnir okkur líka á Íslendingasögurnar.

Kynngimögnuð heild

Ef það er eitthvað sem ég get sett út á í Hvítum, hvítum degi, sem ég var annars mjög hrifin af, þá er það lokasenan, mér fannst hún ekki bæta neinu við, nema sem fagurfræðileg stúdía á þrám Ingimundar. Þarna kom gamall draugur aftan að leikstjóranum, kvenkyns áhorfendur eru þreyttir á útjöskuðum endurtekningum á nöktum kvenmannslíkömum í kvikmyndum, sérstaklega þeim sem hanga í lausu lofti án djúps samhengis og tengsla við lifandi, fullmótaðar persónur.

Eftir sem áður þá situr Hvítur, hvítur dagur lengi eftir í manni. Brunnur sagnaminnis mannkynsins er djúpur og Hlynur Pálmason dýfir sér fimlega ofan í hann og kemur upp úr kafinu færandi hendi með frábært kvikmyndaverk þar sem saga, myndir og hljóð koma saman í kynngimagnaðri heild.

Sjá nánar hér: Marglaga listræn kvikmynd sem kafar á dýpið | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR