[Stikla] „End of Sentence“ eftir Elfar Aðalsteins, frumsýnd á Edinborgarhátíðinni

John Hawkes og Logan Lerman í End of Sentence.

End of Sentence, fyrsta bíómynd Elfars Aðalsteins, er frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Edinborg sem nú stendur yfir. Hér má skoða stiklu myndarinnar.

End of Sentence er svo lýst:

Áður en Frank Fogle leggur í vegferð til að uppfylla hinstu ósk eiginkonu sinnar þarf hann einnig að uppfylla loforð um að taka son þeirra Sean með. Langferð frá Ameríku til Írlands með föður sínum er hinsvegar það síðasta sem Sean hefur í hyggju er hann stígur út úr fangelsi í Alabama og að dreifa ösku móður sinnar í stöðuvatn á uppeldisslóðum hennar gengur þvert á hans framtíðaráætlanir. En er ferðaplön hans hrynja samþykkir hann treglega að slást í för með föður sinum gegn því að þeir feðgar munu aldrei þurfa að hittast aftur.

Óútreiknanlegt ferðalag á röngum vegahelmingi bíður þeirra feðga þar sem furðuleg líkvaka, birting gamals elskhuga, írsk blómarós og hellingur af óppgerðum fjölskyldumálum taka sinn toll.

John Hawkes (tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir aukahlutverk í Winter’s Bone 2011) , Logan Lerman, Sarah Bolger, Andrea Irvine og Ólafur Darri Ólafsson fara með helstu hlutverk.

Elfar (sem hlaut Edduverðlaun fyrir stuttmynd ársins, Sailcloth, 2013) leikstýrir og framleiðir fyrir Berserk Films ásamt David Collins hjá Samson Films á Írlandi og Sigurjóni Sighvatssyni hjá Palomar Pictures í Bandaríkjunum. Meðframleiðendur eru Guðrún Edda Þórhannesdóttir, John Wallace og Eggert Baldvinsson. Handrit skrifar Michael Armbruster og Karl Óskarsson sér um kvikmyndatöku. Kristján Loðmfjörð klippir. Rocket Science og William Morris Endevour sjá um sölu á alþjóðlegum vettvangi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR