Lestin um SUMARLJÓS OG SVO KEMUR NÓTTIN: Þorpið segir áhorfendum sögur af íbúum

Margar furðulegar og skemmtilegar persónur en frásögnin ekki nógu heildstæð, er meðal þess sem Guðrún Elsa Bragadóttir gagnrýnandi Lestarinnar, nefnir í umsögn sinni um Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Elfar Aðalsteins.

Guðrún skrifar:

Persónurnar sem hér er lýst eru margar furðulegar og oft skemmtilegar og leikararnir standa sig mjög vel í túlkun þeirra. Ég er þó ekki alveg sátt með eina, svolítið stóra, ósýnilega persónu: Þorpið sem segir áhorfendum sögurnar af íbúum sínum.

Hér er ég ekki bara föst í einhverri ósveigjanlegri reglu um að kvikmyndir eigi að sýna frekar en segja; til dæmis þykir mér mjög vænt um sögumannsröddina í annarri mynd um þorp, Dogville eftir Lars von Trier, þar sem hún þjónar mikilvægu hlutverki í að draga áhorfendur inn í söguheim sem er fyrir ýmsar sakir óaðgengilegur.

Sumarljós og svo kemur nóttin er tekin upp á Þingeyri við Dýrafjörð, sem er fallegur staður sem hefði getað umbreyst í eitthvað sem líkist persónu í myndinni, að minnsta kosti gæti ég ímyndað mér að hægt hefði verið að gefa plássinu meiri karakter, gera það heildstæðara og merkingarþrungnara sem sögusvið, en ég leyfi mér að segja þetta vegna þess að myndin er afar vel gerð og þar er kvikmyndatakan, sem var í höndum David Williamson, sérstaklega eftirtektarverð.

Ég velti fyrir mér hvort virðingin fyrir bókmenntaverkinu sem myndin byggir á hafi staðið kvikmyndagerðarmanni fyrir þrifum, enda er skáldsaga Jóns Kalmans verðlaunabók sem er í miklum metum hjá bókmenntaunnendum þjóðarinnar. Mögulega hefði einhverjum til dæmis þótt það hálfgerð vanhelgun að umbreyta þorpsröddinni í glænýja en djúpvitra persónu, sem væri með nefið ofaní hvers manns koppi og hefði ríka tilhneigingu til þess að fílósófera um lífið á þessum undarlega stað.

Þorp samanstendur ekki aðeins af húsum, götum og gangstéttum; fólkið sjálft er þorpið, og það er nokkuð sem mér fannst myndin að einhverju leyti meðvituð um. Samt fannst mér persónurnar oft einangraðar, ekki eins og þær væru alltaf allar á sama stað. Það skýrist að hluta af því að sögurnar eru margar og skarast lítið, en það er flókið að miðla bók sem tekur rúmar 10 klukkustundir í upplestri í kvikmynd í hefðbundinni lengd.

Mig grunar nú samt að það hefði mátt ná aukinni heildstæðni í aðlögunarferlinu, hvort sem er með því að búa til fleiri tengingar eða skapa nálægð með sjónrænum hætti.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR