Netflix fjármagnar stóran hluta “The Valhalla Murders”

Netflix mun koma að fjármögnun glæpaseríunnar Valhalla Murders sem framleidd verður af True North, Mystery og RÚV.

RÚV greinir frá og þar kemur meðal annars fram að Netflix kaupi alheimssýningarréttinn að þáttaröðinni.

Kostnaður við framleiðslu þáttanna er sagður nema um 700 milljónum króna og tryggir samningurinn við Netflix að nær helmingur fjármögnunarinnar kemur erlendis frá, í gegnum Netflix og frekari sölu á þáttaröðinni.

Gerðir verða átta þættir og verður þeim leikstýrt af Þórði Pálssyni, Þóru Hilmarsdóttur og Davíð Óskari Ólafssyni. Handritshöfundateymið er skipað þeim Margréti Örnólfsdóttur, Óttari Norðfjörð, Ottó Geir Borg og Mikael Torfasyni. Með aðalhlutverkin fara þau Björn Thors og Nína Dögg Filippusdóttir.

Þættirnir segja frá því að þegar þriðja manneskjan finnst myrt innan sömu vikunnar áttar lögreglan sig á því að fyrsti íslenski raðmorðinginn gengur laus. Öll fórnarlömbin eru á einn eða annan hátt tengd hryllilegum atburðum sem áttu sér stað fyrir 35 árum.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum liggur enn ekki fyrir íslenskt heiti þáttaraðarinnar, en að sögn Skarphéðins Guðmundssonar dagskrárstjóra RÚV verður tilkynnt um það síðar.

Sjá nánar hér: Netflix setur milljónir í íslenska glæpaþætti

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR