Heimildamyndin “In Touch” verðlaunuð á IDFA

Framleiðendurnir Haukur M. Hrafnsson og Lukasz Dluglecki taka við verðlaununum á IDFA hátíðinni. (Mynd: Nichon Glerum)

Íslenska/pólska heimildarmyndin In Touch eftir Pawel Ziemilski vann til sérstakra dómnefndarverðlauna í aðalkeppni á IDFA sem fer fram í Amsterdam um þessar mundir. Þetta er fyrsta íslenska heimildarmyndin sem vinnur til verðlauna í aðalkeppni á hátíðinni, sem er sú stærsta og virtasta á sínu sviði.

Þorpið Stare Juchy í Póllandi tvístrast eftir að þriðjungur íbúa þess hverfur til starfa á Íslandi. Þeir sem eftir eru, flestir af eldri kynslóðinni, halda í vonina að börn þeirra og barnabörn snúi einn daginn tilbaka þrátt fyrir að hafa hafið nýtt líf hinum megin í Evrópu. Fjarlægðin á milli þeirra er mikil og ferðin er dýr, svo fjölskyldur fá ekki að faðmast eins oft og þær kjósa. Besta í stöðunni er að vera í tíðu og áköfu sambandi í gegnum Skype.

Í In Touch gerir Pawel Ziemilski, leikstjóri myndarinnar, tilraun til þess að færa þessar brotnu fjölskyldur saman á ný á sjónrænan hátt með endurvarpi hreyfimynda á bakgrunn sem hefur sérstakt gildi og merkingu fyrir þá sem eiga hlut að máli; á veggi æskuheimilisins, félagsheimilisins, út í náttúrunni, á ástvini.

In Touch er framleidd af Lukasz Dluglecki og Hauki M. Hrafnsyni fyrir NUR og meðframleidd af Antoni Máni Svanssyni fyrir Join Motion Pictures. Fjölmargir Íslendingar komu að gerð myndarinnar sem tekin var upp að miklu leyti á Íslandi. Þar á meðal sá Ásta Júlía Guðjónsdóttir um kvikmyndatökur hér á landi, Haukur M. kom að handritsgerðinni og frumsamin tónlist er eftir Árna Val Kristinsson.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR