“Þetta er ekki spennuþrungin frásögn heldur næm og grípandi umfjöllun um fíkla – sem hér eru venjulegar manneskjur með ástríður og drauma, ekki tölur á blaði eða hættulegir glæpamenn,” segir Sólveig Johnsen hjá Engum stjörnum, kvikmyndaumfjöllun Kvikmyndafræðideildar HÍ um Lof mér að falla Baldvins Z.
Sólveig segir m.a.:
Í Lof mér að falla (2018) tekst Baldvin Z á við undirheima Reykjavíkur á hátt sem ekki hefur sést áður í íslenskri kvikmyndagerð. Í henni er sögð ástarsaga tveggja kvenna sem báðar eru fíklar. Þetta er eitrað samband sem dregur þær báðar dýpra og dýpra í svaðið, þær eru ekki einungis háðar efnunum heldur hvor annarri líka og því skapast hér saga um fíkn og þráhyggju, í efni og í ást. Með þessum vinkli tekst Baldvin að fjalla um fíkniefnaheiminn á Íslandi á tilfinningalegu plani; þetta er ekki spennuþrungin frásögn heldur næm og grípandi umfjöllun um fíkla – sem hér eru venjulegar manneskjur með ástríður og drauma, ekki tölur á blaði eða hættulegir glæpamenn.
Enn fremur gefur það kvikmyndinni aukna merkingu að fjalla um konur innan þessa heims, en ljóst er að þó undirheimarnir séu grimmir við alla verða konur undir á annan og alvarlegri hátt en karlar, meðal annars vegna þess mikla kynferðisofbeldis sem þær eru beittar. Þær eru jaðarsettar innan jaðarsetts hóps.
[…]Samtöl í kvikmyndinni eru í eðlilegu og raunsæju flæði, leikstjórinn er óhræddur við að leyfa persónum að tala óskýrt eða ofan í hvor aðra. Þetta er djarft val þar sem hérlendir áhorfendur eru vanir því að talað sé afskaplega skýrt í íslenskum kvikmyndum. Óhætt er að segja að þetta borgi sig, áhorfendur fá á tilfinninguna að þeir séu að horfa á eitthvað raunverulegt, ekki skrifuð samtöl. Af og til blandast myrk kímni inn í þau og ekki er hægt annað en að flissa þó efnið sé grafalvarlegt. Kvikmyndataka og eftirvinnsla vinna vel með efninu og ýta hvarvetna undir þau hughrif sem atburðarásin og persónurnar hafa á áhorfendur. Mikið er um nærgöngula, þrönga innrömmun sem sýnir andlit og líkama persóna í miklu návígi. Sömuleiðis er talsvert um handheldar, óstöðugar tökur og hraða klippingu. Með þessum aðferðum eru áhorfendur settir inn í augnablikið, þeir eru „á staðnum“ og upplifa ringulreiðina í huga persóna. Leikstjórinn getur síðan haft gríðarsterk áhrif með því að skipta skyndilega yfir í langt, stöðugt skot sem gefur engum færi á að líta undan (og er eitt slíkt líklega það magnaðasta í kvikmyndinni). Tónlistin er vandlega úthugsuð og ýtir undir myndefnið án þess að verða yfirgnæfandi – það er hreinlega hrollvekjandi þegar harðneskjulegir tónar hljómsveitarinnar Hatari hljóma í dóp-partíi. Í kvikmyndinni er mikið um ofbeldisatriði, en Baldvin fer þá leið að sýna ekki ofbeldið sjálft á grafískan hátt heldur að einblína frekar á tilfinningahliðina og á afleiðingar ofbeldisins. Hann gefur þannig áhorfendum tækifæri á að fylla í eyðurnar. Þetta er í andstæðu við þá tilhneygingu meginstraumsins að nota grafísk ofbeldisatriði til að krydda kvikmyndir, ýta við áhorfendum og jafnvel hneyksla þá.
[…]Líklega er engin kvikmynd fullkomin og að sjálfsögðu mætti tína til einhver atriði við Lof mér að falla sem betur gætu farið. Mögulega var óþarfi að hnýta sögulokin saman á jafn dramatískan hátt og gert var. Mögulega hefði mátt veita persónusköpun Stellu meira rými, gefa henni baksögu og sýna meira af hennar mannlegu hlið. Jafnvel hefði mögulega mátt leggja meira upp úr því að líkamsbygging eldri leikkvennanna samsvaraði þeim yngri. Þetta eru þó smáatriði í heildarupplifuninni. Lof mér að falla er raunveruleg saga af raunverulegu fólki, saga sem í einhverri útfærslu er að eiga sér stað akkúrat núna. Hún hefur forvarnargildi, hún gefur innsýn í heim sem flestum er hulinn og vekur athygli á mikilvægum málefnum. Í henni heyrast raddir sem hingað til hafa ekki fengið rými.
Sjá nánar hér: ES 2018 | Kvikmyndafræði Háskóla Íslands