Jón Viðar Jónsson um „Kona fer í stríð“: Mun lifa stutt og gleymast

Jón Viðar Jónsson gagnrýnandi fjallar um Kona fer í stríð Benedikts Erlingssonar á Fésbókarsíðu sinni og segir hana vonda mynd, löðrandi í pólitískum rétttrúnaði.

Jón Viðar segir:

Fór að sjá Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson í gærkveldi. Vond mynd – afar vond. Hún er svo löðrandi í pólitískum rétttrúnaði um umhverfisvernd, ættleiðingu barna, illa meðferð á útlendingum og fleira þess háttar að ég man varla eftir öðru eins úr íslenskri bíómynd. Aðalpersónan er einhvers konar tvískiptingur, Halldóra Geirharðsdóttir leikur báða partana: annar er Súpermann (afsakið Súperkona) sem býr í 101 R og stundar terrorisma í þágu umhverfisverndar, hinn er jógi sem trúir á frið á jörðu eins og hipparnir; í lok myndarinnar fallast þessir partar í faðma og ganga upp í einhverju sem ég geri ráð fyrir að eiga að að vera æðra vitundarstig, ímynd siðferðislegrar fullkomnunar hér á jörð – eða sú er sýnilega tilætlun Benedikts. Svo leikur Johann Sigurðarson bónda nokkurn sem er fulltrúi hinnar heilsteyptu, hjartahreinu alþýðu sem býr að sjálfsögðu úti á landi; en það höfum við nú vitað allt frá því Halldór Laxness skrifaði Atómstöðina. Ég tók ekki eftir því í „kreditlistunum“ hvort Landsvirkjun og Álverið í Straumsvík voru ekki örugglega meðal stuðningsaðila myndarinnar, en held að svo hljóti að hafa verið. Ef Benedikt er hættur að vinna í leikhúsi til þess að gera svona naívan sentimentalisma þá er verr farið en heima setið hjá honum. Það getur vel verið að þessi mynd geri það gott á kvikmyndahátíðum; hún mun lifa stutt og gleymast.

Fjörlegar umræður skapast á Fésbókarsíðu Jóns Viðars um þessa umsögn eins og sjá má hér að neðan:

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR