Berlinale II: Skipulögð hjónabönd, hjólastólakómedía og pólitískar rokkstjörnur

Í seinni pistli Ásgeirs H. Ingólfssonar um síðustu Berlínarhátíð fjallar hann um Taugaveiklaða köttinn eftir Susan Gordanshekan, Don‘t Worry, He Won‘t Get Far on Foot eftir Gus Van Sant, Matangi / Maya / M.I.A. eftir Stephen Loveridge og Generation Wealth eftir Lauren Greenfeld.

Mina og Kian eru ung íransk-ættuð hjón í Þýskalandi. Um flest eru þau ósköp svipuð vinum sínum og kunningjum, nema um eitt: þau þekktust ekki áður en þau giftust. Miðað við reynslu af skipulögðum hjónaböndum í vestrænum skáldskap vakna eftirfarandi spurningar nánast ósjálfrátt: Er hann (eða hún) ofbeldisfullur síkópati? Verður hún (eða hann) ástfangin af einhverjum öðrum? Verður þetta hús fullt af þögn fólks sem þekkist ekki?

Merkilegt nokk gerist ekkert af þessu í Taugaveiklaða kettinum (Die defekte katze). Þetta er sjaldgæf mynd sem tekur þessa stofnun, skipulagða hjónabandið, fyrir og sleppir því að demónísera það en leyfir manni þess í stað einfaldlega að fá örlitla innsýn inní hvernig nútímafólk vinnur úr þessum aðstæðum. Þau eru skiljanlega feimnari heldur en nýgift fólk sem hefur þekkst lengi, allt samlífi og tilfinningar er eitthvað sem tekur tíma að vinna úr. Og það eru alls kyns vandamál í veginum og það er ekkert víst að þetta gangi upp. Í ofanálag er hún nýflutt til Þýskalands frá Íran, hann er altandi á þýsku á meðan hún er að læra á nýtt hjónaband, nýtt land og nýtt tungumál, allt í einu. Enda er hún aðalpersóna sögunnar – og gaman að sjá hana kynnast nýju tungumáli og nýjum eiginmanni samtímis (og málinu að stórum hluta í gegnum hann). Öll þeirra vandræði krystallast svo í kettinum, sem hún vill og hann ekki. Hann er skilnaðarbarn sögunnar – ef svo fer. Ég ætla ekki að segja ykkur hvernig það fer allt saman, en það kemur skemmtilega á óvart.

Þessar stóru kvikmyndahátíðir snúast vissulega um ýmislegt – og það rúmast ekki allt inní bíósalnum. En þegar kemur að bíómyndum dreymir mann um tvennt: að uppgötva einhverja sjaldgæfa demanta, eins og Taugaveiklaða köttinn, myndir sem margar týnast í kvikmyndahafinu og lifa aðeins í minni okkar, þessara örfáu sálna sem voru nógu heppnar til að sjá þær. Og kannski lifa þær líka á einhverri djúsí öndergránd vídjóleigu í Teheran.

DontWorryHeWontGetFarOnFoot

Hitt sem mann dreymir um er að verða með þeim allra fyrstu í heiminum til þess að sjá einhvern framtíðarklassíker. Óskarsmyndir næsta árs, til dæmis. Og þar sem ég sat í Berlinale Palast á þriðjudagskvöldi og horfði á nýjustu mynd Gus van Sant hugsaði ég með mér: er ég akkúrat núna að horfa á manninn sem mun taka við óskarnum sem besti leikari eftir meira en ár? Þetta var jú ágætlega stór Hollywood mynd og Joaquin Phoenix er einfaldlega algjörlega stórkostlegur í henni. Svo gekk ég út og fattaði að hlutverkið tikkaði líka í öll boxin: sannsöguleg saga um alkóhólista í hjólastól. Óskarsakademían elskar ekkert meira en akkúrat þetta.

Þannig að auðvitað fór ég á internetið og velti fyrir mér hvort það væri ekki kominn tími á að gerast fjárhættuspilari og veðja aleigunni á þessa styttu hans Joaquins – en ákvað að kíkja aðeins á fyrstu viðbrögð kollegana við myndinni fyrst. Og jú, þau voru vissulega heilt yfir frekar jákvæð. En samt, það voru furðu margir ósáttir – og þá fattaði ég hverju ég var að gleyma. Myndir um alkóhólista í hjólastólum eiga að vera sorglegar, þær eiga að fá þig til að gráta. En þetta er mynd um myndasöguteiknara sem teiknar skrítlur – auðvitað er þetta gamanmynd, annað væru hálfgerð svik við persónuna. Það eru vissulega senur sem einhverjum gæti vöknað um augu – en það er aukaatriði hvort myndin græti þig eða ekki.

KuKluxKlan

Titillinn er mögulega vandamál líka, Don‘t Worry, He Won‘t Get Far on Foot er ekki titill sem festist auðveldlega í minni. Það er að segja, ekki fyrr en maður sér myndina og fattar brandarann.

Og svo ég segi ykkur aðeins betur frá myndinni þá fjallar hún um John Callahan, sem Phoenix leikur af svona mikilli snilld. Við fáum örlitla nasasjón af hedóníska líferninu sem kom honum í hjólastólinn – en myndin er þó fyrst og fremst drepfyndin, einlæg og já, stöku sinnum hugljúf saga um það hvernig það er að vera í hjólastól, teikna myndasögur og fara á AA fundi. Svo sjáum við líka baráttu hans við kerfið – sem ætlast til þess að hann sé bljúgur og auðmjúkur engill eins og allt fatlað fólk á að vera – og hann þarf helst líka að hætta þessu myndasögubrölti eftir að hann byrjar að fá borgað fyrir það, það má ekki og getur kostað hann örorkuna. Spengilegur Jonah Hill stelur svo ófáum senum sem sponsorinn hans Phoenix og samband þessara manna sem og hinna alkóhólistanna er vel unnið – þetta er hvorki fordæming né upphafning á AA samtökunum, heldur bara heiðarleg skoðun á samtökunum og þeim meingölluðu en vel meinandi manneskjum sem rata þangað inn. Rooney Mara er svo stórgóð sem kærasta Phoenix en hefði að óskekju mátt fá meiri tíma á skjánum.

Glamúr og þjóðarmorð

Kollegi minn á Kvennablaðinu var svo heppinn að rata á blaðamannafund fyrir heimildamynd um tónlistarkonuna M.I.A. þar sem hún og Stephen Loveridge, leikstjóri myndarinnar, deildu um gæði myndarinnar fyrir framan agndofa heimspressuna.

MIAStilla.jpgÞað kemur kannski ekki á óvart þegar maður áttar sig á að þau eru aldavinir og kynntust í kvikmyndaskóla áður en M.I.A. helgaði sig tónlistinni – en þessi bakgrunnur skýrir örugglega af hverju tónlistarmyndböndin eru jafn mikilvægur hluti af listsköpun tónlistarkonunnar.

Matangi / Maya / M.I.A. er vissulega heillandi og forvitnileg heimildamynd – en ég get ekki annað en tekið undir gagnrýni tónlistarkonunnar að einhverju leyti. Þetta er nefnilega um margt óþarflega hefðbundin tónlistarmannaheimildamynd. Svipar jafnvel um sumt til Amy – þótt hún sé blessunarlega nokkrum ljósárum betri en sú skelfilega mynd. En málið er þetta: M.I.A. er einhver al-pólitískasta söngkona okkar tíma og hefur helgað mikilli orku þeirri baráttu að vekja athygli á þjóðarmorðum ríkisstjórnar Sri Lanka á tamílskum íbúum eyjunnar. Enda er M.I.A. sjálf dóttir háttsetts byltingarleiðtoga, þótt sjálf sé hún alin upp í friðsemdinni á Bretlandseyjum. Þegar hún fer í sjónvarpsviðtöl þarf hún ósjaldan að berjast við skelfilega heimskulegar spurningar blaðamanna og þáttastjórnanda (Bill Maher má til dæmis alveg skammast sín fyrir viðtalið sem hann tekur við söngkonuna) á meðan hún vill ræða pólitíkina, sem er sannarlega ekki off-topic enda list hennar hápólitísk.

En hún rekur sig á veggi, henni skal troðið inní staðalmynd popp-dívunnar – og tilraunir hennar til að vera eitthvað annað er meira að segja túlkað sem dívustælar. Vandinn er svo að þótt heimildamyndin taki hennar málstað þá gerir hún að sumu leyti þetta sama, treður henni inn í form poppdívuævisögunnar, frekar en að hafa hugrekkið til að ganga alla leið og gera hápólitíska, tilraunakennda og eldfima bíómynd – út af því sú saga er þarna bak við, hálfsögð.

GenerationWealth2Að því sögðu er alveg hægt að gera magnaða mynd um dívur heimsins. Höldum okkur á svipuðum slóðum og bregðum okkur á aðra stórmerkilega heimildamynd sem daðrar við það að vera stórkostleg. Generation Wealth fjallar um heim moldríkra krakka í Los Angeles – og einnig um líf þeirra á fullorðinsárum. Forsagan er þessi: heimildaljósmyndarinn Lauren Greenfeld kemur heim með skottið á milli lappana eftir að National Geographic hættir við ljósmyndaverkefni um fátæka krakka í Mexíkó, sem hún var þar að auki ekki almennilega að tengja við.

En hún er svo heppinn að eiga góðan kærasta – sem reynist vera sjaldgæft dæmi um fórnfúsan maka af karlkyni sem heldur heimilinu gangandi á meðan konan er í eilífum vinnuferðum í fjarlægum löndum – sem hvetur hana áfram og bannar henni að gefast upp.

GenerationWealth.jpgHún finnur sjálfa sig svo aftur þegar hún fer að mynda spegilmynd fátæku barnana í Mexíkó, ríku börnin í Los Angeles. Í gegnum það förum við svo að skilja af hverju hún blandar sinni eigin persónulegu sögu inní myndina. Hún er nefnilega sjálf komin úr ágætlega stæðri fjölskyldu, forríkri á heimsmælikvarða og alveg hreint ágætlega stæðri á vestrænan mælikvarða líka. Ef fjölskyldan hefði búið í Reykjavík eða Berlín eða Chicago hefði hún sjálfsagt talist til efri millistéttar. En hún bjó í uppahverfi í Kaliforníu og gekk í skóla með einhverjum ríkustu börnum veraldar. Hún sjálf var bara venjuleg, fátæk í samanburðinum. Út frá þessu áttar hún sig á því að hún vill kafa dýpra í öfundina, græðgina og misskiptinguna sem birtast í þessu öllu saman – og í gegnum myndir hennar og viðtöl við forrík börn – og svo viðtöl við þessi sömu börn á fullorðinsárum – sjáum við sturlaða en þó merkilega manneksjulega Ameríku, Amerískan draum sem hefur alltaf snúist að einhverju leyti um ríkidæmi en hefur bara á síðustu áratugum algjörlega aftengt þetta ríkidæmi öðrum gömlum gildum sem áður voru forsenda þessa ríkidæmis (altént í teoríunni), svo sem vinnusemi, hæfileikum og hugvitsemi. Núna eru hins vegar peningar gildi í sjálfu sér og það sést hvergi betur en í börnunum sem eiga mest af þeim án þess að hafa unnið handtak á ævinni.

Sjálf líður myndin þó eiginlega fyrir vinnusemi leikstýrunnar. Ég man ekki hvað hún tók marga klukkutíma af efni en hún deildi því með okkur eftir sýningu að það hefði tekið 30 mánuði að klippa myndina. En það hefði þurft að taka nokkra mánuði í viðbót – þetta er heillandi mynd en maður týnist í henni, hún reynir að segja of margar líkar sögur á sama tíma, framan af fylgir maður henni en svo fer maður að týnast. En hver veit, kannski er þetta bara byrjunin – þetta er líklega efni í sjónvarsseríu líka – og er nú þegar líka orðin ljósmyndabók.

Pistillinn birtist upphaflega hér: Skipulögð hjónabönd, hjólastólakómedía og pólitískar rokkstjörnur – Menningarsmygl

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR