Tómas Lemarquis fer með eitt aðalhlutverkanna í „Touch Me Not“ sem hlaut Gullbjörninn á Berlinale 

Tómas Lemarquis og Adina Pintile leikstjóri Touch Me Not með Gullbjörninn (Mynd af Instagram síðu Tómasar).

Tómas Lemarquis fer með aðalhlutverkið í rúmensku kvikmyndinni Touch Me Not, sem vakið hefur mikla athygli á Berlínarhátíðinni og hlaut í gærkvöldi Gullbjörninn sem besta myndin. Hulda Rós Guðnadóttir kvikmyndagerðarkona ræddi við hann fyrir Fréttablaðið og birtist viðtalið á laugardag, rétt áður en úrslit lágu fyrir.

Hér er sýnishorn úr myndinni en á eftir kemur brot úr viðtalinu:

Úr viðtalinu:

Myndin er spunaverk sem unnin er milli leikstjóra og ‘leikara’ þar sem verið er að skoða nánd og ást, bæði líkamlega og andlega, kynferðislega og ókynferðislega. Myndin er í sjálfu sér einskonar meðferð eða sálgreining sem áhorfendur dragast inn í. „Það var ekki neitt handrit heldur einungis lauslegur rammi sem við vorum að vinna með“, segir Tómas. En í upphafi Touch Me Not talar leikstjórinn beint til áhorfenda eða til persónanna fyrir framan myndavélina og spyr sig af hverju hún sé að gera þessa rannsókn. Þannig er áhorfendum gert ljóst strax í upphafi að gerð myndarinnar er rannsóknarferli.

Kvikmyndahátíðin stendur yfir í rúmlega viku og í undanfara að frumsýningunni fékk blaðamaður að hanga nokkrum sinnum með Tómasi og meðleikurum og taka púlsinn á hvernig þeim leið við gerð myndarinnar. “Það er alveg ótrúlegt hvað Adina náði fram í okkur“, segir Tómas. “Hún er svo sterk og kraftmikil kona og skapaði mikið traust sem gerði myndgerðina mögulega. Leikararnir voru í raun að hoppa út í hyldýpi. Við vissum ekkert hvað myndi gerast eða hvernig þetta myndi enda. Það var kafað ofan í okkar eigin áföll og skaðleg atvik og unnið með það. Þetta gerir myndina mjög sanna.“, segir Tómas og heldur áfram “Það er mjög erfitt að fara út í svona mikla hreinskilna sjálfsskoðun og gerð myndarinnar hafði umbreytandi áhrif á mig. Ég fylltist oft efa í ferlinu en það sem hjálpaði mér heilmikið var að skyggn vinkona mín hafði séð þetta allt fyrir. Hún hafði í raun sagt mér frá því að ég væri að fara að gera þessa mynd áður en ég fékk fyrirspurn. Hún sá þetta allt fyrir. Að þetta myndi ganga vel og verða mikilvæg mynd fyrir mig.“

Myndatakan rammi fyrir frelsi

Á blaðamannafundi talar aðalleikonan Laura um að þau hafi ekki verið leikarar heldur eins konar dyr fyrir leikstjórann. einasti rammi myndarinnar er mjög vandlega samansettur.

Ekkert má finna að lýsingu, myndbyggingu, formi, litavali og tónum eða fókuslengdum. Hugsað er fyrir öllu. Myndatakatakan verður þannig rammi fyrir frelsið í myndinni. Hún er gott dæmi um að til þess að skapa nánd þarf myndavélin ekki að vera sífellt á hreyfingu eða ofan í aðalpersónunum. . Kynórar, kynhneigð og samband móður og barns eru fyrirbæri sem öll fá sitt pláss. Nándin kemur með nálgun leikstjórans og með því hversu mikið leikararnir gefa af sér. Nándin kemur líka vegna þess að áhorfandi fær fljótt á tilfinninguna að allt kvikmyndateymið sé í þessu saman og mörkin milli þess hver sé fyrir aftan eða framan myndavélina hverfa.

Það má segja að hægt sé að spegla sig í öllum kvikmyndum og myndlist en þessi mynd gengur enn lengra. Hér er ekki verið að bera á borð sögu með afgerandi niðurstöðu leikstjóra sem oft á tíðum kallar fram óraunsæjar væntingar eða óánægju eða ánægju með sjálfan sig. Hér er tekist á við sjálfan sig af ósérhlífnri hreinskilni. Adina leikur sér að því markvisst að afbyggja goðsöguna um ástina og nándina um leið og hún afbyggir myndavélina sjálfa. Undir lokinn fáum við bókstaflega að fylgjast með þegar myndavélin er tekin í sundur og skjár sem leikstjórinn hefur falið sig bakvið er tekinn niður.

Sumt er satt, sumt er logið

Nokkrum dögum áður höfðu blaðamaður og Tómas farið saman í bíó og horft á mynd um kvikmyndastjörnuna Romy Schneider. Romy hafði á sinni stuttu ævi þurft að berjast við það að sífellt hafði verið varpað á hana ímynd úr hlutverki sem hún leik í þegar hún var 15 ára. Myndin segir frá viðtali þar sem hún gerir tilraun til að koma blaðamanni fyrir sjónir að hún sé ekki þessi 15 ára stelpa heldur 42 ára óhamingjusöm og drukkin kona. Þó svo líf Tómasar hafi ekki verið harmleikur eins og líf Romy þá hefur hann þurft að eiga við svipaða hluti. Hann varð þekktur út um allan heim fyrir hlutverk Nóa Albínóa. “Í mörg ár var verið að varpa ímynd Nóa á mig. Fólk ruglaði okkur oft saman“, segir Tómas. Síðan þá hefur Tómas leikið mörg hlutverk í mjög vinsælum kvikmyndum og aðallega leikið skúrka.

“Þetta er náttúrulega ofboðslega óskýr mörk þarna. Þegar við byrjuðum að fara í þetta ferli þá var ég karakter sem hét Tutor sem ég var að fara að leika en þegar ég var að koma út úr myndinni þá hét ég Tómas í myndinni. Auðvitað eru þetta aðstæður sem voru búnar til, sem ég er að leika eða ég hélt ég væri að fara að leika. En þegar upp er staðið er mikið af sannleika í þessu. Hlutir sem komu upp úr undirmeðvitundinni. Ég var búin að vera í mikilli sjálfsvinnu fyrir þetta ferli þannig að mér var það ekkert ókunnugt. Mjög mikið var tekið upp og það sem var erfiðast er ekki endilega, þegar upp er staðið, í myndinni. Sumt er satt, sumt er logið. Þetta er svona á óskýru svæði. Það er það sem er svo sterkt við þessa mynd að það er þarna eitthvað sem er satt. Þó hlutir séu ýktir og hvort þetta séu akkúrat málin sem hver og einn er að fást við nákvæmlega skiptir ekki máli.“ Tómas heldur áfram og útskýrir að persónurnar séu svona blanda, þau sjálf en samt ekki þau sjálf. Þetta sé líka spurning hvað sé þau sjálf. Hann sé ekki sami einstaklingurinn í dag og sá sem hann var þegar byrjað var að gera þessa mynd. “Hvað er það sem við höldum að sé ég?“, heldur Tómas áfram.

Sjá nánar hér: Fréttablaðið – Erfið og hreinskilin sjálfsskoðun

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR