spot_imgspot_img

[Stikla] Tómas Lemarquis ræðir hlutverk sitt í Netflix spennuseríunni GONE FOR GOOD

Netflix frumsýnd á föstudag nýja franska spennuseríu, Gone for Good. Tómas Lemarquis fer með stór hlutverk í þáttunum. RÚV ræddi við hann af þessu tilefni.

Segir á vef RÚV:

Stórleikarinn Tómas Lemarquis bætti á sig tíu kílóum fyrir hlutverk sitt í Netflix-þáttunum Gone For Good sem frumsýndir voru á föstudag. Vegna heimsfaraldurs voru leikarar að miklu leyti einangraðir sem gaf Tómasi tækifæri til að kafa inn á við og kynnast sjálfum sér og karakternum. Til þess þurfti hann að leyfa sér að feta myrkar slóðir sjálfs síns.

Á föstudag var frumsýnd á streymisveitunni Netflix ný frönsk þáttasería sem nefnist Gone For Good. Þættirnir byggja á bók eftir metsöluhöfundinn Harlan Coben en íslensk-franski stórleikarinn Tómas Lemarquis fer með stórt hlutverk í þáttunum. Bókin gerist í New Jersey en í þáttunum er sagan færð til Frakklands. Þáttunum er leikstýrt af spænsk-franska leikstjóranum Juan Carlos Medina en þeir Tómas hafa áður unnið saman í spennutryllingnum Painless sem tekin var upp á Spáni og gerist í Barselóna. „Það var gaman að geta unnið með honum aftur,“ segir Tómas í samtali við Sumarmál á Rás 1.

Enginn myndi kaupa mjónu í slagsmálasenunum
Framleiðslan stóð frammi fyrir miklum áskorunum í heimsfaraldri enda þættirnir teknir upp í Nice í Frakklandi þar sem smit eru og hafa verið útbreidd. „Þetta voru sérstakar aðstæður,“ viðurkennir Tómas. Hann leikur í fjölmörgum bardagasenum í þáttunum og þurfti að styrkja sig mikið fyrir hlutverkið. „Ég bætti á mig tíu kílóum af vöðvum fyrir hlutverkið og gat ekki farið í gymmið svo það var aðeins snúið,“ segir Tómas sem var fljótur að bæta á sig. Hann er vegan og tók inn plöntuprótein og hafði meðferðis utan ketilbjöllu og stöng fyrir upphífingar sem Jón Viðar Arnþórsson hjá Mjölni útvegaði honum. „Karakterinn minn hefur verið í frönsku útlendingahersveitinni svo það varð að vera trúverðugt,“ segir Tómas. „Það eru slagsmálasenur og maður myndi ekkert kaupa að það væri einhver mjóna.“ Hann kveðst þó fljótur líka að detta í gamla formið. „Ég er eiginlega orðinn þannig aftur. Þetta er fljótt að koma og fljótt að fara,“ segir hann.

Gaman að leika á frönsku
Sjálfur er Tómas frönskumælandi og þykir gaman að leika á öðru tungumáli en íslensku. „Maður er svolítið annar karakter þegar maður skiptir um tungumál,“ segir hann. Tómas var áður búsettur í Berlín svo hann talar líka þýsku og hefur leikið á henni, auk ensku og dönsku. Leiklist nam hann hins vegar í París, er með umboðsmann í Frakklandi og hefur sterk tengsl við landið. „En ég hef ekki fengið mikið af verkefnum þar. Ég lék í einni mynd í fullri lengd árið 2005 en þá var ég látinn vera með hreim,“ segir hann. „Ég lék í stuttmynd með Kevin Costner sem var tekin upp í París, en þá lék ég á ensku. Þetta er svona fyrsta hlutverkið sem fær athygli þar sem ég leik á frönsku.“

Munaði mjóu að smit breiddust út á setti
Á tökustað Gone For Good voru aðstandendur allir með grímu og fólk var í sífelldu sent í sýnatökur. Samt munaði minnstu að smit dreifði sér. „Ein sena var á klúbbi þar sem við vorum öll þétt og svo voru aukaleikarar, fimm, sem var kippt út á síðustu stundu,“ rifjar hann upp. „Einhvern veginn blessaðist þetta allt á undraverðan hátt en það er líka þessi mikla einangrun.“ Henni fylgdu samkvæmt Tómasi sannarlega áskoranir því hann var mikið einn og út af fyrir sig. „Þegar maður er að fara í tökur á stað þar sem maður er ekki heima hjá sér þá er mikið félagslíf og fólk eyðir tíma saman og kynnist betur,“ segir hann. En það var sannarlega ekki uppi á teningnum í þetta skiptið. „Þarna var ég alveg einangraður í reyndar stórkostlegri íbúð, ég hef aldrei verið í eins frábærri íbúð.“

Hefur aldrei getað horft á box eða MMA
Á íbúðinni sem honum var úthlutað voru risasvalir með útsýni yfir hafið og við hliðina á henni var villa Seans Connery leikara. „Þetta var svona eitthvað ævintýra,“ segir Tómas. Hann var með nettengingu og gat blessunarlega talað við vini og fjölskyldu, en það reyndi á að vera svo mikið einsamall.

Hann notaði tímann meðal annars til að horfa á bardagaíþróttir, til að setja sig í spor karaktersins. „Ég hef aldrei getað horft á box eða MMA því ég fæ líkamlegar kvalir við að sjá bara tvær sekúndur af því. En þarna setti ég mig út í þetta og horfði á fullt af bardögum til að kafa inn í þetta myrkur.“

Horfði líka á það sem erfitt er að sætta sig við
Myrkrið sem hann kafaði í var fylgifiskur þess að vera einn og að kynnast karakternum sem hann lék. „Það var áhugvert en líka óþægilegt því maður fer að kafa inn í skugga af sjálfum sér og hugsa um alls konar hluti í sjálfsskoðun,“ segir hann. En hann var þó ekki bara að kynnast sjálfum sér heldur líka persónunni sem hann túlkar í þáttum. „Maður er ekki alveg maður sjálfur heldur líka einhver annar á þessum tíma.“

Hann segir all bera bæði myrkur og ljós innra með sér. „Ýmsa hluti þorum við ekki að kafa í og við afneitum, en einhvers staðar eru þeir þegar maður fer í einhvern brunn sem er í manni sjálfum, þótt það sé óþægilegt líka og hlutir sem maður vill ekki sætta sig við að hafa í sér.“

Þetta segir Tómas að sé mikilvægt fyrir þroska mannsins: „Að afneita ekki heldur horfast í augu við myrkrið. Þá getur maður leyst það upp og það hættir að hafa stjórn á manni.“

Þröstur Leó er alltaf platpabbi Tómasar
Tómas er nýkominn í bæinn eftir ánægjulega daga á Þingeyri þar sem hann lék í mynd sem heitir Ferð með mömmu ásamt Þresti Leó Gunnarssyni og Kristbjörgu Kjeld. Þresti hafði Tómas áður unnið náið með í kvikmyndinni Nóa Albinóa. „Ég hafði ekki komið þangað í tuttugu ár, síðan ég lék í Nóa með Þresti. Það var voða gaman að koma þangað aftur,“ segir hann.

Tómas lýsir Þresti sem stórkostlegum leikara sem alltaf sé gaman að leika með. „Hann er svona platpabbi minn,“ segir Tómas um Þröst, sem er góður vinur hans. „Galdrarnir við þetta starf eru þessi tengsl sem maður getur myndað svo hratt af því að allt í einu hefur maður ekki tíma til að hitta fólk fyrir fram, en svo gengur maður stundum og þá er bara: Aksjón, hann er pabbi þinn,“ segir Tómas sposkur.

Fram undan hjá Tómasi er að sitja í dómnefnd á kvikmyndahátíð í Brussel í byrjun september og í lok næsta mánaðar mun hann leika í hlutverk í nýrri kvikmynd á Möltu.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR