spot_img

RÚV Menning um “Síðustu áminninguna”: Síðasta – og kannski eina áminningin

„Það eru ekki margar íslenskar myndir eins og Síðasta áminningin og vafalaust mættu þær vera miklu, miklu fleiri,“ segir kvikmyndagagnrýnandinn Nína Richter um nýja heimildarmynd eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson og Guðmund Björn Þorbjörnsson.

Myndin var sýnd í Bíó Paradís fyrr í mánuðinum og á RÚV þann 17. júní s.l. Hana má skoða í spilara RÚV til 17. júlí næstkomandi.

Nína segir ennfremur:

Við getum í upphafi gefið okkur að þessir kvikmyndagerðarmenn séu að fara að setja spurningarmerki við allar hugmyndir um meðfædda yfirburði. Þannig verður framsetningin á fyrirbærinu strax gáskafull og forvitnileg. Einnig vitum við að myndin er unnin undir tímapressu og verður því skemmtileg en skrýtin blanda af sjónlistaverki, íþróttaskýringu, dægurmálaþætti og sálgreiningu á þjóðarsálinni. Þessi mynd hefur svo margt að segja og líklega hefði allur boðskapurinn rúmast betur inni í þáttaröð. En eðli málsins samkvæmt er það ekki hægt.

Myndin kynnir viðmælendur til sögunnar sem birtast einn af öðrum og leiða áhorfendur nokkuð stefnulaust í gegnum myndina. Þar á meðal eru landsliðsmennirnir Birkir Már Sævarsson, Jón Daði Böðvarsson og Theódór Elmar Bjarnason. Þeir tjá sig á opinskáan og einlægan hátt um ferilinn og þann stað sem þeir eru á í dag, opnir og fullir af tilfinningum. Að vissu leyti kallast þetta á við tískubylgju í kvikmyndagerð þar sem karlmennskufyrirbærið er krufið og krísuvætt. Þetta er vel heppnað og fer aldrei út í tilfinningaklám.

Þá koma til sögunnar viðmælendur úr öðrum áttum þjóðfélagsins, meðal þeirra eru Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur og Jón Kalman Stefánsson rithöfundur, og er innsýn Jóns Kalmans í þjóðarsálina ótrúlega skýr og sannfærandi. Hann hefði mátt tala í klukkustund í viðbót.

Ferskur andblær

Í þriðja þætti myndar kveður svo við annan tón og engu líkara en að þeir Guðmundur Björn og Hafsteinn Gunnar hafi ákveðið að snúast á sveif með stemningunni og nokkuð dregur úr gagnrýninni og birta færist yfir frásögnina. Kannski verðum við bara heimsmeistarar? Undirrituð fær óþægindahnút í magann, ekki viss um að íslenska þjóðin hafi gott af því.

Það eru ekki margar íslenskar myndir eins og Síðasta áminningin og vafalaust mættu þær vera miklu, miklu fleiri. Myndir sem svara ekki spurningum. Síðasta áminningin er langt frá því að vera hnökralaus en hún er fantagóð afþreying og fyllir vel út í þann klukkutíma sem hún leggur undir sig. Tónlistin í myndinni er afbragðs vel unnin og úthugsuð og tæknileg vinnsla til fyrirmyndar. Myndin er falleg fyrir augu og eyru og nær á löngum sprettum að vera listaverk þó að hún sé að forminu til heimildarmynd, unnin á skömmum tíma.

Sjá nánar hér: Síðasta – og kannski eina áminningin

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR