Heimildamyndin „Síðasta áminningin“ frumsýnd 12. júní

Heimildamyndin Síðasta áminningin eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson og Guðmund Björn Þorbjörnsson verður frumsýnd í Bíó Paradís þriðjudaginn 12. júní. Í myndinni er sjálfsmynd og hugarfar Íslendinga skoðað út frá sögu íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og rætt er við þrjá leikmenn liðsins og aðra þjóðþekkta einstaklinga.

Myndin ber undirtitilinn Sálmur um böl og blessun þjóðar í þúsund ár og í lýsingu segir:

Ísland er langminnsta þjóðin sem kemur liði inn á Heimsmeistaramótið í fótbolta og hefur saga íslenska landsliðsins vakið heimsathygli. En getur verið, að krafturinn sem hefur gert þessa drengi að kraftaverkamönnum, sé sá sami og hefur orðið Íslendingum að fótakefli í gegnum aldirnar? Og getur verið, að trú landsmanna á eigið ágæti sé reist á veikum grunni, en sé um leið þeirra sterkasta vopn? Hvað geta leikmenn íslenska landsliðsins, og aðrir þjóðþekktir viðmælendur, sagt okkur um litla þjóð sem virðist þrá að heimurinn taki eftir sér?

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson leikstýrði síðast verðlaunamyndinni Undir trénu sem kom út á síðasta ári en Guðmundur Björn Þorbjörnsson er höfundur þáttanna Markmannshanskarnir hans Albert Camus sem voru á dagskrá RÚV síðastliðið haust og vöktu mikla athygli, en í þáttunum var fjallað um íþróttir með nýstárlegum hætti. Síðasta áminningin er framleidd af Sindra Páli Kjartanssyni og Sigurjóni Sighvatssyni í samvinnu við RÚV. Hún hefur nú þegar verið seld til norsku og dönsku ríkisstöðvanna.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR