Heim Gagnrýni Fréttablaðið um "Kona fer í stríð": Rambó skellir sér í skautbúning

Fréttablaðið um „Kona fer í stríð“: Rambó skellir sér í skautbúning

-

Frá tökum á Kona fer í stríð: Halldóra Geirharðsdóttir og Bergsteinn Björgúlfsson tökumaður.

„Ofboðslega falleg kvikmynd þar sem heillandi myndmál, frábær leikur, falleg saga, meitlað handrit og mergjuð notkun tónlistar renna saman í náttúruafl,“ segir Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðinu um Kona fer í stríð Benedikts Erlingssonar.

Þórarinn segir meðal annars:

Benedikt Erlingsson er einhvers konar alhliða séní þegar kemur að sviðslistum og kvikmyndum. Hann sýndi vald sitt á kvikmyndinni með Hross í oss og Kona fer í stríð er þéttur blómvöndur í hnappagat hans.

Handritið er vitaskuld alltaf frumforsenda góðrar bíómyndar og handrit hans og Ólafs Egilssonar er listaverk í sjálfu sér. Sérlega vel pælt og svo vel slípað að frekar einföld sagan springur út í risastóra sögu sem snertir okkur öll.

Kvikmyndataka Bergsteins Björgúlfssonar er mögnuð, eins og við var að búast og myndmálið allt svo fallegt og merkingarþrungið að mann sundlar á köflum. Tónlistin er dásamleg og fléttað saman við söguna af ákveðnu hugrekki en um leið hugkvæmni þannig að hún verður beinlínis virkur þátttakandi í sögunni. Plássfrek og skemmtileg persóna.

Og ennfremur:

Halldóra Geirharðsdóttir er frábær leikkona en sennilega er hún að toppa sjálfa sig í myndinni sem þegar upp er staðið hvílir fyrst og fremst á herðum hennar. Hún dansar fimlega allan tilfinningaskalann. Er í senn harmræn, fyndin, grimm, sterk, veik og hlý. Halla er sem sagt í meðförum hennar algerlega ekta persóna. Margbrotin manneskja eins og við erum öll.

Og loks:

Saga Höllu er alvarleg, átakanleg á köflum, en húmorinn er aldrei langt undan þótt hann sé lágstemmdur. Og þótt konan sé í stríði þá er enginn djöfulgangur þar á ferðinni.

Breytir því þó ekki að þegar Fjallkonan er hundelt af lögreglu, þyrlum og drónum úti í náttúrunni þá reikar hugurinn aftur til uppgjafahermannsins Rambó í First Blood 1982.

Berskjölduð á berangri notar Halla náttúruna bæði sem vopn og skjól. Alveg sérstaklega skemmtilegur og spennandi kafli. Samt eins og myndin öll laus við tilgerð, stæla og oflæti.

Sjáið þessa mynd, látið heillast og fellið nokkur tár. Ef Kona sem fer í stríð hreyfir ekki við ykkur mæli ég með að þið pantið tíma hjá Lækna-Tómasi og biðjið hann um að finna í ykkur hjartað.

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ásgrímur Sverrisson.

NÝJUSTU FÆRSLUR

AGNES JOY framlag Íslands til Óskarsverðlauna

Kvikmyndin Agnes Joy verður framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2021. Myndin var valin af dómnefnd Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, en í henni í sátu fulltrúar helstu fagfélaga íslenska kvikmyndaiðnaðarins, auk fulltrúa kvikmyndahúsa, gagnrýnenda og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Framsókn vill hækka endurgreiðslur í 35% og tífalda veltu

Stór tæki­færi fel­ast í því að styðja enn frek­ar við kvik­mynda­gerð í land­inu og hækka end­ur­greiðslur af fram­leiðslu­kostnaði í 35% líkt og gert er í lönd­um sem keppa við Ísland um verk­efni, segir Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sam­gönguráðherra og formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Íslendingar að verða undir í samkeppni um þjónustuverkefni

Leifur B. Dagfinnsson hjá Truenorth segir í viðtali við Fréttablaðið að mörg stór verkefni hafi runnið Íslandi úr greipum undanfarið og að stjórnvöld hafi ekki gert nauðsynlegar breytingar til þess að tryggja samkeppnishæfni landsins. Íslendingar séu að verða undir í alþjóðlegri samkeppni um stór kvikmyndaverkefni út af lágri endurgreiðslu íslenskra stjórnvalda til kvikmyndaframleiðenda.

Wonder Woman, Ísland og framtíðin

Warner Bros. hefur tilkynnt að Wonder Woman 1984 verði frumsýnd samtímis í kvikmyndahúsum og á streymisveitu þeirra, HBO Max, þann 25. desember næstkomandi. Þetta eru enn ein tímamótin í sögu kvikmyndanna sem heimsfaraldurinn hefur ýtt undir. Hvað gæti þetta þýtt fyrir íslenskar kvikmyndir?