„Söngur Kanemu“ vinnur tvöfalt á Skjaldborg

Frá vinstri: Harry Mashinkila, Erna Kanema Mashinkila, Auður Makaya Mashinkila og Anna Þóra Steinþórsdóttir leikstjóri Söngs Kanemu. (Mynd: Atli Már Hafsteinsson).

Söngur Kanemu eftir Önnu Þóru Steinþórsdóttur vann hug og hjörtu bæði dómnefndar og áhorfenda á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði sem lauk í gærkvöldi.

Myndin segir af dóttur kvikmyndarstjórans, ungri söngelskri stúlku, Ernu Kanemu, sem fer ásamt fjölskyldu sinni til heimalands föðurs síns, Zambíu og kynnist þar föðurættinni og ríkulegum tónlistararfi landsins.

Dómnefndin, sem samanstóð af Ragnari Bragasyni, Elísabetu Indru Ragnarsdóttur og Yrsu Roca Fannberg, hafði eftirfarandi að segja um verðlaunamyndina:

“Myndin hefur ríkt erindi við samtíma sinn, miðlar mikilvægum lífsgildum og fangar litróf þjóðarinnar. Sagan er sögð af mikilli hlýju og næmi, full af gleði og hjarta.”

Rjómi eftir Freyju Kristinsdóttur hlaut hvatningarverðlaun dómnefndar. Myndin fjallar um fimm ára þrotlausa baráttu manns við að fá leyfi til að flytja hundinn sinn frá Noregi til Íslands.

Dómnefndin hafði þetta að segja um myndina:

“Klassísk saga af óréttlæti sem kemur þó sífellt á óvart og heldur manni föngnum frá upphafi til enda.”

Skýrsla um hátíðina mun birtast á Klapptré innan skamms.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR