Börkur Sigþórsson um „Varg“: Mynd sem svarar ekki nokkrum sköpuðum hlut

Börkur Sigþórsson leikstjóri og Bergsteinn Björgúlfsson tökumaður við tökur á Vargi (Mynd: Aðsend).

Börkur Sigþórsson ræðir við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1. „Kvikmyndagerðarmenn eins og aðrir skapandi listamenn eiga að velta upp spurningum og helst áleitnum spurningum en ekki vera að sjá fyrir svörum,“ segir hann meðal annars.

Í viðtalinu segir meðal annars:

Börkur ætlaði sér alltaf að verða kvikmyndaleikstjóri og hafði velt fyrir sér ýmsum nálgunum við myndmiðla. „Ég byrjaði snemma að taka ljósmyndir, ég var í gagnfræðaskóla þegar ég var farinn að loka mig inn i myrkrakompu og það þróaðist mjög jafnt og þétt yfir í leikstjórnarmetnað,“ segir hann. Hann segist hafa valið klassíska leið sem sé þó mögulega ekki jafn algeng í dag, en hann fór úr ljósmyndun yfir í gerð tónlistarmyndbanda, þaðan yfir í auglýsingagerð og í framhaldinu í leikið efni. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á hinu gróteska að einhverju leyti og það er sennilega farið að brjótast úr í því hvernig ég skrifa sögur og nálgast myndefni,“ segir Börkur. „En hvernig ég almennt nálgast kvikmyndaformið, það er mjög litað af því hvað ég hugsa myndrænt.“

Langar þagnir og lausir endar

Nýjasta mynd Barkar einkennist nokkuð af löngum þögnum og lausum endum en aðspurður segist hann vera að tileinka sér þá reglu kvikmyndagerðarmannsins að sýna en ekki segja. „Ég reyni alltaf að setja sjálfan mig í hlutverk áhorfandans, sem leikstjóri,“ segir Börkur. „Maður getur endalaust reynt að höfða til fólks en þú getur í rauninni alltaf bara reynt að höfða til þín sem áhorfanda.“ Hann segist sjálfur vilja geta greint þær kvikmyndir sem hann horfir á og geta setið og rýnt þær sjálfur án þess að öllum spurningum sé svarað. „Ég vil ekkert að kvikmyndagerðarmaðurinn sé að troða sínum ásetningi fremst í myndina og skilji ekki eftir neitt rými til túlkunar,“ segir hann. „Út af því að túlkun mín er mér meira virði heldur en ásetningur listamannsins. Mér finnst þetta eiga við um alla list.

Að afhjúpa sig í atburðarásinni

Í því ljósi er Börkur lítið hrifinn af þeirri hefð sem skapast hefur á kvikmyndahátíðum og frumsýningum víða, að hafa Q and A. Þar er átt við stefnumót áhorfenda við leikstjóra að mynd lokinni, þar sem boðið er upp á spurningar úr sal, „þar sem að þú ert rétt nýbúinn að sjá síðustu ramma myndarinnar sem voru að klárast og áður en þú veist af er búið að draga leikstjórann upp á svið og hann á að fara að segja þér hvað hann var að meina.“ Hann segir sína eftirlætis mynd, sem komið hefur út á síðustu árum, vera mynd leikstjórans Steve McQueen, Shame. Hann lýsir henni sem mynd sem fer mjög sálrænt djúpt í persónurnar en segir áhorfandanum ekkert um forsögu þeirra. „Ég hef oft slengt henni fram þegar ég er spurður um hve mikið þarf að segja og ég nota hana sem dæmi af því að hún gengur mjög langt í þessu,“ segir hann. „En fyrir vikið verður myndin um svo margt fleira heldur en hún virðist vera um á yfirborðinu. Og þar er metnaður minn, sem kvikmyndagerðarmanns. Sérstaklega þegar maður er að vinna með genre, eins og glæpasögur.“ Hann bætir því við að myndin þurfi að fjalla um fleira heldur en hún virðist gera á yfirborðinu. „Eða segist vera um.“ Börkur segir að þess vegna þyki honum áhugavert að búa til sögu eins og Vargur er, sem sé naum og gerist á knöppum tíma og þar sem sögupersónur afhjúpa sig í atburðarásinni. „Við eyðum engum tíma í að leggja persónurnar upp eða segja að þessi manneskja sé svona eða hinsegin,“ segir hann.

Samtöl fyrir þriðja aðila

Hann bætir við að í daglegu lífi sé fólk stöðugt að lesa í hvert annað. „Hvernig þessi manneskja gerir hlutina svona eða hinsegin, […] þannig finnst mér að kvikmyndir eigi að vera. Manneskjan í raunveruleikanum er aldrei að útskýra sjálfa sig.“ Hann segir að íslenskir handritshöfundar eigi til að skrifa samtöl fyrir þriðja aðila. „Þannig að ef ég og þú sitjum á kaffihúsi og tölum saman þá gengur allt samtalið út á að upplýsa þriðja aðilann um hvert samband okkar er, og það lekur eitthvað gervi af því“. Börkur bætir við að þetta sé það fyrsta sem þurfi að strípa af í samskiptum persóna í kvimyndum. „Og því meira sem þú getur tekið af því, þeim mun betra. Þögnin segir oft miklu meira heldur en orðin og þannig reyni ég að segja sögur.“

„Kvikmyndagerðarmenn eins og aðrir skapandi listamenn eiga að velta upp spurningum og helst áleitnum spurningum en ekki vera að sjá fyrir svörum,“ bætir hann við. „Það finnst mér þessi mynd snúast um, hún snýst um mínar vangaveltur og pælingar en hún svarar ekki nokkrum sköpuðum hlut.“

Sjá nánar hér: Mynd sem svarar ekki nokkrum sköpuðum hlut

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR