spot_img

Morgunblaðið um “Varg”: Vindöld, vargöld

“Fléttan er vel heppnuð og gengur upp,” segir Brynja Hjálmsdóttir meðal annars um Varg Barkar Sigþórssonar í Morgunblaðinu og gefur henni þrjár og hálfa stjörnu.

Í umsögn segir meðal annars:

Vargur er hefðbundin spennumynd en það er samt brugðið út af formúlunni með ýmsum hætti. Í byrjun myndar er brugðið á leik með frásagnaraðferð, áhorfandi veit eiginlega ekkert hvaðan á sig stendur veðrið og fær á tilfinninguna að hann hafi misst af einhverju. Hægt og bítandi verða aðstæður skýrari, ólíkum tímalínum er púslað saman þannig að heildarmyndin birtist loks. Svona tilraunir geta verið áhættusamar en þetta er skemmtilega gert og skapar spennu.

Önnur og stærri áhætta sem Börkur tekur er að skrifa mynd sem hefur enga aðalpersónu sem áhorfendur hafa samkennd með. Bæði Atli og Erik eru skúrkar, þótt það komi á daginn að Atli sé illskárri. Þeir teljast báðir vera vondir karlar, Erik er algjörlega siðblindur og Atli er aumur glæpon sem hefur vanrækt son sinn og allar sínar skyldur og á sér því engar málsbætur þótt hann sé ekki alveg jafn siðblindur og Erik. Tilfellið er að þeir eru ekki bara ábyrgir fyrir smá dópsmygli, þetta er spurning um líf og dauða þar sem þeir hafa líf burðardýrsins Zofiu í höndum sér. Zofia er brjóstumkennanlegasta persónan í myndinni en hún er ekki aðalpersónan.

Það er vel þekkt að aðalpersónur séu breyskar og gallaðar, jafnvel vondar, og teljast þá vera einhverskonar andhetjur. Það er þó óvenjulegt að svo langt sé gengið í því að einblína á sögu tveggja persóna sem er ómögulegt að „halda með“. Á furðulegan hátt gengur þetta samt nokkurn veginn upp í samhengi myndarinnar af því að myndin fjallar um að veröldin sé grimm og ósanngjörn. Titillinn er vísun í 45. erindi Völuspár sem lýsir ragnarökum, þar sem kemur fram að: „Bræður munu berjast / og að bönum verðast“ þegar það ríkir „vindöld, vargöld / áður en veröld steypist.“ Í heimi Vargs er ekkert fallegt og gott, eymdin ræður ríkjum, eftir nóttina kemur ekki nýr dagur því það er endalaus nótt í þessari kaldranalegu myrkraveröld.

Fléttan er vel heppnuð og gengur upp. Endrum og sinnum verður þráðurinn ofurlítið tilviljanakenndur, sérstaklega í tilfelli lögreglukonunnar Lenu, sem er stundum einstaklega heppin þegar hún hnýtur um vísbendingar. Á nokkrum stöðum í myndinni gefur líka að líta draumkenndar senur þar sem Erik er í faðmlögum við dularfulla konu, sem mér fannst eiga lítið erindi í myndina og draga spennuna niður. Að öðru leyti er spennan fremur þétt og endirinn kemur á óvart, sem hlýtur að vera æðsta markmið allra spennumynda.

Leikararnir í myndinni standa sig ágætlega en það vekur helst athygli hversu vel er valið í hlutverk. Gísli og Baltasar Breki leika bræðurna og þótt þeir séu kannski ekkert sérstaklega áþekkir passa þeir samt vel í sínar rullur, Gísli sem hvítflibbinn og Baltasar sem krimminn. Þá smellpassar Didda í hlutverk móður pörupiltanna. Anna Próchniak gerir burðardýrinu Zofiu góð skil og á líklega sterkustu frammistöðuna í myndinni. Kvikmyndataka lætur lítið fyrir sér fara og útlit mynd myndarinnar sækir innblástur í breskar og skandinavískar spennumyndir, sem hentar viðfangsefninu. Tónlist Bens Frost er reglulega fín, líkt og endranær, en hann er að gera virkilega góða hluti í kvikmyndatónlist um þessar mundir.

Vargur er mjög frambærilegur frumburður. Berki hefur hér tekist að skapa þétta og spennandi glæpamynd sem er unnin af meðvitund um hefðir greinarinnar en kemur líka á óvart.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR