Börkur Sigþórsson um „Varg“: Glæpasagan er frábær til þess að skoða samfélagið

Börkur Sigþórsson (mynd Fréttablaðið-Anton Brink).

Börkur Sigþórsson ræðir við Fréttablaðið um mynd sína Varg og segir hlutverk listamannsins vera að velta upp spurningum fremur en að predika í verkum sínum.

Í viðtalinu kemur meðal annars þetta fram:

Auk þess að vera leikstjóri að Vargi þá er Börkur einnig höfundur handritsins sem hann byrjaði að vinna að árið 2009. „Ég var að dúlla mér við þetta handrit í nokkur ár en það er í raun búið að vera tilbúið síðan 2013 en það er þolinmæðisverk að búa til kvikmynd.“

Börkur segir að Vargur fjalli um tvo bræður sem hafi farið mjög ólíkar leiðir í lífinu en eru báðir í vanda staddir fjárhagslega en af ólíkum ástæðum. „Þeir snúa bökum saman og skipuleggja innflutning á einu og hálfu kílói af kókaíni en það fer allt til fjandans. Án þess að ég vilji nú segja of mikið þá er sagan einkum um hvað gerist eftir að burðardýrið þeirra veikist og viðbrögð þeirra við þeirri stöðu sem er komin upp. Svona hvernig þeir tækla stöðuna ef svo má segja og hvernig það knýr fram og opinberar þeirra innra eðli.“

Þegar horft er til þess að Börkur byrjaði að vinna að þessari hugmynd í kjölfar efnahagshrunsins vaknar óneitanlega sú spurning hvort verkið sé samfélagslegs eðlis auk þess að vera hefðbundin spennumynd? „Já, sannarlega. Þetta kemur vissulega mikið upp úr pælingum um hrunið því það tímabil bæði var og er mér mjög hugleikið. Hvernig það blöstu við brestir í samfélaginu og íslenskri þjóðarsál? Glæpasagan er einmitt frábært form til þess að skoða samfélagslega þætti og ekki síður líka eitthvað sem snýr að manni sjálfum persónulega. Á þessum tíma þurfti ég eins og svo margir að horfast í augu við mína forgangsröðun. Spyrja mig hver minn þáttur væri í þessu öllu saman og hvernig ég væri á einhvern hátt þátttakandi og túlkandi í öllum þessum umbrotum.

Fyrir slíka rannsókn er glæpasagan frábær leið vegna þess að innan hennar getur maður ýkt hluti sem maður finnur í eigin fari og skoðað þá í öðru samhengi. Þó maður sé ekki að velta fyrir sér innflutningi á fíkniefnum þá getur maður engu að síður skoðað hvar og hvernig maður hefur stytt sér leið í gegnum tíðina. Þarf ég að horfast í augu við það? Þetta finnst mér skemmtilegt að skoða en þannig er að fást við sköpun; maður tekur allt sem maður upplifir og hrærir í einn graut. Hvort sem það eru sigrar eða áföll þá verður það manni allt að innblæstri.“

Það er mikill uppgangur í leiknu efni víða í heiminum þessa dagana og Börkur segir að það sé gaman að sjá hversu óseðjandi eftirspurn virðist vera eftir vönduðu afþreyingarefni. „Efni sem spyr spurninga og veltir upp málum sem snerta samtímann og líf okkar. Ég held að fólk vilji ekkert endalaust vera að flýja veruleikann heldur er það þessi gullna blanda á milli afþreyingar og félagslegs gildis sem svo mikil eftirspurn virðist vera eftir. Eitthvað sem snertir við fólki í raunveruleikanum en er um leið afþreying og fólk hefur gaman af því að horfa á. Þú getur farið og horft á bíómynd fyrir poppkornið en ef hún býr yfir raunverulegri dýpt þá er hún einfaldlega miklu áhugaverðari fyrir fleiri.

Þannig að ég held að kvikmyndir þurfi ekki að vera annað hvort eða. Mér finnst líka mikilvægt að það blasi ekki við einhvers konar predikun kvikmyndagerðarmannsins því starf listamannsins er að velta upp spurningum en ekki endilega að sjá þér fyrir svörum.“

Sjá nánar hér: Fréttablaðið – Glæpasagan er frábær til þess að skoða samfélagið

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR