Morgunblaðið um „Víti í Vestmannaeyjum“: Hádramatískt og fjörugt ævintýri

„Hádramatískt og fjörugt ævintýri, sem inniheldur góða blöndu af tárum, brosum og takkaskóm,“ segir Brynja Hjálmsdóttir meðal annars í Morgunblaðinu um Víti í Vestmannaeyjum Braga Þórs Hinrikssonar.

Úr umsögninni:

Sagan er skemmtileg og stígandin er góð. Fótboltasenurnar spegla þemun sem birtast í heildarmyndinni, það gengur á ýmsu á vellinum jafnt og í lífinu sjálfu. Krakkarnir verða að „tækla“ stór mál á borð við missi, þunglyndi og ofbeldi og læra að þegar upp er staðið eru vinátta og samstaða mikilvægari en sigrar og markatölur.

Víti í Vestmannaeyjum er litrík, kvikmyndatakan er flott og mikið um falleg könnunarskot í landslagi Vestmannaeyja. Tölvutæknibrellur eru ríkulega notaðar sem skilar sér í nokkrum þrælflottum atriðum en öðrum miður góðum. Eðli málsins samkvæmt er mikið af fótboltaatriðum og þau eru vel úr garði gerð, þar sem dramatískum hægmyndum er blandað við örar og æsilegar klippingar. Það má velta því fyrir sér hvort þeim sem hafa lítið vit á fótbolta kunni að leiðast þessar senur. Fæstum ætti þó að leiðast þar sem það er brugðið á ýmis ráð til að gera ariðin spennandi og aðgengileg fyrir alla, þ.ám. að láta Gunna Helga vera þul eða „íþróttafréttamann“ sem lætur gamminn geisa í orkumiklum og oft sprenghlægilegum leiklýsingum.

Ungi leikhópurinn stendur sig vel miðað við aldur og fyrri störf. Róbert er skemmtilegur í hlutverki hins orðheppna sprelligosa Skúla og Lúkas nær að gera hinum viðkvæma og réttsýna Jóni góð skil. Ísey og Viktor eru líka stórfín í sínum hlutverkum. Fullorðnu leikararnir skila líka sínu, sérstaklega er Sigurður Sigurjónsson eftirminnilegur.

Gunnar Helgason hefur látið þess getið að hann hafi skrifað bókina til að bregðast við minnkandi læsi ungra stráka. Strákar eru því vitanlega í forgrunni og það hefði auðvitað ekki verið ónýtt að sjá fleiri stelpur en þarna eru nú samt fjölbreyttar og skemmtilegar kvenpersónur og myndin er síður en svo bara strákamynd.

Það er verðugt verkefni að búa til sögur fyrir íslenska stráka sem endurspegla þeirra veruleika en það sem er jafnvel enn mikilvægara eru skilaboðin sem sagan sendir til þessa hóps. Skilaboðin felast í því að sýna fram á hversu skaðleg eitruð karlmennska (e. toxic masculinity) getur verið, jafnt innan vallar sem utan. Hópíþróttastarfsemi fyrir börn á Íslandi hefur stundum verið gagnrýnd fyrir óhóflega kappsemi og harðneskju og það er því fótboltakrökkum mikilvægt að gera sér grein fyrir að ofurkarlmennska og tilfinningakuldi getur eitrað út frá sér. Það er allt í lagi að gráta þegar manni líður illa og það er allt í lagi að leita sér hjálpar þegar maður þarf á henni að halda, hvort sem maður er barn eða fullorðinn.

Víti í Vestmanneyjum er hádramatískt og fjörugt ævintýri, sem inniheldur góða blöndu af tárum, brosum og takkaskóm, og ég tel að jafnt börn sem fullorðnir geti haft gaman af.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR