spot_img

RÚV sýnir „Mannasiði“ um páskana

Mannasiðir kallast ný íslensk sjónvarpsmynd í tveimur hlutum sem frumsýnd verður á RÚV um páskana. Myndin er samstarfsverkefni RÚV og framleiðslufyrirtækisins Glassriver, en María Reyndal leikstýrir og skrifar handrit. Sagan snýst um meint kynferðisbrot og áhrif þess á geranda, þolanda, fjölskyldur þeirra og vini.

Nítján ára menntaskólastrákur er sakaður um að gróft kynferðisbrot gagnvart bekkjarsystur sinni.  Sagan fer hratt um skólann þar sem stúlkan skrifar um meintan verknað inn á samfélagsmiðla, en hann neitar allri sök. Sagan spannar um 10 mánuði og fjallar um meint kynferðisbrot, víðtæk áhrif þess, viðbrögð fjölskyldu og samfélags. Hvaða áhrif hefur meint afbrot á gerandann, andlega og félagslega, og hvernig bregst fjölskylda hans við álaginu. Geta tvær manneskjur upplifað sama verknaðinn á gjörólíkan hátt? Hvaða áhrif hefur klámvæðingin á ungt fólk? Og hvaða áhrif hafa kynferðisbrot á vinahópa og fjölskyldur? Samtíminn kallar á nýjar leiðir og ný mörk í samskiptum kynjanna og hvað er til ráða?

Með aðalhlutverk fara Eysteinn Sigurðsson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Álfrún Laufeyjardóttir. Höfundur tónlistar er Úlfur Eldjárn en Logi Pedro á einnig nokkur frumsamin lög í myndinni.

Leikstjóri er María Reyndal, en myndin er byggð á útvarpsleikriti sem María skrifaði og leikstýrði fyrir RÚV árið 2017 og var tilnefnt til Grímuverðlauna. Leikverkið var unnið upp úr viðtölum við þolendur og gerendur kynferðisbrota og aðstandendur þeirra.

DR-Sales hefur tekið að sér kynningu og dreifingu á myndinni á alþjóðamörkuðum. Myndin verður kynnt í apríl á MIPTV í Cannes í Frakklandi, sem er stærsti alþjóðlegi vettvangurinn fyrir sölu og dreifingu á sjónvarpsefni. Aðrar hátíðir fylgja svo í kjölfarið.

María Reyndal hefur starfað jafnt í leikhúsum og sjónvarpi sem höfundur, leikstjóri og framleiðandi.  Hún hefur skrifað, leikstýrt og framleitt verk fyrir leikhús m.a. Sóley Rós ræstitækni sem vann til Grímuverðlauna í fyrra, Best í heimi sem tilnefnt var sem leikrit ársins og Beyglur með öllu sem sló í gegn og gekk fyrir fullu húsi fram á annað leikár.  María hefur einnig leikstýrt fjölda sýninga hérlendis og er meðhöfundur fjölda sjónvarpsþátta. Má þar nefna Stelpurnar, Ástríði, Rétt og Hlemmavideo, auk Áramótaskaups sjónvarpsins. María leikstýrði þremur þáttum af Borgarstjóranum og er höfundur og leikstjóri stuttmyndarinnar Yes yes.

Mannasiðir

Við hlökkum til að sýna ykkur páskamyndina í ár en hún tekur á afar viðkvæmu viðfangsefni. Við sýnum fyrri hluta á páskadag og síðari annan í páskum.

MANNASIÐIR

Posted by RÚV on 9. mars 2018

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR