Vísir um „Andið eðlilega“: Kraftur og einlægni í náttúrulegum umbúðum

Babetida Sadjo og Patrik Nökkvi Pétursson í Andið eðlilega.

„Lágstemmd og hjartnæm lítil saga sem forðast helstu klisjur og óþarft melódrama,“ segir Tómas Valgeirsson á Vísi um Andið eðlilega Ísoldar Uggadóttur og gefur henni fjórar stjörnur.

Úr umsögninni:

Nálgun Ísoldar Uggadóttur á býsna erfiðu umfjöllunarefni er markviss og ljómar af miklu öryggi, og af því að dæma hefði maður seint haldið að þetta væri hennar fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Með bæði leikstjórn og handriti heldur Ísold afbragðsvel utan um taumana og togar áhorfandann í pollrólega en áhrifaríka „óvissuferð” þar sem hann gerist fluga á vegg, eða bílrúðu.

Galdur úrvinnslunnar er að finna í trúverðugum samtölum, náttúrulegu leikarasamspili og Ísold gerir sér alveg grein fyrir því hvenær ákveðnir hlutir í handritinu virka betur og þýðingarmeiri þegar ósagðir eru. Kvikmyndataka Itu Zbroniec-Zajt sér svo um réttan tón og að sama skapi er nýting á umhverfi og sviðsmyndum hreint stórfín, sérstaklega hvernig Keflavík, flugvöllurinn og nágrenni rammar betur einangrun og tómarúm persónanna. Það er sitt og hvað af súrum tilviljunum í handritinu en þeim er sjaldan þrætt inn í handritið með of tilgerðarlegum hætti.

Andið eðlilega er, að vísu, nokkuð einföld mynd, kannski aðeins of einföld og hefði mátt fara dýpra í sum málefnin sem hún tekur fyrir, en aðall sögunnar er fyrst og fremst þessar tvær ólíku konur, sem eiga þó meira sameiginlegt en þær halda.

Kristín Þóra Haraldsdóttir er hreint frábær hér (og miðað við hvað bíður okkar í Lof mér að falla er nokkuð ljóst að þetta ár sé hennar).

Hún gæðir þrívíðum persónuleika í hina ófullkomnu en eðlilegu Láru sem reynir að halda höfðinu uppi í sinni eigin baráttu, sem er nógu erfitt þegar hún á varla efni á húsnæði.

Babetida Sadjo er ekkert síður eftirminnileg sem hin fámála en skelharða Adja, sem situr hún föst í limbói kerfisins, óviss hvort hún verði send aftur heim þar sem árásir eru yfirvofandi, eða komist á leiðarenda til sinna nánustu. Samleikur Sadjo við hinn unga Patrik Nökkva Pétursson er sérstaklega huggulegur. Reyndar ber því almennt að fagna að myndin skuli vera laus við bölvun barnleikara, enda smellur Pat­rik nokkuð áreynslulaust í (nokkuð krefjandi) hlutverk Eldars litla, sonar Láru.

Í gegnum strákinn ná konurnar að mynda ákveðin bönd og skilja hvora aðra. Ef segja má að Adja hafi lent á botninum út af starfsskyldum Láru, er sakleysi Eldars þetta lím sem tengir þær saman á ólíklegan máta. Eðlilega kann allt þetta að hljóma sárlega ýkt og væmið, en þessi mynd fellur ekki í þannig gildrur. Hér hangir allt saman á ljúfsárri einlægni og snertir við, því sálina vantar svo sannarlega ekki í verkið.

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR