Skjaldborg og Northern Wave tilnefndar til Eyrarrósarinnar

Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynd og Northern Wave International Film Festival eru báðar tilnefndar til Eyrarrósarinnar, sem er viðurkenning sem árlega er veitt framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins.

Að verðlaununum standa í sameiningu Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík. Eyrarrósinni er ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Eyrarrósinni fylgir tveggja milljón króna verðlaunafé en að auki munu tvö verkefnanna hljóta 500 þúsund króna verðlaun.

Í umsögn dómnefndar segir um hátíðarnar:

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Norðanáttin (Northern Wave), Snæfellsbæ

Northern Wave, sem fagnaði tíu ára afmæli sínu í fyrra, er eina alþjóðlega stuttmyndahátíðin á Íslandi. Hátíðin býður upp á fjölbreytt úrval alþjóðlegra stuttmynda, hreyfimynda, vídeóverka og íslenskra tónlistarmyndbanda, auk annarra viðburða eins og fiskiréttasamkeppni, fyrirlestra, vinnustofur og tónleika. Auk þess að auðga menningarlífið og kynna svæðið er markmið hátíðarinnar að vera þekkingarsmiðja og vettvangur þar sem fagfólk úr greininni miðlar af reynslu sinni til nýrra kynslóða kvikmyndagerðafólks.  http://www.northernwavefestival.com/

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildarmynda, Patreksfirði

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildarmynda er eina kvikmyndahátíðin á landinu sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildarmyndir. Allt frá árinu 2007 hefur hátíðin verið haldin um hvítasunnuhelgina ár hvert á Patreksfirði og leiðir saman reynslubolta í faginu, byrjendur og hinn almenna áhorfanda. Þannig stuðlar hátíðin í samvinnu við heimamenn að skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.  http://skjaldborg.com/

Sjá nánar hér: Eyrarrósarlistinn 2018 | Byggðastofnun

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR