DV um „Svaninn“: Ekkert léttmeti

Kristinn H. Guðnason skrifar um Svaninn eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur í DV og segir hana nokkuð hægfara dramamynd sem reyni á áhorfandann.

Úr umsögninni:

Sumir myndu segja að Svanurinn væri „artí“ mynd, með náttúruskotum og tónlist sem virðist handahófskennd er er sjálfsagt þrungin merkingu. Svanurinn sjálfur, eða álftin, birtist stúlkunni uppi á fjalli við lítið vatn og verða áhorfendur að túlka það á sinn hátt.

Svanurinn er að mestu leyti kvikmynduð í hinum íðilfagra Svarfaðardal í Eyjafirði sem er mikill kostur fyrir mynd sem leggur svo mikið upp úr myndmálinu. Annar kostur er leikur myndarinnar, þá sérstaklega hjá hinni nú þrettán ára Grímu. Það er mjög fágætt að sjá barn leika svo vel og hún á augljóslega framtíðina fyrir sér. Hinir reyndu leikarar sem túlka bændahjónin gera það líka með stakri prýði. Persónur þeirra eru bældar og meðvirkar.

Yngra fólkið er töluvert flóknari persónur og vandamálið er að þeirra fortíð er ekki útskýrð nægilega vel. Hvorki í upphafi né í lokin. Það getur verið gott fyrir áhorfandann að þurfa að geta í eyður kvikmyndar en í þetta skipti er erfitt að ná tengslum við þessar persónur og skilja ákvarðanir þeirra. Fleiri hálfkveðnar vísur eru í myndinni, til dæmis hvers vegna stúlkan var send í sveit. Í bókinni var það fyrir búðarþjófnað en hún var skrifuð á annarri öld. Börn eru almennt ekki send í sveit í dag, hvað þá í refsingarskyni.

Niðurstaða

Svanurinn er ekkert léttmeti. Þetta er nokkuð hægfara dramamynd sem reynir á áhorfandann. Erfitt er að staðsetja hana í tíma og kannski skiptir það ekki máli, frekar en nöfn persónanna. Til að byrja með virðist sagan ekki mjög frumleg, það er að persóna er sett í ókunnar aðstæður sem henni líst ekki á en sættist síðan við. En síðan tvinnast óvæntir og óútskýrðir atburðir inn í. Hafa ber í huga að myndin er frumraun leikstjórans Ásu og fleiri nýgræðinga sem unnu að gerð myndarinnar og tæknilega er hún tilkomumikil. Við eigum eftir að sjá meira af Ásu, Grímu og félögum.

Sjá nánar hér: Svanurinn: Gríma á framtíðina fyrir sér – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR