Opið fyrir umsóknir í Sprettfiskinn

Stockfish óskar eftir stuttmyndum til að keppa um Sprettfiskinn í stuttmyndakeppni hátíðarinnar sem haldin verður í Bíó Paradís dagana 1. – 11. mars 2018.

Sex íslenskar stuttmyndir eru valdar í keppnina ár hvert og er til mikils að vinna en verðlauninin er ein milljón króna úttekt hjá KUKL, einu stærsta fyrirtækinu á Íslandi sem sérhæfir sig í að lána út kvikmyndatökubúnað. Verðlaunin munu koma sér vel fyrir næstu mynd sigurvegarans hvort sem það verður suttmynd eða mynd í fullri lengd.

Árið 2017 vann myndin C-vítamín í leikstjórn Guðnýjar Rósar Þórhallsdóttur en árið 2016 var það myndin Like it’s up to you í leikstjórn Brynhildar Þórarinsdóttur. Þær myndir sem voru valdar á síðustu hátíð hafa í samvinnu við Stockfish Film Festival og Íslandsstofu verið sýndar í Bandaríkjunum og Kanada en nokkrar þeirra voru einnig sýndar á Zubroffka stuttmyndahátíðinni í Póllandi sem var samvinnuverkefni hátíðanna.

Stuttmyndirnar mega vera að hámarki 30 mínútur og ekki eldri en ársgamlar. Hátíðin gerir þá kröfu að myndirnar hafi ekki verið sýndar opinberlega á Íslandi og verði því frumsýndar á hátíðinni. Aðeins íslenskar stuttmyndir koma til greina, eða myndir sem skarta íslenskum leikstjórum eða framleiðendum. Skilafrestur er til 28. janúar.

Umsóknir skulu senda á stockfish@stockfishfestival.is með meðfylgjandi upplýsingum:

  • Nafn myndar (ef hún ber ekki enskt heiti þarf það að fylgja með)
  • Nafn leikstjóra
  • Nafn framleiðanda
  • Lengd myndar
  • Stutt synopsis (á ensku og íslensku)
  • Útgáfudagsetning
  • Hlekkur á myndina ásamt lykilorði ef þarf
  • Tengiliðaupplýsingar

Sjá nánar hér: Opið fyrir umsóknir í Sprettfiskinn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR