spot_imgspot_img

Hugrás um „Reyni sterka“: Frá ofurhetju til afbyggingar

Björn Þór Vilhjálmsson skrifar á Hugrás um heimildamyndina Reyni sterka eftir Baldvin Z. og segir hana um margt framúrskarandi, en erfitt sé að sætta sig við að uppljóstrun um að Reynir hafi verið ofbeldismaður og hugsanlega kynferðisbrotamaður sé sett innan sviga.

Björn segir meðal annars:

Afbygging myndarinnar á hetjuímynd Reynis er engu að síður afdráttarlaus. Kemur þar að innleiðslu hins yfirnáttúrulega og trúarlega í frásögnina. Talað er um að Kristur hafi birst Reyni er hann var sex ára og hafi hann uppfrá því orðið annar maður, og er gefið í skyn að til þessarar spámannsvisitasíu megi rekja óvenjulega kraftana. Á bak við þessa sögu leynist þó mikill harmleikur. Móðir Reynis var yfirgefin af manni sínum og barnsföður og börnin í framhaldi tekin af henni og send í fóstur. Lenti Reynir á sveitabæ sem er eins og klipptur út úr hryllingsmynd. Tveir bræður sáu um búreksturinn, sá „skárri“ lokkaði börn inn til sín með nammi en var aldrei kærður, það var yngri bróðirinn hins vegar, sem vitnað er um að hafi vakað yfir héraðssundlauginni eins og pervertískur vágestur. Vitað er að bræðurnir börðu Reyni en myndin getur sér jafnframt til – eða leyfir áhorfendum að geta sér til – um að Reyni hafi verið nauðgað kvöldið sem Jesú sótti hann heim. Hvor bræðrana það var er svo sem ómögulegt að vita, eða hvort aðeins annar hafi verið sekur, og sama gildir um það hvort um einangrað atvik hafi verið að ræða eða reglubundinn viðburð. Reynir var að minnsta kosti fastur á bænum fram á unglingsár. Þessi þráður er sláandi hluti af myndinni og skapar mikla samúð með viðfangsefninu, auk þess að skapa svigrúm fyrir vangaveltur um aflvaka þess og sálræðilegar rætur að drengurinn einsetur sér að verða sterkari en allir aðrir.

Umrót

Samúðin er þó ekki langlíf, eða verður í öllu falli margfalt flóknari og blandast óbragði, þegar næsta skref er tekið, en myndin gengur eins langt og mögulegt er við að gefa í skyn að Reynir hafi misnotað dóttur sína af síðara hjónabandi. Fram kemur að Reynir hafi (allavega) í síðara hjónabandi verið heimilisofbeldismaður, og að á þeim tíma hafi viðgengist mikil óregla. Dóttirin, móðir hennar (sem er nú að öðru leyti skemmt í viðtölum), frænka dótturinnar og leikstjórinn fara öll eins nálægt þessu erfiða efni og þau treysta sér til, og verður að segjast að hafi það ekki verið ætlun leikstjórans að miðla ásökun á hendur Reyni um kynferðisofbeldi gagnvart dóttur sinni þá séu þessi atriði misráðin. Sé það á hinn bóginn ætlunin, og það finnst mér vera næstum gefið, skapast annað vandamál. Eftir þennan kafla er afskaplega erfitt að snúa sér aftur að kraftaverkum Reynis eins og ekkert hafi í skorist, fleiri heimsmetum, uppfinningu hans á stálvélvirki fyrir bifreiðar, mögulegu sambandi við handanheima, og öðru slíku. Reiðarslagið sem fylgir þessari uppljóstrun er slíkt að flæði og bygging myndarinnar taka róttækum umskiptum; Reynir sterki er farin að fjalla um allt annað en hún virtist í upphafi ætla að gera. Hvörf af einhverju tagi eru auðvitað algeng í heimildarmyndum og er í mörgum tilvikum aflvaki þeirra. Þegar glímt er við veruleikann innan þessarar formgerðar er alltaf lagt út í óvissuna í einhverjum skilningi. Um þetta eru mörg fræg dæmi, það svakalegesta er ef til vill heimildamyndaserían The Jinx, sem HBO sendi frá sér árið 2015.

Það sem erfitt er að sætta sig við eða samþykkja er að hvörfin eigi sér stað og upphaflegri stefnu sé samt haldið, að hvörfin séu sett inn í sviga líkt og þau geti annað en litað allt sem á eftir kemur, og endurskilgreint allt sem á undan hefur komið. Þetta er helsti ágalli myndarinnar. Undir lokin flytur leikstjóri útgangsorð, líkt og hann var með inngang í upphafi, og þar kemur fram að ferðalagið við gerð myndarinnar hafi verið öðruvísi en hann átti von á en vilji hans standi til að saga Reynis, sem tekin hafi verið að gleymast, verði með þessu móti varðveitt. Þarna glatast síðasta tækifæri myndarinnar til að takast á við það sem fram hefur komið. Myndin er auðvitað löngu hætt að snúast um það að reisa Reyni minnisvarða, sem er þó það sem sumir viðmælendur í myndinni virðast halda að verið sé a gera.

Það að Reynir hafi verið aflraunamaður, uppfinningamaður, kvikmyndagerðarmaður, snyrtimenni, og sjálfskynningarsnillingur – og margt fleira – fellur í skuggann af því að hann hafi verið ofbeldismaður og hugsanlega brotið gegn dóttur sinni. Fram hefur komið að leikstjórinn stígur inn í myndina með persónulegri vangaveltu tvisvar en raunar gerir hann það oftar – í samskiptum við dóttur Reynis heyrist Baldvin ræða hvort hún treysti sér til að ræða um áðurnefnd atvik í æsku hennar, en hún segir það ekki eiga erindi í heimildarmynd, og að hún hafi fyrirgefið föður sínum. Í þessum kafla myndarinnar má ímynda sér leikstjórann stíga með meiri þunga inn í myndina, líkt og hann gerir í upphafi og við lok hennar, og glíma með beinum hætti við þá stefnu sem verkið hefur skyndilega tekið. Aðrar leiðir má auðvitað ímynda sér, en efni sem skapar jafn mikið umrót í frásögninni kallar á að mínu mati á djarft formrænt og efnislegt svar, og það eru það mistök að aðhafast ekkert frekar. Að öðru leyti er hér er um framúrskarandi heimildarmynd að ræða, ágallinn sem ræddur hefur verið tengist með beinum hætti því hversu margslungið og flókið viðfangsefnið er.

Sjá nánar hér: Frá ofurhetju til afbyggingar | Hugrás

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR