Hugrás um „Sumarbörn“: Að mörgu leyti afskaplega vel heppnuð

„Útkoman er forvitnileg og að mörgu leyti afskaplega vel heppnuð kvikmynd,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson kvikmyndafræðingur um Sumarbörn Guðrúnar Ragnarsdóttur á Hugrás, vefriti Háskóla Íslands.

Björn segir meðal annars í umsögn:

Það er meira en að segja það að leggjast til atlögu við þessi fortíðarmein í formi fjölskyldusögu, en Guðrún Ragnarsdóttir leggur á djúpið og útkoman er forvitnileg og að mörgu leyti afskaplega vel heppnuð kvikmynd. Ákveðið einstigi þarf að feta í frásagnarlandslagi sem þessu þar sem ill meðferð á börnum, barnaníð og almenn óhamingja eru til umfjöllunar innan ramma fjölskyldumyndar. Þetta heppnast vonum framar, um það getur átta ára sonur minn sem sá myndina með mér vitnað. Áreitni smiðsins er aðeins sýnd einu sinni, og Eydís hleypur í burtu eins og fætur toga um leið og hún verður þess áskynja að eitthvað undarlegt sé að fara að gerast. Þá er ástleysi og niðurbrjótandi stofnanlegu skilningsleysi miðlað í gegnum kalt og fjarlægt viðmót Pálínu – og það er gert án þess að persónan verði að skrípamynd. Fyrst og fremst er þessum þáttum þó miðlað í gegnum endurtekningasama rútínu barnanna: Biðröð barna bíður þess að vera tannburstuð, í röð sitja þau á bekk uppvið vegg í fótabaði meðan Pálína krýpur hjá þeim hverju á fætur öðru með naglaklippur. Brenglun vistarinnar birtist einmitt í kaldhæðnislegum smáatriðum sem þessu. Það hvernig táhirða barnanna er í brennidepli dregur athyglina að öllu hinu sem ekki er sinnt, þetta er gert fyrir börnin meðan þau eru svipt svo fjölmörgum öðrum hlutum sem eru miklu mikilvægari.

Brynhildur er frábær í hlutverki hinnar kaldlyndu og hvössu hússtýru. Mikið mæðir á börnunum sem sömuleiðis skila sínu afar vel og raunar fer myndin örlítið nýja leið hvað leik þeirra varðar, sem er natúralískari en tíðkast, og gefur það góða raun. Vel er unnið með leikmynd og náttúru í tökum, og tökustíllinn fjarri hefðbundinn á köflum. Má þar nefna skotin þegar börnin vega salt en þá fylgir tökuvélin lóðaskálalögmálinu og börnunum upp og niður. Þegar fram í dregur og sprungurnar á raunsæi söguheimsins verða meira áberandi verður útlit myndarinnar einnig djarfara. Þar heppnast ekki allt sem reynt er en nógu margt gengur upp til að lokahlutinn standi undir sér. Um er að ræða períódumynd og gaman er að sjá hversu útsjónarsamar lokatökurnar eru í Reykjavík, en í fjarveru rándýrra tölvuinngripa er fjarri því auðvelt að viðhalda tímastaðsetningu frásagnarinnar í höfuðborginni.

Sjá nánar hér: Fortíðarmein | Hugrás

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR