spot_img

Lestin á Rás 1 um „Sumarbörn“: Metnaðarfull fjölskyldumynd með ævintýrabrag

„Fyrri hluti myndarinnar er nokkuð stirður hvað varðar flæði og innlifun en hún fer hins á gott flug í seinni hlutanum og fær heildarmyndin á sig ákveðinn ævintýrabrag“, segir Gunnar Theódór Eggertsson um Sumarbörn Guðrúnar Ragnarsdóttur í Lestinni á Rás 1.

Gunnar Theódór skrifar meðal annars:

Sumarbörn segir tvöfalda sögu með því að styðjast við einfalt sjónarhorn barnsins en ýja að ýmsu umhverfis það fyrir eldri áhorfendurna, ekki síst hvað varðar skilning okkar á ferðalagi systkinanna eftir því sem líður á myndina. Með öðrum orðum vill Sumarbörn ná til tveggja ólíkra áhorfendahópa samtímis: barna og fullorðinna. Myndin styðst við töfraraunsæi og ævintýraleg stef til að túlka og kljást við þungt efni og minnir þannig á aðrar svipaðar myndir sem hafa sagt flóknar og erfiðar, stundum jafnvel hrottalegar sögur frá sjónarhóli barns sem hverfur inn í ævintýraheim til að takast á við raunveruleikann – mér detta t.d. Í hug Tideland eftir Terry Gilliam eða Pan’s Labyrinth eftir Guillermo del Toro, þótt þær séu báðar frekar stílaðar á fullorðna en ekki yngri áhorfendur, þrátt fyrir að börn séu í aðalhlutverkunum. Sumarbörn sýnir mikinn metnað með því að gera fjölskyldumynd úr dramatískum efnivið, þótt hún eigi stundum í erfiðleikum með að viðhalda þessum tvöfalda tóni, enda vandmeðfarið stílbragð. Það er þó augljóst hvað leikstjórinn Guðrún ber mikla virðingu fyrir yngri áhorfendunum, því hún skilur að börn bæði þola og vilja sjá dramatík og flóknar sögur, en ekki bara endalaust teiknimyndabíó og hasar. Myndin flýtir sér hægt og minnir frekar á gömlu sænsku Astrid Lindgren myndirnar hvað varðar tempó heldur en flest það sem börn sjá í bíó nú á dögum.

Það er reyndar bæði kostur og galli við myndina, því hún verður eiginlega of hæg í fyrri hlutanum og það snýr að miklu leyti að sjónarhorni aðalpersónunnar. Lífið á barnaheimilinu er tilbreytingarlaust og niðurdrepandi og þótt eitthvað sé um prakkaraskap og leik er meira um nöturleika heldur en hitt. Eydís er kölluð óhemja, þótt hún sé ósköp venjulegur og í raun mjög góður krakki, og umhverfið virðist sérhannað til að buga börnin. Starfsfólk er skammað fyrir að sýna þeim samkennd og óhlýðnir krakkar eru sendir út í grjótkofa í einangrun. Þótt titillinn hljómi glaðlyndur fylgir lítil sæla því að vera sumarbarn, en það er þó skárra en að umbreytast í vetrarbarn, því þau eru föst á þessum vansæla stað allt árið um kring. Eydís litla, aðalpersónan okkar, bregst við nöturleikanum með því að hverfa smátt og smátt yfir í eigin fantasíu, en það tekur tíma að fara í gang og brýtur ekki sérstaklega upp mónótóníuna í fyrri hlutanum. Upplifun áhorfenda verður þannig svipuð upplifun Eydísar – endurtekningasöm og dálítið þreytandi – og í því samhengi verður sjónarhorn barnsins frekar heftandi. Það er vissulega óaðskiljanlegur hluti uppbyggingarinnar í myndinni, en takmarkar jafnframt aðgang okkar að öðrum persónum, s.s. fóstrunum, sem við skynjum aldrei nema sem síkvartandi og skammandi nornir. Brynhildur Guðjónsdóttir er vissulega grípandi og ógnvekjandi í hlutverki yfirfóstrunnar Pálinu, enda birtist hún sem slík í augum sex ára stúlkunnar, en sem áhorfandi saknaði ég þess að fá meiri persónusköpun í kringum hana og hitt fólkið á bænum.

Fyrir utan örstutt atriði seint í myndinni, þar sem yfirfóstran rífst við smiðinn á staðnum, missir hún aldrei harðneskjulega grímuna og bara einn kaffibolli með Pálínu hefði kannski gefið til kynna að hún væri mannlegri en svo að vera einungis “vonda stjúpan” í ævintýrinu. Við einblínum hins vegar svo sterkt á sjónarhorn Eydísar að aðrar persónur fá mun minni athygli og það á líka við um hina krakkana. Fyrir utan bróðurinn og eina vinkonu Eydísar gegna hin börnin aðallega hlutverkum statista sem hlaupa um og leika sér í kringum aðalpersónurnar eða standa muldrandi eitthvað til hliðar. Við fáum litla sem enga innsýn í samfélag barnanna á heimilinu eða tilfinningu fyrir tengslum þeirra á milli, því hinir krakkarnir eru fyrst og fremst bakgrunnur fyrir aðalpersónurnar okkar, og það gerði að verkum að ég skynjaði umhverfið oft sem sviðsett en ekki nógu raunsæislegt og grípandi.

Fyrri hluti Sumarbarna er líka nokkuð stirður hvað varðar flæði og innlifun og það kom mér á óvart að söguefnið hafi ekki beinlínis náð að snerta við mér tilfinningalega, eins og ég get annars verið viðkvæmur fyrir bágstöddum börnum í bíó. Má gráta núna? spyr litli bróðir á stað þar sem ekkert má gera í leyfisleysi. Já, Kári minn, bara ekki of hátt, svarar stóra systir, sem er sjálf samt svo lítil – en einhvern veginn náði ég aldrei almennilegum tilfinningatengslum við aðstæður þeirra. Myndin fer hins á gott flug í seinni hlutanum þegar töfraraunsæið tekur við og ævintýralegi þátturinn myndar mótvægi við fyrri hlutann. Þá sækir hún í þjóðararfinn, drauga og hamhleypur, sem gerir að verkum að heildarmyndin fær á sig ákveðinn ævintýrabrag sem maður skynjar í raun ekki almennilega fyrr en að áhorfi loknu og er gaman að velta fyrir sér eftir á. Hvernig ber að túlka þennan lokasprett er í höndum áhorfenda, en þar heppnast mjög vel að segja tvöfalda sögu sem skilja má á ólíka vegu, en ég segi annars ekki meira um það.

Þótt fyrri hlutinn hefði líklega haft gott af meiri fjölbreytni, flóknari persónusköpun og betra flæði, þá verða styrkleikar myndarinnar áberandi eftir því sem á líður og mörkin á milli draumóra og raunveruleika taka að mást út. Ég væri forvitinn að heyra viðbrögð barna við myndinni, en var því miður einn á ferð í bíó. Á sýningunni sem ég sá var þó nokkuð af krökkum og mig dauðlangaði að grípa þau frammi á gangi og yfirheyra þau aðeins, því ég ímynda mér að myndin gæti orðið kveikja að margs konar umræðu hjá börnum og foreldrum að áhorfi loknu. Sumarbörn er metnaðarfull frumraun sem er svo sannarlega með hjartað á réttum stað og þrátt fyrir ákveðna galla hefur hún óneitanlega setið eftir í huganum. Leikstjórinn dregur fram áhugaverða og einlæga sýn sem er skemmtilega á skjön við margt annað í bíó og það er gaman að sjá fjölskyldumynd sem setur markið svona hátt, þorir að taka áhættur, og að endingu grunar mig að Sumarbörn muni lifa sterkar í minningunni hjá yngri áhorfendum heldur en mikið af því barna- og fjölskylduefni sem meginstraumurinn býður annars upp á.

Sjá nánar hér: Metnaðarfull fjölskyldumynd með ævintýrabrag

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR