spot_img

Morgunblaðið um “Sumarbörn”: Með augum barnsins

Brynja Hjálmsdóttir skrifar um Sumarbörn Guðrúnar Ragnarsdóttur í Morgunblaðið og segir titilinn endurspegla stemninguna í myndinni þar sem ljóðrænni og barnslegri bjartsýni sé fléttað saman við þrúgandi alvöru lífsins. Hún gefur myndinni þrjár og hálfa stjörnu.

Brynja skrifar meðal annars:

Sumarbörn er fyrsta kvikmynd Guðrúnar Ragnarsdóttur í fullri lengd. Hún nam kvikmyndagerð í einum virtasta listaháskóla heims, CalArts í Bandaríkjunum, og hefur síðan gert stuttmyndir sem hafa unnið til verðlauna og unnið í kvikmyndabransanum um skeið. Þótt Guðrún sé á fullorðinsaldri og hafi tekið sér langan tíma í að gefa út sína fyrstu stóru mynd er í öllu falli gleðilegt að hún sé komin og forvitnilegt verður að fylgjast með hvað hún gerir í framtíðinni.

Í þessari fyrstu mynd sinni tekur Guðrún áhættur sem ég kann einkar vel að meta. Sú fyrsta er að gera fjölskyldumynd, en fjölskyldumynd af þessu tagi hefur ekki komið út hér á landi í áraraðir og það þarf ekkert að fjölyrða um mikilvægi þess að það komi út vandað efni á íslensku fyrir yngri aldurshópinn. Önnur áhætta er að hafa börn í aðalhlutverkum myndarinnar en hún lukkast ágætlega og ungi leikhópurinn stendur sig með prýði.

Myndin virkar bæði fyrir börn og fullorðna þótt viðfangsefnið sé alvarlegt. Börn fíla alveg dramatík og maður skyldi ekki vanmeta það, manni verður t.d. hugsað til Benjamíns dúfu og Bróður míns Ljónshjarta sem hafa heillað börn svo kynslóðum skiptir. Það er líka skemmtilegt hvernig sagan er sögð frá sjónarhorni barnanna, þannig að draumar og ímyndun verða stundum raunveruleg. Sérstaklega hafði ég gaman af því hvernig þjóðsöguminni birtast í atriðum undir lok myndarinnar þar sem börnin sjá ýmsar óvættir holdgerast í stórskornu landslaginu. Að því sögðu hefði ég samt viljað sjá aðeins fleiri fjörug atriði inn á milli til að létta stemninguna. Atriðin sem sýna Eydísi njóta lífsins inn á milli harmrænni atriða eru draumkennd og falleg en verða ofurlítið endurtekningasöm.

Það vantar aðeins upp á í tæknilegri úrvinnslu myndarinnar. Klippingarnar fannst mér svolítið skrítnar, sérstaklega í byrjun myndar þar sem stundum er stokkið ómjúklega milli ólíkra tíma og tökustaða. Þá er myndin endrum og sinnum í mótsögn við sitt innra samhengi. Þetta sést m.a. á því að börnin flakka frjáls um alla sveit þótt það sé búið að útlista að þau megi ekki fara út af lóðinni og þegar Eydís finnur sendibréf frá mömmu sinni á mjög tilviljunarkenndum stað og óljóst af hverju í ósköpunum það ætti að vera þar. Hljóðvinnslan er á köflum óvönduð, stundum detta bakgrunnshljóð út þegar einhver tekur til máls eða það verður áberandi að átt hefur verið við hljóðið. Tónlistin er hins vegar frábær, í fararbroddi eru Kira Kira og Hermigervill sem sömdu tónlistina og flutninginn annast einvalalið íslenskra tónlistarmanna. Þá eru tæknibrellurnar í kvikmyndinni, sem eru notaðar til að láta persónur fljúga um loftin blá og sitthvað fleira, með þeim bestu sem ég hef séð í íslenskri mynd.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR