Skjaldborg III: Veröld sem verður (og jaðarsportið heimildamyndir)

Frá Skjaldborg 2017 á Patreksfirði.

Í þriðja og síðasta pistli sínum um Skjaldborgarhátíðina 2017 fjallar Ásgeir H. Ingólfsson um eftirfarandi myndir: Borða vaxa elska, Raise the Bar, Stökktu, Blóð, sviti og derby og Goðsögnin FC Kareoki. Hann fjallar auk þess um þau verk í vinnslu sem sýnt var úr á hátíðinni og fer yfir sjálfan hátíðarrammann.


Nú erum við stödd í framtíðinni þegar Skjaldborg þessa árs er löngu liðin og tilvalið að rifja upp restina af myndunum áður en fennir yfir. Eftir fortíðar- og nútíðarpistla er því tilvalið að skoða framtíðina betur.

BORÐA, VAXA, ELSKA.

Framtíðin getur verið erfið viðfangs í heimildamyndum, af augljósum ástæðum. Hún virðist þó í vissum skilningi umfjöllunarefni Borða, vaxa, elska – sem fjallar um sex bændur í sex mismunandi löndum sem allir rækta lífrænt í sátt og samlyndi við náttúruna við fjölbreyttar aðstæður.

Það eru nokkrir skemmtilegir viðmælendur í myndinni en þar sem viðfangsefni allra sex eru svona svipuð verður myndin óneitanlega endurtekningasöm – en samt fær maður einhvern veginn aldrei almennilega botn í hvað þetta permaculture gengur út á. Jú, þetta eru bændur, oft í eða nálægt borgum, að rækta matjurtir á sjálfbæran hátt – en það er ekkert nýtt beinlínis, þótt það sé að komast aftur í tísku með meiri vitund um náttúruvernd – þannig að þótt ástríða þeirra skíni í gegn gerir sérstaða þeirra það í raun ekki. Hins vegar gæti þetta orðið framtíðin, hvort heldur sem þetta verður framtíðin sem við veljum núna eða framtíðin sem við verðum neydd til að velja síðar.

Whiplash, Drew Barrymore og limbó

„Heimildamyndir eru jaðarsport,“ hafði einhver á orði um miðja hátíð og það gæti útskýrt áhuga íslenskra heimildamyndagerðarmanna á jaðaríþróttum – en fyrir utan róðrarmyndina Í kjölfar feðranna sem var rædd í síðasta pistli voru á hátíðinni myndir um mýrarbolta, hjólaskautaat, langstökk og körfubolta. Það síðastnefnda er þó varla á jaðrinum – en  það er sjaldgæfara að þar séu níu ára stelpur í aðalhlutverki.

RAISE THE BAR.

Raise the Bar fjallar sumsé um körfuboltaþjálfarann Brynjar Karl sem þjálfar níu ára stelpur og talar af ástríðu um að stelpur eigi skilið sömu þjálfun og strákar – en fái hana alltof sjaldan. Síðan sjáum við hann, oft snældubrjálaðann, á hliðarlínunni. Myndin gæti verið gott double bill með Whiplash – af því að dramað snýst minna um íþróttina (eða tónlistina eins og í Whiplash) heldur frekar um kosti og galla kennslu- og þjálfunaraðferðanna. Ef þetta væru strákar myndi maður kannski frekar setja spurningamerki við aðferðirnar – en þessar stelpur eru hins vegar fyrir löngu komnar með nóg af því að það sé komið fram við þær eins og dúkkulísur og vaxa allar við lætin – og það er kominn alvöru blóðhiti í þær undir lok myndar sem er mjög hressandi að sjá.

STÖKKTU.

Langstökkvarinn Hafdís er hins vegar ólíkt rólegri en níu ára kynsystur hennar í myndinni Stökktu, sem fjallar um tilraunir hennar til að komast á stórmót. Myndin er frekar hefðbundin að flestu leyti og á köflum daufleg en það er þó tvennt  mjög forvitnilegt við hana; annars vegar er það umbreytingin á Hafdísi þegar hún flytur til útlanda til nýs  þjálfara. Fram að því var hún sveitastelpa í frjálsum, þið þekkið týpuna – og fátt meira um það að segja. En þegar hún kemur út er allt miklu erfiðara en um leið er eins og hún finni sjálfa sig og karakterinn fer að skína í gegn og hún fer að segja okkur frá miklu forvitnilegri hlutum. Hitt er svo hvernig myndin setur á lokakaflanum í forgrunn þá erfiðu ákvörðun, sem strákarnir sleppa oftast við, um það hvort hún eigi að forgangsraða ferlinum eða barneignum – þegar barnið getur annað hvort frestað ferlinum um nokkur ár eða jafnvel gert út af við hann.

BLÓÐ, SVITI OG DERBY.

Helstu jaðaríþróttirnar voru svo auðvitað mýrarboltinn og hjólaskautaatið, eða roller derby eins og flestar stelpurnar í Blóð, sviti og derby kalla sportið. Eftir nokkur viðtöl við þær fór ég að verða pínu svekktur yfir því að myndin skyldi ekki heita Áhrif Drew Barrymore á mannkynssöguna, en flestar virtust stelpurnar hafa hrifist fyrst af íþróttinni þegar þær sáu þá ágætu leikstjórnarfrumraun Barrymore, Whip It. En þetta er erki-jaðarsport, ekki bara í þeirri merkingu að það sé sjaldgæft heldur líka af því að kúltúrinn í kringum það er allt annar – og þar er þjálfarinn besta dæmið, raffíneraður eldri maður sem hefur gaman af að klæða sig upp í kjóla og minnti hálfpartinn á John Waters á góðum degi.

GOÐSÖGNIN FC KAREOKÍ.

Sami antisportista kúltúr er að einhverju leyti til staðar í Goðsögnin FC Kareoki, þótt þeir hafi margir meiri fortíð í sportinu – leikmenn FC Kareoki hættu flestir í fótbolta af því þeir voru svo lélegir en fundu sig betur í leðjunni. Stemmningin minnir um margt á Fótboltafélagið Fal, sem allir alvöru myndasögunördar yfir þrítugu muna eftir úr  samnefndum bókum. Þeir eru nefnilega svakalega lélegir en samt tekst þeim á einhvern undraverðan hátt að vinna leiki þegar á líður. Þótt aginn á liðinu sé þannig að Mourinho-ar þessa heims yrðu búnir að reyta allt hárið af sér strax eftir upphitun. Helsta afrek myndarinnar er svo myndatakan, þetta er varla auðvelt íþrótt að mynda – en marga rammana úr leikjum væri hægt að hengja upp á vegg.

Loks  er rétt að minnast einkennisíþróttar Skjaldborgar, limbóið, en þetta árið var limbómeistarinn jaðardýrið einhyrningur. Enda má finna ólíklegustu dýrategundir á Vestfjörðum.

Framtíð Skjaldborgar

En aftur að framtíðinni. Á hverri Skjaldborg fáum við nasaþef af framtíð íslenskra heimildamynda þegar verk í vinnslu eru kynnt. En áður en ég segi ykkur frá þeim þá langar mig að minnast Skjaldborgar fyrir nokkrum árum þegar Friðrik Þór var heiðursgestur og ég sá Kúreka norðursins loksins í fyrsta skipti. Ég man ég hugsaði um miðja mynd: „mig langar miklu frekar að sjá mynd um þennan gaur.“ Þessi gaur var Johnny King – sá sem var alltaf í smáa letrinu undir nafni Hallbjörns – en virtist um margt bæði forvitnilegri karakter og meiri talent.

Og nú er von á þeirri mynd, en Andri Freyr Viðarsson og Árni Sveinsson eru að vinna að heimildamynd um kónginn sem kallast einfaldlega Johnny King. Atriðin sem við fengum að sjá voru sannarlega áhugaverð og ekki síður margt sem Andri kom inná í kynningu um erfiða lífsbaráttu Johnny.

Hin myndin sem maður bíður hvað spenntastur eftir er Söngur ömmu Kanemu, en hún fjallar um för Ernu Kanemu til Sambíu. Erna er átján ára, á íslenska móður og sambískan pabba, og fer til fundar við sambíska ættingja og ekki síður tónlistina, sem hún finnur fyrir í blóðinu. Það kom fram að það séu þegar tvær myndir til um Ernu, á yngri árum, og spurning hvort þarna sé íslenska heimildamyndaútgáfan af Boyhood í fæðingu.

Svo eru auðvitað öll verk Skjaldborgar mögulega verk í vinnslu, enda salurinn ágætis crowd-source af öðrum heimildamyndargerðarmönnum sem gætu komið með alls kyns ábendingar. Ég man til dæmis eftir því að hafa, ásamt ýmsum öðrum, umkringt leikstjóra þeirrar stórskemmtilegu myndar Hrikalegir á lokaballinu eitt árið, og allir vorum við að segja honum hvað mætti bæta – og sá hana svo einhverjum tveimur árum seinna fyrir sunnan, þar sem myndin var orðin dýpri og vandaðri, en ennþá alveg jafn fyndin.

En hvað með framtíð hátíðarinnar sjálfrar? Það mætti týna til alls konar smáatriði sem mætti laga (lengra matarhlé og/eða matur við bíóið eins og eitt árið til dæmis) en framkvæmd hátíðarinnar var þó almennt til fyrirmyndar að venju og allt gert til að tryggja að Skjaldborg verði áfram einhver skemmtilegasta kvikmyndahátíð í heimi, óháð öllu öðru, enda nándin sem næst í svona litlu plássi einstök. Túrisminn er þó alltaf ákveðin hætta, gistipláss verður til dæmis umsetnara og umsetnara með hverju árinu – en það er auðvitað lúxusvandamál, svona hátíðir snúast auðvitað meðal annars um að færa líf í lítil pláss og það hefur hún sannarlega gert.

Það sem ég saknaði þó mest var Sjóræningjahúsið. Þar var hjarta hátíðarinnar fyrst þegar ég mætti, yndislegt hús sem manni þótti svo undur vænt um, rammgöldrótt hús sem núna er í niðurníslu af því það hefur gengur illa að reka það. En það er menningarslys að þetta hús sé ekki í notkun – menningarslys sem yfirvöld og athafnamenn á Vestfjörðum ættu að koma sér saman um að stöðva. Því að af öllum framtíðardraumum sem hægt er að dreyma um Patreksfjörð þá eru þeir bestu allir með líflegt Sjóræningjahús.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR