Fjórar væntanlegar íslenskar þáttaraðir kynntar á Scandinavian Screening 6.-8. júní

Kaupstefnan Scandinavian Screening er haldin á Íslandi í fyrsta sinn dagana 6.-8. júní. Þar koma saman stærstu kaupendur sjónvarpsefnis og kvikmynda í heiminum til að kynna sér og festa kaup á norrænu sjónvarpsefni. Alls verða 30 verkefni kynnt á kaupstefnunni og þar af fjórar innlendar þáttaraðir sem nú eru í undirbúningi.

Innlendu verkefnin eru Verbúð (Blackboard) frá Vesturporti, Ráðherrann frá Sagafilm, Valhalla Murders frá Truenorth og Sjálfstætt fólk frá RVK Studios.

Kaupstefnan er haldin hérlendis vegna rammasamnings RÚV við DR Sales um samstarf við að kynna, selja og dreifa efni RÚV og annarra innlendra framleiðenda á alþjóðamarkaði. DR Sales er reynslumesti, stærsti og sérhæfðasti aðilinn í sölu á norrænu sjónvarpsefni og hefur náð eftirtektarverðum árangri á því sviði. Norrænar sjónvarpsstöðvar og kvikmyndasjóðir standa að Scandinavian Screening og nú í fyrsta sinn eru RÚV og Kvikmyndamiðstöð Íslands aðilar að kaupstefnunni. Kaupstefnan er haldin annað hvert ár, hingað til í DR-Byen í Kaupmannahöfn og SVT í Stokkhólmi.

Markmiðið með Scandinavian Screening:

  • Styrkja stöðu kvikmynda og sjónvarpsefnis frá Norðurlöndum á alþjóðamörkuðum. „Nordic“ er og verður vörumerki sem lýsir gæðum, frumkrafti og framtíðarsýn hvar sem kvikmynda- og sjónvarpsdagskrágerð er rædd.
  • Styrkja fjárhagslegan grundvöll norrænnar kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu.
  • Treysta í sessi norrænan kvikmynda- og sjónvarpsiðnað – og þar með Norræna menningu, hugverk og handverk – með því að stuðla að áframhaldandi útbreiðslu og velgengni á alþjóðavísu.
  • Vettvangur fyrir sjónvarpsstöðvar, framleiðendur og dreifingaraðila til að byggja framleiðslu- og viðskiptasambönd og til að deila þekkingu og  þróun á norrænu sjónvarpsefni.

Hverjir koma?

Kaupendur

Til kaupstefnunnar eru komnir 100 kaupendur frá sjónvarpsstöðvum og efnisveitum frá um 70 löndum, aðallega frá Evrópu en einnig frá Bandaríkjunum og víðar. Kaupendur eru að leita að alls kyns sjónvarpsefni, þar á meðal leiknum þáttum og þáttaröðum, heimildamyndum og –þáttum, barnaefni, menningarefni og afþreyingarefni

Dreifingaraðilar og söluaðilar

Allar opinberu sjónvarpsstöðvarnar á Norðurlöndum, RÚV, DR, YLE, SVT og NRK, verða sölu- og kynningaraðilar á kaupstefnunni ásamt aðilum frá Nordisk Film & TV fond, NordicWorld og Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Fyrirlestur Kim Christiansen – hvernig ferðast heimildamyndir?

Í tilefni af kaupstefnunni hefur RÚV beðið Kim Christiansen, ritstjóra og umsjónarmann samframleiðslu heimildarmynda hjá DR Sales að halda erindi og eiga samtal við íslenska framleiðendur. Þar mun hann ræða hvernig hámarka megi líkur á að heimildamyndir nái flugi sem víðast á erlendri grundu, út frá tækni- og efnislegum forsendum og hvað ræður jafnan úrslitum um að heimildamyndir komist á dagskrá hjá sjónvarpsstöðvum á alþjóðlegum mörkuðum. Fyrirlesturinn fer fram miðvikudaginn 7. júní kl. 13:00 – 14:30 í Efstaleiti 1. Áhugasamir geta skráð sig á ruv.is/kim-christiansen.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR