Elfar Aðalsteins og Karl Óskarsson gera mynd á Írlandi

Elfar Aðalsteins (fyrir miðju) og Karl Óskarsson (til hægri) við tökur á End of Sentence.

Elfar Aðalsteins er nú við tökur á End of Sentence, fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd. Þær fara fram á Írlandi. Karl Óskarsson er tökumaður, en þeir Elfar gerðu saman stuttmyndina Sailcloth með John Hurt í aðalhlutverki, fyrir nokkrum árum og var hún valin stuttmynd ársins á Eddunni 2013. Guðrún Edda Þórhannesdóttir, Eva María Daníels og Sigurjón Sighvatsson framleiða ásamt Samson Films á Írlandi og Elfari.

Morgunblaðið skýrir frá og þar segir meðal annars:

End of Sentence, ný kvik­mynd eft­ir ís­lenska leik­stjór­ann Elf­ar Aðal­steins, var kynnt í Cann­es í síðasta mánuði en tök­ur á henni hóf­ust á Írlandi fyr­ir um tveim­ur vik­um. Fjöl­marg­ir Íslend­ing­ar koma að gerð og fram­leiðslu mynd­ar­inn­ar og mun eft­ir­vinnsla að öll­um lík­ind­um fara fram á Íslandi.

Aðal­hlut­verkið í mynd­inni er í hönd­um banda­ríska leik­ar­ans John Hawkes sem ís­lensk­ir bíógest­ir ættu að kann­ast við úr mörg­um kvik­mynd­um síðustu ár en með eft­ir­minni­legri hlut­verk­um hans er fatlaða ljóðskáldið í The Sessi­ons, sem Hawkes hlaut fjölda til­nefn­inga og verðlaun fyr­ir ásamt mótt­leik­konu sinni, Helen Hunt. Ólaf­ur Darri Ólafs­son fer með lítið hlut­verk í End of Sentence og meðal annarra Íslend­inga sem koma að mynd­inni eru Karl Óskars­son sem sér um kvik­mynda­töku og Kristján Loðmfjörð sem sér um klipp­ingu.

Leikstjórinn fyrir miðju en í grárri peysu hægra megin á ...
Leik­stjór­inn fyr­ir miðju en í grárri peysu hægra meg­in á mynd­inni má sjá Log­an Lerm­an, sem er rís­andi stjarna í Hollywood og fer með eitt af aðal­hlut­verk­um End of sentence.

Elf­ar Aðal­steins hef­ur unnið að gerð fjöl­margra mynda og skrifaði og leik­stýrði stutt­mynd­un­um Su­bcult­ure og verðlauna­mynd­inni Sailcloth, þar sem John Hurt fór með aðal­hlut­verk. End of Sentence er hins veg­ar ís­lensk/​banda­rísk mynd fram­leidd af Elfari og Guðrúnu Eddu Þór­hann­es­dótt­ur frá Ber­serk Films, Evu Maríu Daní­els, Sam­son Films á Írlandi og hinu banda­ríska Palom­ar Pict­ur­es, fram­leiðslu­fyr­ir­tæki Sig­ur­jóns Sig­hvats­son­ar, en hann er ný­kom­inn frá Cann­es þar sem hann kynnti mynd­ina ásamt full­trú­um dreif­ing­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Rocket Science.

Ung­ar stjörn­ur í hópn­um

Hand­rit End of Sentence er skrifað af Michael Armbru­ster, sem m.a. skrifaði Beautif­ul Boy, mynd sem skartaði Maria Bello og Michael Sheen í hlut­verk­um for­eldra drengs sem frem­ur fjölda­morð í skól­an­um sín­um. End of Sentence fjall­ar hins veg­ar um feðga sem leggja í ferðalag frá Banda­ríkj­un­um til Írlands til að dreifa ösku eig­in­kon­unn­ar og móður­inn­ar í fæðing­ar­landi henn­ar. Feðgarn­ir höfðu skorið á öll tengsl sín á milli og son­ur­inn er ný­kom­inn úr fang­elsi er hann samþykk­ir treg­lega að fara í ferðalagið gegn lof­orði um að þeir þurfi aldrei að eiga sam­skipti eft­ir það. Ferðin verður hins veg­ar óút­reikn­an­legri en þeir höfðu bú­ist við, siðir og mót­tök­ur heima­manna koma þeim í opna skjöldu og bak­poka­ferðalang­ur kem­ur inn í líf þeirra á óvænt­an hátt.

Hinn banda­ríski Log­an Lerm­an leik­ur son­inn Sean en Lerm­an er rís­andi stjarna í Hollywood. Hann hóf leik­list­ar­fer­il­inn aðeins átta ára er hann lék son Mel Gi­b­son, bæði í kvik­mynd­un­um The Pat­riot og What Women Want og hef­ur mikla reynslu þrátt fyr­ir ung­an ald­ur en meðal ný­legra mynda hans er stríðsmynd­in Fury þar sem hann lék á móti Brad Pitt. Lerm­an lék einnig Ham, son Nóa, í sam­nefndri kvik­mynd sem tek­in var upp á Íslandi og hef­ur því þegar teng­ingu við ís­lenska kvik­mynda­gerð líkt og John Hawkes, sem fór með hlut­verk í Ev­erest. Írska leik­kon­an Sarah Bolger fer með hlut­verk putta­ferðalangs­ins en hún hef­ur m.a. unnið til verðlauna fyr­ir leik sinn í sjón­varpsþátt­un­um The Tudors. Líkt og Lerm­an hóf hún fer­il­inn snemma og lék, ásamt yngri syst­ur sinni, í kvik­mynd­inni In America þegar hún var níu ára göm­ul. Sú mynd fékk til­nefn­ing­ar til bæði Óskars- og Gold­en Globe-verðlauna og allt leik­araliðið var til­nefnt til Screen Actors Guild Aw­ards.

Ljúfsár saga

Vanity Fair sagði frá því ný­lega að End of Sentence hefði verið kynnt sem kvik­mynd í fram­leiðslu í Cann­es en Rocket Science sem hef­ur tryggt sér alþjóðleg­an sölu­rétt á mynd­inni. „End of Sentence er hlý, fynd­in og hjart­næm saga af ósam­lynd­um feðgum sem finna teng­ingu á ný; ve­g­reisu­mynd sem gerð er af næmi og húm­or. Þar á ég við bæði leik­ar­ana hæfi­leika­ríku og hið frá­bæra teymi sem stend­ur að mynd­inni. Hún mun áreiðan­lega hreyfa við áhorf­end­um víða um heim,“ er haft eft­ir Thor­sten Schumacher, for­stjóra Rocket Science.

End of Sentence er fyrsta kvik­mynd Elfars í fullri lengd en hann stefn­ir á að frum­sýna hana í janú­ar á næsta ári. „Við erum kom­in með meiri­hátt­ar leik­ara­hóp og tök­ulið og ég hlakka mikið til að vinna með þeim að því að gæða þessa ljúfsáru sögu Michaels lífi,“ sagði Elf­ar í frétta­til­kynn­ingu stuttu áður en tök­ur hóf­ust, en þær standa yfir fram til mánaðamóta.

Sjá nánar hér: Elfar Aðalsteins leikstýrir rísandi stjörnum – mbl.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR