Heim Bransinn X-faktorinn í íslensku sjónvarpsefni

X-faktorinn í íslensku sjónvarpsefni

-

Skarphéðinn Guðmundsson.

Morgunblaðið fjallar um leikið íslenskt sjónvarpsefni og möguleika þess á alþjóðlegum markaði. Rætt er við Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóra RÚV og Davíð Óskar Ólafsson framleiðanda Fanga um stöðuna og horfur framundan.

Í umfjöllun Morgunblaðsins segir:

Það er sí­fellt verið að leita að ein­hverju nýju, hinu óvænta. X-fa­ktor­inn okk­ar, þetta sem eng­inn hef­ur nema við, eru ís­lensku ein­kenn­in. Það eru nógu marg­ir að búa til fjölda­fram­leitt staðlað efni, við erum ekki að því og við erum ekki að fara að keppa við Hollywood. Núna erum við þetta nýja og ef við fram­leiðum ekki gott ís­lenskt efni, þá ger­ir það eng­inn,“ seg­ir Skarp­héðinn Guðmunds­son, dag­skrár­stjóri RÚV, en RÚV hef­ur komið að fram­leiðslu beggja of­an­greindra þátta og fjöl­marg­ir fleiri þætt­ir, sem farið gætu á alþjóðamarkað, eru í bíg­erð.

Síðasti þátt­ur­inn af Föng­um var sýnd­ur á RÚV á sunnu­dags­kvöldið, þætt­irn­ir fengu mikið lof sem náði út fyr­ir land­stein­ana og hef­ur m.a. verið fjallað um þætt­ina í Variety, sem er eitt helsta tíma­rit afþrey­ing­ariðnaðar­ins.

Gæðaefni er eft­ir­sótt

Skarp­héðinn seg­ir Fanga vera gott dæmi um þá breyt­ingu sem orðið hef­ur í fram­leiðslu sjón­varps­efn­is á stutt­um tíma. „Þó að áhorf á línu­lega dag­skrá hafi minnkað, þá hef­ur sjón­varps­áhorf lík­lega aldrei verið meira. Það eru svo marg­ir mögu­leik­ar til að horfa á sjón­varp; á net­inu, á ýms­um efn­isveit­um og á sjón­varps­stöðvun­um sjálf­um. Þetta hef­ur leitt til auk­inn­ar eft­ir­spurn­ar eft­ir vönduðu gæðaefni og það laðar að hæfi­leika­ríkt fólk. Áður var litið niður á sjón­varp, en núna eru nán­ast all­ir nafn­togaðir kvik­mynda­gerðar­menn að vinna að sjón­varps­verk­efn­um.“

Und­ir þetta tek­ur Davíð Óskar Ólafs­son, fram­leiðandi og leik­stjóri hjá Mystery Producti­on, sem fram­leiddi Fanga ásamt fleir­um. „Við ákváðum snemma í und­ir­bún­ings­ferl­inu að setja markið hátt; að búa til þáttaröð sem veitti öðrum þátt­um úti í heimi sam­keppni. Við gerðum allt vel – mynda­tak­an, hljóðið, leik­ur­inn, tón­list­in, sviðsmynd­in; þetta er allt eins og best er hægt að gera það,“ seg­ir Davíð.

Davíð Óskar Ólafsson
Davíð Óskar Ólafsson.

Fang­ar verða sýnd­ir víða

Nú þegar hafa Fang­ar verið seld­ir til sýn­inga hjá öll­um nor­rænu stöðvun­um og á pólsku stöðina Canal+. Verið er að ganga frá samn­ing­um við einka­rekna sjón­varps­stöð á Spáni og efn­isveita hef­ur fest kaup á þátt­un­um. Davíð seg­ir að sam­kvæmt samn­ingn­um sé sér ekki heim­ilt að gefa upp hvaða efn­isveitu sé um að ræða, en um sé að ræða alþjóðlega veitu sem streym­ir þátt­um og kvik­mynd­um. Á morg­un held­ur hann á kvik­mynda­hátíðina í Berlín þar sem þætt­irn­ir verða kynnt­ir á svo­kölluðum sjón­varps­markaði. „Það geta verið mikl­ir pen­ing­ar í þessu,“ svar­ar hann, spurður um hvort þætt­irn­ir séu farn­ir að raka sam­an fé, en seg­ir of snemmt að segja til um hvort sú verði raun­in með Fanga.

Aðkoma RÚV að fram­leiðslu Fanga er margþætt að sögn Skarp­héðins. „Við erum fyrsti aðil­inn sem kem­ur inn í ferlið, það er lífs­nauðsyn­legt fyr­ir fram­leiðend­urna að fá sjón­varps­stöð sem ætl­ar að sýna þætt­ina inn sem fyrst. Við erum með í vinnslu þátt­anna all­an tím­ann og höf­um milli­göngu um sam­starf við nor­rænu stöðvarn­ar, sem fyrst og fremst felst í að þær tryggja sér sýn­ing­ar­rétt á þátt­un­um.“

Skarp­héðinn seg­ir það vera til marks um breytta tíma í fram­leiðslu leik­ins ís­lensks sjón­varps­efn­is að all­ar nor­rænu rík­is­stöðvarn­ar voru meðfram­leiðend­ur að Ófærð og Föng­um. Það hafi ekki gerst áður. Hann seg­ir að gerðar hafi verið lang­tíma­áætlan­ir um þátt­araðir af ýms­um lengd­um og gerðum. Stefn­an sé að geta boðið upp á allt að þrjár þátt­araðir á ári til að geta annað eft­ir­spurn og framund­an séu m.a. þátt­araðirn­ar Líf eft­ir dauðann eft­ir Veru Sölva­dótt­ur, sem sýnd verður um pásk­ana og Lof­orðið eft­ir Braga Þór Hinriks­son og Guðjón Davíð Karls­son sem sýnd verður næsta haust.

Er mark­visst verið að horfa til út­landa við fram­leiðslu þátta á borð við Ófærð og Fanga? „Það er al­veg ljóst, að ef efnið á ein­göngu að vera sýnt á Íslandi, þá get­ur það ekki verið eins um­fangs­mikið. Það þarf þó ekki að þýða að við get­um ekki haldið áfram að segja okk­ar eig­in sög­ur, því þar ligg­ur ein­mitt áhugi annarra þjóða: á sér­kenn­um okk­ar,“ svar­ar Skarp­héðinn.

Vel­gengn­in lá í loft­inu

„Það er svo margt,“ svar­ar Davíð spurður um hvaða skýr­ing­ar hann gefi á vel­gengni Fanga. „Þetta lá svo­lítið í loft­inu, við áttuðum okk­ur á að við vær­um með eitt­hvað ein­stakt í hönd­un­um. En það sem er kannski svo­lítið sér­stakt er að sag­an er ekki drif­in áfram af plotti eins og svo marg­ir þætt­ir, held­ur er þetta heild­ar­mynd og það verður að horfa á alla þætt­ina.“

Mega sjón­varps­áhorf­end­ur bú­ast við Föng­um 2? „Það stóð ekk­ert endi­lega til í upp­hafi, en við höf­um nú þegar tekið upp viðræður við höf­unda og fram­leiðend­ur um að gera fram­hald,“ seg­ir Skarp­héðinn.

Sjá nánar hér: Þetta íslenska er X-faktorinn – mbl.is

Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ásgrímur Sverrisson.

NÝJUSTU FÆRSLUR

Ástralska útgáfan af HRÚTUM gerir það gott í heimalandinu, Sam Neill tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki

Rams, ástralska útgáfan af Hrútum Gríms Hákonarsonar með Sam Neill í aðalhlutverki, er að gera það gott í kvikmyndahúsum Ástralíu þessa dagana. Myndin opnaði í efsta sæti og hefur nú verið sýnd í fimm vikur við miklar vinsældir.

Stiklur þriggja væntanlegra heimildamynda, SÓLVEIG MÍN, HÆKKUM RÁNA og THE AMAZING TRUTH ABOUT DADDY GREEN

IDFA heimildamyndahátíðin sem nú stendur yfir, hefur birt stiklu þar sem þrjár væntanlegar íslenskar heimildamyndir eru kynntar, Sólveig mín eftir Körnu Sigurðardóttur og Claire Lemaire Anspach, Hækkum rána eftir Guðjón Ragnarsson og The Amazing Truth about Daddy Green eftir Olaf de Fleur. Stikluna má skoða hér.