Ný bók um kvikmyndafræði komin út

Arnar Elísson kvikmyndafræðingur hefur gefið út bókina Kvikmyndafræði fyrir framhaldsskóla sem er hugsuð sem kennslubók í kvikmyndafræðum. Í bókinni, sem er ókeypis og hægt að hlaða niður, er fjallað um helstu hugtök í kvikmyndafræðum og farið yfir helstu áfanga kvikmyndasögunnar. Sérstakur kafli er um íslenskar kvikmyndir.

Um bókina segir á kynningarvef:

Bókin er byggð á grunnþáttum og lykilhæfni í aðalnámskrá framhaldsskóla sem eru: Læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun.

Þessir þættir koma fram í köflum bókarinnar:

Fyrstu kaflarnir þrír: Hvað er kvikmyndafræði? Hvað er kvikmynd? og sjöunda listgreinin fjalla um kvikmyndfræði sem fræðigrein og hvernig kvikmyndir eru séðar sem listaverk: Heilbrigði og velferð, sköpun.

Upphaf kvikmyndarinnar fjallar um þróun kvikmyndarinnar á fyrstu árum hennar og helstu frumkvöðla: læsi, sköpun, heilbrigði og velferð.

Þýskur expressjónismi fjallar um þjáða þjóð sem notar kvikmyndamiðilinn til þess að fjalla um angist þjóðarsálarinnar á milli tveggja heimsstyrjalda: lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð, sköpun.

Sovéska myndfléttan fjallar um kvikmyndagerð undir kommúnisma þar sem ungir kvikmyndagerðarmenn þróa nýjar aðferðir þrátt fyrir lítið fjármagn: Lýðræði og mannréttindi, sköpun.

Ítalska nýraunsæið fjallar um þjóð sem reynir að snúa aftur til raunveruleikans eftir blekkingafull stríðsár fasistastjórnar: Lýðræði og mannréttindi.

Franska nýbylgjan fjallar um hóp kvikmyndagerðarmanna sem notuðu hugvit sitt og menntun til þess að breyta kvikmyndum um alla tíð: Læsi og sjálfbærni, sköpun.

Ameríska nýbylgjan fjallar um nýja Hollywood og leikstjórana sem fluttu Bandaríkin inn í nýja tíma í kvikmyndagerð: Sköpun, læsi og sjálfbærni.

Íslenska kvikmyndavorið fjallar um frumkvöðla í íslenskrei kvikmyndagerð og þróun kvikmynda i fullri lengd á Íslandi: Heilbrigði og velferð, sköpun, sjálfbærni.

Femínísk kvikmyndafræði fjallar um bága stöðu kvenna í kvikmyndum: Jafnrætti, heilbrigði og velferð.
​​
Markmið bókarinnar er að flétta þessum grunnþáttum og lykilhæfni eins og þeim er lýst í aðalnámskrá inn í efnistökin svo að nemendur getið þróað siðferðilega hugsun, samfélagslega ábyrgð og þróað gagnrýna hugsun. Á eftir hverjum kafla eru verkefni sem miðast við að víkka þekkingu og gagnrýna hugsun.

Þetta rit á að vera aðgengileg nemendum rafrænt þeim að kostnaðarlausu þar sem þeir geta skoðað, lesið og lært gagnvirkt með þeim tækjum sem þeir kjósa og hafa aðgang að.

Þessu riti er ekki ætlað að vera alfræðirit sem er til í tómarúmi. Hún er skrifuð með nútímann í huga. Lesendur eru reglulega hvattir til þess að rannsaka upplýsingar á Internetinu og sækja sér frekari fróðleik þaðan. Helsta framlag þessa rits er kynna lesendur fyrir kvikmyndafræðinni, hvetja til ígrundunar og gagnrýnnar hugsunar og vísa þeim áfram veginn inn í sjálfbæra framtíð.

Síðasti kafli bókarinnar samanstendur af leiðbeiningum handa kennurum sem vilja nýta efni bókarinnar í kennslu. Leiðbeiningarnar og hollráð miðast við að kennarar geta kennt efnið að hluta til eða í heild sinni við flestar hugvísindagreinar en þó aðallega kvikmyndafræði, íslensku og sagnfræði.

Bókin var unnin í samstarfi við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og hlaut styrk frá Þróunarsjóði námsgagna RANNÍS.

Sjá nánar hér: kvikmyndafraedi

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR