Baltasar leikstýrir hrakningamyndinni „Adrift“ með Shailene Woodley

Baltasar Kormákur mun leikstýra kvikmyndinni Adrift næsta vor með Shailene Woodley (Snowden, The Fault in Our Stars) í aðalhlutverki. Þetta er hrakningasaga sem byggð er á sönnum atburðum, einskonar Gravity á úthafinu eins og Deadline orðar það.

Ungt par hyggst sigla skútu yfir Kyrrahafið en lendir í fellibyl 2.500 km frá næstu strönd þar sem stúlkan rotast. Þegar hún vaknar sér hún að báturinn og siglingatækin eru í rúst, mastrið horfið og kærastinn sömuleiðis ásamt björgunarbátnum. Við afar þröngan kost bíður hennar því hörð glíma við óblíð náttúruöflin á úthafinu, en henni tekst að halda lífi í 41 dag þegar hún finnur loks strendur Hawaii.

Deadline segir fjárfesta, dreifingaraðila og framleiðendur mjög spennta fyrir verkefninu og að Baltasar sé rétti maðurinn í verkið enda höndli hann hrakningamyndir vel, samanber Everest og Djúpið. Miðillinn segist gera ráð fyrir að gengið verði frá samningum um gerð myndarinnar í lok vikunnar.

Sjá nánar hér: Hot Package: Shailene Woodley, Baltasar Kormakur Set ‘Adrift’ In True Survival Tale

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR