Framlög til Kvikmyndamiðstöðvar hækkuð um 8% á næsta ári, veruleg hækkun til Kvikmyndasafns

Í fjárlagafrumvarpinu 2017 sem lagt var fram í dag er gert ráð fyrir að framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands hækki um 77,8 m.kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs. Þar af hækka kvikmyndasjóðir um 70 milljónir (sem er í samræmi við nýgert samkomulag) og rekstrarhlutinn um 7,8 milljónir.

Þó vekur athygli að reitur fyrir heildarupphæð til kvikmyndasjóðshluta KMÍ fyrir 2017 er auður, en hækkunarinnar er þó getið í skýringum annarsstaðar í frumvarpinu.

Kvikmyndamiðstöð Íslands fékk 976,8 m.kr. á fjárlögum 2016 en gert er ráð fyrir að framlagið verði 1.054,6 m.kr. 2017. Hækkunin nemur um 8% milli ára og skiptist féð með eftirfarandi hætti:

  • Kvikmyndasjóðir: 874,7 m.kr.
  • Rekstur Kvikmyndamiðstöðvar: 139,9 m.kr.
  • Endurskoðun laga og fleira (liður sem væntanlega verður að stærstum hluta notaður í miðastyrki og endurbætur á gömlum myndum ásamt endurskoðun laga): 40 m.kr.
    (Klapptré gerir þann fyrirvara að síðastnefndi liðurinn fannst ekki í frumvarpinu þrátt fyrir leit, en hann er í samkomulaginu).

Veruleg hækkun til Kvikmyndasafnsins

Þá vekur athygli að Kvikmyndasafnið fær mikla (og langþráða) hækkun, fer úr 65 m.kr. 2016 í 115,3 m.kr. 2017. Þetta er hækkun um 50,3 m.kr. eða næstum 78% milli ára.

Þetta kemur þó ekki alveg á óvart því Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hafði gefið í skyn í ræðu, á þingi kvikmyndasafna á Norðurlöndum sem fram fór hér á landi í haust, að hækkanir til safnsins væru í farvatninu og að bæta þyrfti við starfsmönnum og endurnýja tæknibúnað.

Gera má ráð fyrir að safnið ráðist þá meðal annars í kaup á vönduðum skanna til að yfirfæra og endurbæta gamlar kvikmyndir á stafrænan máta, en bæði tækjaskortur og mannekla hefur háð starfseminni um langa hríð.

 

Athugasemdir

álit

Um höfundinn
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ásgrímur Sverrisson.

Tengt efni