spot_img

„A Reykjavik Porno“ hlaut tvenn verðlaun á norrænni hátíð í New York

Albert Halldórsson í A Reykjavik Porno eftir Graeme Maley.
Albert Halldórsson í A Reykjavik Porno eftir Graeme Maley.

A Reykjavik Porno eftir Graeme Maley hlaut tvenn verðlaun á Nordic International Film Festival í New York um helgina. Albert Halldórsson, aðalleikari myndarinnar var valinn besti leikarinn og Arnar Þórisson hlaut verðlaun fyrir kvikmyndatöku.

Graeme Maley skrifaði handritið og leikstýrði og með önnur hlutverk fara Ylfa Edelstein og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Hlín Jóhannesdóttir og Birgitta Björnsdóttir hjá Vintage Pictures framleiða ásamt Makar Productions í Skotlandi.

A Reykjavik Porno fjallar um ungan mann sem forvitnin leiðir í ógöngur sem hafa alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar. Myndin gerist um miðjan vetur og myrkrið liggur yfir borginni þar sem Ingvar (Albert Halldórsson) leigir herbergi hjá konu sem munað hefur fífil sinn fegurri (Ylfa Edelstein). Hún hefur þróað með sér þráhyggju og áfengissýki og höndlar illa samverustundir Ingvars og kærustu hans, Ödu (Þuríði Blævi Jóhannsdóttir) upp í herberginu.

Ada sýnir Ingvari vefsíðu í símanum sem gengur út á að foreldrar eru sýndir í kynlífsathöfnum, óafvitandi af upptökunum. Hann fyllist forvitni og byrjar að snuðra, en sá áhugi leiðir af sér keðju slæmra atburða sem soga hann stöðugt dýpra niður.

Myndin var valin inn á kvikmyndahátíðina í Edinborg síðastliðið sumar og einnig á kvikmyndahátíðina í Gent í Belgíu en hún verður sýnd á Íslandi í vetur.

Vefur myndarinnar er hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR