Ágúst Ólafur Ágústsson: Fjárfesting ríkisins í kvikmyndageiranum skilar sér tvöfalt til baka

Frá tökum á The Secret Life of Walter Mitty á Íslandi sumarið 2012.
Frá tökum á The Secret Life of Walter Mitty á Íslandi sumarið 2012.

Á undanförnum sex árum hafa að meðaltali verið gerðar níu kvikmyndir á Íslandi á ári. Heildarveltan í geiranum jókst um rúm 37 prósent frá 2009 til 2014 og nam 34,5 milljörðum króna árið 2014. Þetta kom fram í máli Ágústs Ólafs Ágústssonar, aðjunkts við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, á Þjóðar­spegli Háskóla Íslands á föstudag.

Vísir fjallar um þetta en Ágúst Ólafur hefur rannsakað hagræn áhrif sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar á Íslandi í samstarfi við aðila í geiranum og má meðal annars benda á skýrsluna Umsvif sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar á Íslandi sem hann vann og kom út fyrr á árinu (rétt er að taka fram að Ágúst Ólafur notar víðari skírskotun en almennt tíðkast í kvikmyndageiranum, þar sem tölur hans innihalda einnig veltu í dreifingu myndefnis).

Í frétt Vísis segir:

„Samtals er bein og óbein velta framleiðslu og dreifingar á sjónvarps- og kvikmyndaefni um 45 milljarðar króna. Veltan er líklega hærri en þessi tala í raun og veru,“ sagði Ágúst Ólafur. Hann benti á að gríðarleg gróska hefði verið í greininni frá hruni. „Veltan í framleiðslu, dreifingu, kvikmyndasýningum og stað-starfsemi tvöfaldaðist frá 2008 til 2014 upp í 20,3 milljarða.

Til að setja veltuna í samhengi má benda á að hún er litlu minni en velta kjötiðnaðarins eða mjólkur­afurða. Til samanburðar er velta hótela og gististaða um 45 milljarðar króna,“ sagði hann. „Hún er tíu sinnum meiri en velta bókaútgáfu í landinu.“

Ágúst Ólafur benti á að störfum í greininni hefði líka farið fjölgandi. „Fjöldi ársverka er um 1.300 sem er á við þrjú stóriðjuverkefni. Bein og óbein áhrif eru um 2.000 ársverk.“

Skatttekjur hins opinbera vegna umsvifa aðila í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum eru um 7,3 milljarðar króna, auk þess eru skatttekjur hins opinbera vegna áhrifa þeirra á ferðamannafjölda metnar á um 4,6 milljarða króna. Fjórtán prósent aðspurðra sögðu í könnun Ferðamannastofu alþjóðlegt myndrænt efni skýra ferð sína til Íslands og jafngildir þetta rúmlega fjögurra milljarða veltu. „Auðvitað tökum við þessum tölum með fyrirvara,“ sagði Ágúst Ólafur.

„Samanlagt eru þetta um 12 milljarðar króna sem hið opinbera fær í auknar skatttekjur vegna sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðarins. Þá er ekki búið að taka inn stefgjöld eða hagnað fyrirtækja. Á móti eru framlög ríkisins til kvikmyndaiðnaðarins ásamt öllum framlögum til Ríkisútvarpsins tæpir 5,9 milljarðar króna,“ sagði Ágúst Ólafur.

Eins og fréttavefurinn Vísir hefur greint frá hefur endurgreiðsla á framleiðslukostnaði kvikmynda úr ríkissjóði verið 20 prósent frá árinu 1999* og námu endurgreiðslur í fyrra vegna þessa 793 milljónum króna.

*Aths: Klapptrés: Þetta er ekki alveg nákvæmt hjá Vísi. Endurgreiðslur voru 12% frá 1999 til 2006, 14% 2006-2009, 20% 2009-2016 og verða 25% frá 2017.

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR