“Andrúmsloftið er ágætt og leikararnir hafa miklu við að bæta en persónusköpunin er flöt, handritið gloppótt og samtölin svo stíf að heildin gliðnar í sundur,” segir Tómas Valgeirsson um Grimmd Antons Sigurðssonar í Fréttablaðinu.
Tómas segir meðal annars:
Myndin fer því miður alls ekki vel af stað. Tónninn er strax gefinn með kjánalegri upphafssenu sem framkallaði meira að segja nokkur fliss í salnum sem ég sat í. En fljótlega fara þarna að sjást merki um óslípað flæði, gallaða hljóðvinnslu og leikstjórn þar sem ekki er haldið nægilega fast um efnistaumana.
Samtölin eru oft stirð og háfleyg, eins og þau séu stundum beinþýdd úr vondum Hollywood-trylli. Einnig er mikið af slæmum útskýringarsamtölum og ósannfærandi lausnum. Það er ýmislegt í handritinu sem bregður fyrir eða hverfur óútskýranlega eftir þörfum. Ýmsir litlir söguþræðir eru endasleppir og nokkrum persónum hefði algerlega mátt sleppa, þó ekki væri nema til að gefa öðrum meira svigrúm, þróa sambönd og persónuleika. Oft fékk ég á tilfinninguna að mikilvægar senur hefðu verið klipptar úr.
Atburðarásin snýst meira um að villa stöðugt um fyrir áhorfendum en að einbeita sér að einhverju bitastæðara. Í allri sakamálasögunni er leikið með truflandi og athyglisverð þemu en lítið verður úr þeim, giskleikurinn verður að þurrum farsa og spennubyggingin missir allan kraft þegar leikstjórinn fellur í þá gryfju að sýna stundum of mikið of snemma, eða gefa upp svör löngu eftir að þau eru orðin öllum ljós. Endirinn er líka handónýtur og sagan vekur í rauninni fleiri spurningar en hún svarar, ekki á góðan hátt.
Að mestu er hér annars að finna hinn fínasta hóp leikara. Liðið getur verið mistrúverðugt eftir því hvernig samræðurnar (eða aðstæðurnar) eru skrifaðar, en Margrét Vilhjálmsdóttir, Hannes Óli, Sveinn Ólafur, Atli Rafn og Pétur Óskar standa sig nógu vel til þess að tryggja það að slök kvikmynd verði bærilegri. Sama má segja um ýmsa í aukahlutverkum sem skilja eitthvað eftir sig, til dæmis Jörund Ragnarsson, Ólafíu Hrönn eða „Jónana“ tvo, sem meira hefði mátt gera við. Salóme Gunnarsdóttir er einnig fín sem hin brotna móðir stúlknanna, þótt hún geri fátt annað en að skjóta upp kollinum reglulega og gráta úr sér augun. Gráturinn er vissulega sannfærandi, en persónan er í besta falli einhliða. Það sama á við um þær flestar.
Kvikmyndataka og klipping er í meðalgóðu standi, þótt hnökrum bregði fyrir í rennslinu og lýsingin í kvöldsenum eða dökku umhverfi sé ekki alltaf að gera sig. Einnig stemmir tónlistin ekki alveg við og dregur frekar úr andrúmsloftinu en að styrkja það. Eins og áður kom fram hefði meiri tími mátt fara í hljóðvinnuna, „döbbin“ svokölluðu voru heldur ekki alltaf vel falin. Vandræðalegt.
Segja má að Grimmd standi undir nafni, en hún er undarlega áhrifalaus miðað við umfjöllunarefnið. Með betri úrvinnslu hefði þetta mögulega getað gengið upp sem sjónvarpsmyndasería, því hér eru alltof margir boltar á lofti. Myndin reynir að gera of mikið en verður að lokum að ósköp litlu. Henni er þó ekki alls varnað og það er hæfileikaríkum leikurum að þakka, vissum áherslum í stílnum og prýðilegri förðun. En skynsamlegra væri að leita til betri sakamálasagna, innlendra eða erlendra.
Sjá nánar hér: visir.is